10. maí 2024
10. maí 2024
Vorið kemur
Nú þarf að huga að sólarvörnum. Með vorinu hækkar sól á lofti og eykst þá styrkur útfjólublárrar geislunar frá sólu. Svokallaður UV-stuðull segir til um styrk útfjólublárrar geislunar. Mælt er með að verja sig fyrir sólinni þegar UV stuðullinn er 3 eða hærri. Á Íslandi getur UV stuðullinn verið 3 eða hærri um það bil frá maí til september.
Mælt er með því að verja sig fyrir útfjólubláu geislum sólar m.a. því að geislunin veldur húðskemmdum sem auka líkur á húðkrabbameini síðar á ævinni. Við minnum sérstaklega á börnin í þessu sambandi því áhættan er meiri fyrir þau og yngri börn hafa varla vit á að verja sig sjálf.
Á vef Geislavarna ríkisins má fylgjast með UV stuðlinum í Reykjavík í rauntíma http://uv.gr.is/. Myndin hér að neðan sýnir UV stuðulinn í Reykjavík frá miðnætti þann 7. maí til miðnættis 10. maí. Skýin dempa útfjólubláu geislunina sem berst til jarðar og því nær UV stuðullinn ekki þremur þann 7. maí en 8. og 9. maí voru hins vegar sólríkir dagar þótt skýjað hafi verið á köflum.
Sé UV-stuðullinn 3 eða hærri er mælt með því að verja sig fyrir geislum sólar, t.d. með flíkum, sólgleraugum, sitja í skugga, nota sólarvörn og/eða takmarka útiveru á tímum sem sólin er sterkust. Sólin er sterkust á tímum þegar hún er hæst á lofti, eins og sést á myndinni hér að ofan. Mælt er gegn því að hafa húðina óvarða úti í sólinni lengur en í skamma stund. Einnig er gott að muna að styrkur geislunarinnar getur verið mikill þótt svalt sé í veðri.
Nýlega var birt grein með samantekt á nýjustu sönnunum þess að hve miklu leyti útfjólublá geislun er orsök húðkrabbameins. Í greininni er einnig fjallað um nýjustu ráðleggingarnar um hvernig best er að verjast útfjólublárri geislun sólar. Greinin heitir Skin cancers are the most frequent cancers in fair-skinned populations, but we can prevent them og hana má finna hér. Íslenska heiti greinarinnar er Húðkrabbamein eru algengustu krabbameinin hjá fólki með ljósa hörund en það er hægt að koma í veg fyrir þau.
Að lokum bendum við á eftirfarandi fræðsluefni:
Viðtal við Birnu Þórisdóttir, sérfræðing í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu í Morgunútvarpi RÚV https://www.ruv.is/frett/ekkert-sem-kallast-holl-solbrunka.
Í skjali Landlæknisembættisins, Verum klár í sólinni, er að finna ýmis ráð sem gott er að rifja upp.
Á Heilsuveru er vefsíðan Örugg í sólinni með gagnlegar upplýsingar.
Á vef Heilsugæslunnar er grein eftir Margréti Héðinsdóttur hjúkrunarfræðing um þetta efni.