Meðferð sjúkraskrárupplýsinga og persónuvernd
Aðgangur að sjúkraskrám
Aðgangur heilbrigðisstarfsmanna
Heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að sjúkraskrá viðkomandi einstaklings með ákveðnum lögbundnum takmörkunum.
Umsjónaraðili sjúkraskráa getur veitt öðrum starfsmönnum og nemum í starfsnámi í heilbrigðisvísindum, sem undirgengist hafa sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn og koma að meðferð viðkomandi sjúklings, heimild til aðgangs að sjúkraskrá hans að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfa þeirra í hans þágu.
Aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum, það er, sjúkraskrárupplýsingum sem viðkomandi sjúklingur sjálfur telur að flokka beri sem slíkar, skal takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn sem nauðsynlega þurfa upplýsingarnar vegna meðferðar hans.
Aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum skal að jafnaði takmarkaður við þá heilbrigðisstarfsmenn sem starfa innan þeirrar einingar eða deildar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem meðferð er veitt.
Aðgangur annarra heilbrigðisstarfsmanna að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum er óheimill nema með samþykki viðkomandi sjúklings.
Heimilt er að víkja frá framangreindum aðgangstakmörkunum ef það telst nauðsynlegt vegna öryggis heilbrigðisstarfsmanna.
Aðgangur sjúklings
Sjúklingur eða umboðsmaður hans eiga rétt á aðgangi að sjúkraskrá viðkomandi sjúklings í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. Beiðni þar að lútandi skal beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar.
Sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar viðkomandi sjúklingi.
Ef sá sem þannig hefur veitt upplýsingar um viðkomandi sjúkling er látinn eða horfinn eða neitar á óréttmætum grundvelli að veita samþykki sitt getur landlæknir ákveðið að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, í heild eða að hluta.
Fái sjúklingur eða umboðsmaður hans synjun um aðgang að sjúkraskrá er hægt að bera slíka ákvörðun undir Embætti landlæknis.
Aðgangur annarra
Umsjónarmaður sjúkraskrár getur veitt nánum aðstandendum látins einstaklings aðgang að sjúkraskrá hans sé þess óskað.
Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis.
Heilbrigðisyfirvöld, sem lögum samkvæmt fá til umfjöllunar kvörtun eða kæru sjúklings eða umboðsmanns hans vegna meðferðar sjúklingsins, eiga rétt til aðgangs að sjúkraskrá viðkomandi með sama hætti og sjúklingurinn sjálfur.
Um aðgang að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna fer samkvæmt lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
Sjúklingur eða umboðsmaður hans getur lagt bann við því að sjúkraskrárupplýsingar hans séu varðveittar persónugreinanlegar í safni heilbrigðisupplýsinga til notkunar í vísindarannsóknum og skal það þá skráð í sjúkraskrá hans.