9. júlí 2024
9. júlí 2024
Gætið varúðar í sólinni
Um þessar mundir er styrkur útfjólublárrar geislunar frá sólu í hámarki á Íslandi. Svokallaður UV-stuðull er notaður til að segja til um styrk hennar.
Daglega eru birtar mælingar á styrk útfjólublárrar geislunar á Íslandi á vef Geislavarna á slóðinni uv.gr.is.
Hæstu mögulega gildi UV stuðulsins á Íslandi er um 6. Mælst er til þess að sólarvarnir séu notaðar þegar UV-stuðull er 3 eða hærri. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri vísindagrein sem ber nafnið Skin cancers are the most frequent cancers in fair-skinned populations, but we can prevent them. Þar kemur fram að húðkrabbamein eru algengustu krabbameinin hjá fólki með ljósa húð. Flest þessara húðkrabbameina eru af völdum útfjólublárrar geislunar og því er að miklu leyti hægt koma í veg fyrir þau. Mismunandi leiðir eru til að verjast geislum sólar t.d. með flíkum, með því að sitja í skugga, nota sólkrem og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól. Huga þarf sérstaklega að börnunum í þessu sambandi þar sem að þau eru viðkvæmari fyrir geislum sólar en fullorðnir.
UV stuðullinn hækkar þegar ferðast er suður á bóginn. Sem dæmi má nefna verður UV-stuðullinn 9 á Tenerife í dag, þegar sólin er hæst á lofti. Til að sjá hvenær þörf er á að nota sólarvarnir yfir daginn þá er t.d. hægt að nota alþjóðlega UV smáforritið SunSmart. Þar er hægt að sjá UV stuðulinn þar sem maður er staðsettur, hvar sem maður er í heiminum.
Könnun Gallup á sólarvenjum ungmenna árið 2023 gefur sérstakt tilefni til að minna foreldra og ungmenni á sólarvarnir í sólarlandarferðum. Könnunin sýndi að um 75% ungmenna á aldrinum 12-17 ára höfðu brunnið á húð einu sinni eða oftar í sólarlandaferð á síðastliðnu ári. Algengast var að ungmennin höfðu orðið fyrir sólbruna í sólarlandaferðum en um 30% höfðu sólbrunnið í sólarbaði á Íslandi, um 24% á öðru ferðalagi erlendis, um 19% í sumarvinnu á Íslandi og að lokum um 9% í ljósabekkjum.