Fara beint í efnið

Að eignast barn

Upplýsingar um réttindi verðandi foreldra og þá þjónustu sem hið opinbera veitir á þessum tímamótum og á fyrstu árum barnsins.

Fæðingarorlof

Eftirfarandi leiðir eru í boði fyrir verðandi foreldra til að vera heima að annast nýtt barn fyrstu mánuðina eftir fæðingu, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrar geta einnig átt rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks við fósturlát eða andvanafæðingu.

  • Fæðingarorlof er launað orlof í boði fyrir verðandi foreldra sem eru í meira en 25% starfshlutfalli í 6 mánuði fyrir fæðingardag barns. Upphæðir greiðslna taka mið af launum. Á vef Vinnumálastofnunar er hægt að reikna áætlaðar greiðslur.

Sækja um fæðingarorlof

  • Fæðingarstyrkur er ætlaður fólki í námi, í minna en 25% starfshlutfalli eða utan vinnumarkaðar.

Sækja um fæðingarstyrk

  • Foreldraorlof er leyfi frá launuðum störfum án réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Umsóknir og upplýsingar um fæðingar- og foreldraorlof.

Vefur fæðingarorlofssjóðs

Mæðravernd á meðgöngu

Markmið mæðraverndar heilsugæslunnar eru að stuðla að heilbrigði móður og barns, veita ráðgjöf og bregðast við áhættuþáttum.

Viðtöl og skoðanir eru í boði frá upphafi meðgöngu og fram að fæðingu. Fyrsta viðtal við ljósmóður er gjarnan í síma fljótlega eftir að þungun er staðfest og þá er gefinn tími í fyrstu skoðun, sem fer fram við 8–12 vikna meðgöngu. Fjöldi mæðraskoðana fer eftir aðstæðum, oftast 7–10 skipti. Milli skoðana er hægt að fá símaráðgjöf hjá ljósmóður.

Nánar um mæðravernd og skimanir á meðgöngu á vef Heilsuveru.

Kostnaður við þjónustu á meðgöngu

Á meðgöngu og eftir fæðingu barns er eftirfarandi þjónusta án endurgjalds:

Verðandi foreldrum býðst einnig viðbótarþjónusta sem þarf að greiða fyrir:

Fæðingarstaðir

Flestar fæðingar fara fram á sjúkrahúsum í dag þó heimafæðingum hafi fjölgað mikið á undanförnum árum.

Fæðingarstaðir á Íslandi:

  • Fæðingarvakt Landsspítalans, Reykjavík

  • Fæðingarheimili Reykjavíkur 

  • Fæðingarheimilið Björkin

  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Reykjanesbæ

  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Selfossi

  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Vestmannaeyjum

  • Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstað

  • Sjúkrahúsið á Akureyri

  • Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði

  • Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi

Hægt er að kynna sér þjónustu á hverjum stað á vef Heilsuveru og velja stað sem hentar móður í samvinnu við ljósmóður í mæðravernd.

Einnig er hægt að fæða heima ef

  • verðandi móðir er hraust og meðgangan hefur verið án áhættuþátta,

  • meðgöngulengdin er á milli 37-42 vikur,

  • gengið er með eitt barn sem er í höfuðstöðu.

Á vefsvæði Ljósmæðrafélags Íslands má finna lista yfir ljósmæður sem taka að sér heimafæðingar. Ekki er víst að listinn sé tæmandi en ljósmóðir í mæðravernd getur líka aðstoðað við að finna ljósmóður til að sinna heimafæðingu.

Ungbarnavernd

Ungbarnavernd stendur öllum foreldrum til boða þeim að kostnaðarlausu.

Markmið ung- og smábarnaverndar er að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og heilbrigðisfræðslu til fjölskyldna þeirra. Fylgst er með þroska barna frá fæðingu til skólaaldurs og er áhersla lögð á stuðning við fjölskylduna.

Sýni barnið frávik er foreldrum velkomið að hafa samband við hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd umfram skipulagðar skoðanir.

Nánar má lesa um ung- og smábarnavernd á vef Heilsuveru.

Nafngjöf

Öll börn þurfa að hafa skráð nafn í Þjóðskrá innan 6 mánaða aldurs.

Skráningin getur átt sér stað:

  • við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi/lífsskoðunarfélagi

  • með tilkynningu um nafngjöf/skírn til Þjóðskrár Íslands

  • með tilkynningu um nafngjöf til prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags/lífsskoðunarfélags.

Þegar nafn hefur verið ákveðið og það er til á mannanafnaskrátilkynna nafnið til Þjóðskrár.

Nýjum nöfnum er bætt á mannanafnaskrá reglulega. Hægt er að sækja um fá nýtt nafn skráð á mannanafnaskrá. Gjald er tekið fyrir úrskurð frá mannanafnanefnd.

Nánar um nafnareglur.

Faðerni

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína.

Ef móðir er hvorki í hjónabandi né sambúð við fæðingu barns verður að feðra það sérstaklega. Það þýðir að afla þarf viðurkenningar manns þess sem hún hefur lýst sem föður barns. Tilkynning um faðerni skal berast til Þjóðskrár. Sé móðir ekki með skráða hjúskaparstöðu í Þjóðskrá þarf hún að skila inn hjúskaparstöðuvottorði svo hægt sé að feðra barnið.

Ef ágreiningur er um faðerni þá getur lýstur barnsfaðir óskað eftir faðernisprófi. Þá er honum gefinn kostur á að undirrita sérstaka yfirlýsingu um að hann óski eftir að blóðrannsókn fari fram og að hann sé reiðubúinn að standa straum af þeim kostnaði sem þær rannsóknir hafi í för með sér, viðurkenni hann faðernið eftir að niðurstaða liggur fyrir.

Neiti lýstur barnsfaðir að greiða kostnað af blóðrannsókn er móður kynnt sú niðurstaða og henni leiðbeint um að höfða þurfi mál fyrir dómstólum til staðfestingar á faðerni barns.

Þeir sem geta höfðað faðernismál eru; barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig vera föður barnsins.

Nánari upplýsingar um feðrun og faðernisviðurkenningu.

Dagvistun

Dagforeldrar

Í flestum þéttbýliskjörnum landsins bjóða dagforeldrar/dagmæður upp á dagvistun 6–18 mánaða barna, áður en þau geta hafið nám á leikskóla. Með dagvistun er átt við gæslu barna á tímabilinu milli kl. 7 og 19 á virkum dögum. Dagforeldri/dagmamma er oftast með gæslu á heimili sínu eða í húsnæði í eigu sveitarfélaga, svo sem gæsluvöllum.

Ráðlagt er að sækja um dagvistun með góðum fyrirvara, allt að 12 mánaða, þar sem biðlistar geta verið langir. Mismunandi reglur gilda hjá sveitarfélögum um niðurgreiðslu á þjónustu dagforeldra.

Upplýsingar um dagforeldri og umsókn um niðurgreiðslu er á vefjum sveitarfélaga.

Ungbarnaleikskólar

Nokkur sveitarfélög bjóða upp á dagvistun barna í ungbarnaleikskólum, eða á sérdeildum fyrir yngri börn í húsnæði leikskólanna. Mismunandi reglur gilda hjá sveitarfélögum um niðurgreiðslu vistunargjalda.

Upplýsingar um ungbarnaleikskóla og umsókn um niðurgreiðslu má nálgast á vefjum sveitarfélaga

Leikskólamál

Leikskólinn – fyrsta skólastigið

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og ætlaður börnum undir 6 ára aldri. Hann er ætlaður öllum börnum, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu eða trú.

Algengast er að börn sæki leikskóla frá 18 mánaða aldri þar til þau hefja nám í grunnskóla. Börn dvelja allt frá fjórum klukkustundum upp í níu og hálfa klukkustund hvern virkan dag á leikskólum.

Foreldrar sækja um leikskóladvöl fyrir barn sitt í því sveitarfélagi sem barnið er með lögheimili. Þegar barn byrjar í leikskóla er gerður dvalarsamningur milli skólans og foreldris og er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður.

Nánari upplýsingar um leikskóla, leikskólagjöld og sérfræðiþjónustu við leikskóla.

Barnabætur

Barnabætur eru ákveðin upphæð sem greidd er til foreldra með hverju barni fram að 18 ára aldri. Rétt til barnabóta eiga þeir sem eru búsettir hér á landi og bera hér ótakmarkaða skattskyldu.

Upphæð barnabóta fer eftir tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og barnafjölda. Þær þarf ekki að sækja um sérstaklega. Hafi foreldrar skilið að skiptum greiðast barnabætur því foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá. Þær teljast ekki til tekna og eru ekki skattskyldar.

Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári:

  • 1. febrúar 

  • 1. maí

  • 1. júní 

  • 1. október

Fyrri tvær greiðslurnar eru byggðar á áætluðum tekjum. Síðari tvær eru byggðar á uppgefnum tekjum samkvæmt skattskýrslu.

Nánari upplýsingar um barnabætur og útreikning þeirra.

Hér má finna upplýsingar um fjárhæðir barnabóta 2020 og hvernig skerðing á þeim reiknast.


Fjárhagsaðstoð vegna frjósemisvandamála

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í endurgreiðslu vegna kostnaðar við tæknifrjóvganir:

  • 5% af fyrsta skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).

  • 65% af öðru til fjórða skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga miðast við gjaldskrá sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út.

Nánari upplýsingar um skilmála má finna í reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Nánar um aðstoð vegna ófrjósemi.