Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2021

78/2006

Reglugerð um skylduvátryggingar vegna loftferða.

1. gr. Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að setja lágmarkskröfur um vátryggingar fyrir flugrekendur og umráðendur loftfara að því er varðar farþega, farangur, farm og þriðju aðila.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla flugrekendur og umráðendur loftfara sem fljúga innan, inn á, út úr eða yfir yfirráðasvæði Íslands.

Reglugerðin gildir ekki um:

  1. ríkisloftför, sem um getur í b-lið 3. gr. Chicago samningsins sem undirritaður var í Chicago 7. desember 1944,
  2. flugmódel með skráðan hámarksflugtaksmassa 20 kg,
  3. flugvélar sem eru settar á loft með fótafli (þ.m.t. vélknúna svifvængi og svifdreka),
  4. fasta loftbelgi,
  5. flugdreka,
  6. fallhlífar (þ.m.t. vængfallhlífar),
  7. loftför, þ.m.t. svifflugur með skráðan hámarksflugtaksmassa undir 500 kg og fis sem
    - eru ekki notuð í atvinnuskyni eða
    - eru notuð við staðbundna flugkennslu sem hefur ekki í för með sér flug yfir landamæri
    að því er varðar vátryggingaskyldu samkvæmt þessari reglugerð sem tengist áhættu af völdum stríðs og hryðjuverka.

3. gr. Eigin áhætta vátryggingataka.

Heimilt er vátryggingataka og vátryggjanda að semja um eigin áhættu vátryggingataka, en slíkt má í engu skerða rétt þriðja manns til greiðslu bóta frá félaginu. Skal það koma fram í vátryggingarskírteini, skilmálum eða iðgjaldskvittun, sé samið um eigin áhættu.

5. gr. Ábyrgðartrygging vegna farþega í loftförum sem ekki eru rekin í ábataskyni.

Með vísan til 1. mgr. 6. gr. Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 785/2004 frá 21. apríl 2004, að því er varðar bótaábyrgð vegna líf- og líkamstjóns farþega skal lágmarksvátryggingarvernd nema 250.000 SDR fyrir hvern farþega í loftfari sem ekki er rekið í ábataskyni með skráðan hámarksflugtaksmassa 2700 kg eða minni.

6. gr. Vátrygging fellur úr gildi.

Falli vátrygging skv. reglugerð þessari úr gildi, ber félagið allt að einu ábyrgð í tvo mánuði frá því er það tilkynnti Flugmálastjórn Íslands að vátryggingin væri úr gildi fallin, enda hafi loftfarið eigi á þeim tíma verið strikað af loftfaraskrá, flugleyfi skv. c-lið, 3. gr. laga nr. 60/1998 verið afturkallað, eða önnur vátrygging verið tekin sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar.

7. gr. Vátryggjendur.

Vátryggingar íslenskra loftfara, skv. reglugerð þessari, skulu teknar hjá vátryggingafélögum sem Fjármálaeftirlitið staðfestir að hafi leyfi til þeirrar tryggingastarfsemi sem hér er kveðið á um, sbr. lög nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með síðari breytingum.

Vátryggingaskilmálar, sem reglugerð þessi tekur til, skulu látnir Fjármálaeftirlitinu og Flugmálastjórn í té áður en þeir eru boðnir vátryggingatökum.

8. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að 5 árum.

9. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 785/2004 frá 21. apríl 2004 um kröfur um vátryggingar fyrir flugrekendur og umráðendur loftfara með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 157/2004 frá 29. október 2004, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 28. júní 2007, bls. 136-141.
  2. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1118 frá 27. apríl 2020 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 785/2004 um kröfur um vátryggingar fyrir flugrekendur og umráðendur loftfara, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2021 frá 23. apríl 2021, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 34 frá 12. maí 2021, bls. 94-95.

10. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í 131. gr., sbr. 145. gr., loftferðalaga nr. 60/1998 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast gildi þann 1. mars 2006. Jafnframt fellur þá úr gildi reglugerð nr. 551/1998 um skylduvátryggingar vegna loftferða, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.