Meðferð sjúkraskrárupplýsinga og persónuvernd
Réttur einstaklinga varðandi skráningu og aðgengi að upplýsingum í sjúkraskrá
Réttur til að takmarka aðgang að sjúkraskrá
Sá einstaklingur sem viðkomandi upplýsingar varða eða umboðsmaður hans geta ákveðið, þegar hann fær meðferð, að sjúkraskrárupplýsingar vegna hennar verði ekki aðgengilegar öðrum en þeim sem skráir upplýsingarnar og umsjónaraðila sjúkraskrárinnar og, eftir atvikum, öðrum tilteknum heilbrigðisstarfsmönnum.
Aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta þó fengið aðgang að sjúkraskrá ef það telst nauðsynlegt vegna meðferðar og þarf þá að upplýsa viðkomandi einstakling um það og um að synjun um að heimila nauðsynlegan aðgang að sjúkraskránni geti jafngilt því, eftir atvikum, að meðferð hafi verið hafnað, samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.
Réttur varðandi eyðingu eða leiðréttingu upplýsinga úr sjúkraskrá
Almennt er óheimilt að eyða upplýsingum í sjúkraskrám. Viðkomandi einstaklingur eða umboðsmaður hans getur látið gera athugasemd í sjúkraskrá ef hann telur að upplýsingar þar séu rangar eða villandi.
Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimilt með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá viðkomandi enda sé þess gætt að ekki glatist upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna réttarágreinings.
Neiti umsjónaraðili að leiðrétta sjúkraskrárupplýsingar sem viðkomandi einstaklingur telur bersýnilega rangar eða villandi getur einstaklingurinn skotið þeirri synjun til Embættis landlæknis með kæru.
Óheimilt er að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá nema með samþykki landlæknis.