6. desember 2023
6. desember 2023
Leki í Sellafield hefur ekki áhrif á Íslandi
Fjölmiðlar hafa fjallað um áhyggjur vegna öryggismála hjá bresku kjarnorkuvinnslustöðinni í Sellafield.
Í grein í The Guardian er sagt frá leka geislavirkra efna úr sílóum í jarðveg á svæðinu.
Það hefur lengi verið þekkt að sprungur hafa verið í sílóunum í Sellafield. Sprungurnar hafa valdið leka en erfitt hefur verið að finna þær og laga. Úrbætur á þessu hafa staðið yfir í fjölda ára og er ætlað að auka öryggi við geymsluna. Í tengslum við úrbæturnar hefur takmörkuð losun geislavirkra efna út í umhverfið verið heimiluð. Bæði Kjarnorkuöryggis- og Umhverfisstofnun Bretlands hafa eftirlit með framkvæmdunum og fylgjast náið með að losunin sé innan þess sem heimilað hefur verið.
Áhrif losunarinnar í jarðveg er staðbundin og hefur ekki áhrif á Íslandi. Það er mat Geislavarna að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar þá séu engar líkur á að hægt verði að mæla áhrif þessarar heimiluðu losunar hér við land. Geislavarnir ríkisins munu áfram fylgjast grannt með fréttaflutningi og gangi mála í Sellafield.
Geislavarnir ríkisins mæla reglubundið geislavirkni í sjó við Ísland í samstarfi við Hafrannsóknastofnun sem sér um sýnatöku.