Fara beint í efnið

18. september 2024

Leyfi til notkunar öflugra leysa og áhersla á námskeið um örugga notkun leysa

Notkun öflugra leysa og leysibenda er háð leyfi Geislavarna ríkisins. Einungis þau sem hafa til þess fullnægjandi þekkingu geta fengið leyfi til notkunar öflugra leysa. Á síðustu misserum hafa hins vegar komið upp atvik um ólögmæta notkun öflugra leysa á viðburðum. Geislavarnir hafa í framhaldi af þessum atvikum uppfært verklag við úrvinnslu umsókna með því að leggja aukna áherslu á að leyfishafar hafi lokið við námskeið um örugga notkun leysa.

Lasergeisli

Við afgreiðslu umsókna vegna notkunar öflugra leysa á viðburðum fyrir almenning munu Geislavarnir nú í meira mæli gera úttekt á aðstæðum áður en leyfi verða gefin út. Fyrir úttekt á aðstæðum er innheimt tímagjald samkvæmt gjaldskrá Geislavarna, sbr. lið h. í 8 gr. reglugerðar nr. 171/2021. Þau sem hafa lokið fullnægjandi námskeiði um örugga notkun leysa (e. laser safety officer course) á viðburðum geta hins vegar fengið undanþágu á úttekt með því að framvísa viðeigandi skírteini. 

Öflugir leysar geta valdið skaða á augum og húð ásamt því að geta valdið íkveikju. Leyfishafi þarf því að hafa fullnægjandi þekkingu á búnaðnum og nauðsynlegum öryggisráðstöfunum. Leysar í flokki 3B og 4 (e. class 3B, class 4) teljast til öflugra leysa skv. reglugerð nr .171/2021. Leysar eiga að vera merktir með upplýsingum um hvaða flokki þeir tilheyra ásamt því að vera CE-merktir. 

Notkun öflugra leysa á viðburðum er háð leyfi Geislavarna. Sótt er um leyfi til notkunar öflugra leysa og leysibenda á vefsíðu Geislavarna hér en um notkun öflugra leysa gildir reglugerð nr. 171/2021 um innflutning og notkun leysa, leysibenda og IPL-tækja.