22. júní 2023
22. júní 2023
Ekki brenna í sólinni
Nú þegar útfjólubláu (UV) geislar sólarinnar eru hvað sterkastir minna Geislavarnir landsmenn á að grípa til sólarvarna þegar þess er þörf.
Nú þegar útfjólubláu (UV) geislar sólarinnar eru hvað sterkastir minna Geislavarnir landsmenn á að grípa til sólarvarna þegar þess er þörf. Við minnum sérstaklega á börnin í þessu sambandi en sólbruni veldur húðskemmdum sem geta leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni og eru börnin viðkvæmari fyrir UV-geislun en fullorðnir. Sýnt hefur verið fram á að UV-geislun er helsta orsök húðkrabbameins.
Það er hægt að verja sig fyrir geislum sólar með ýmsum hætti, t.d. með höfuðfati eða öðrum flíkum, sitja í skugga, nota sólkrem og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól. Einnig er hægt að verja sig með því að tímasetja útiveru með tilliti til þess hvernig styrkur útfljólubláu geislunarinnar er breytilegur yfir daginn. Styrkurinn er mestur á tímabilinu þegar sólin er hæst á lofti en dæmi um hvernig styrkurinn er breytilegur yfir daginn má sjá t.d. á vef Finnsku veðurstofunnar.
Á vef Geislavarna ríkisins má fylgjast með því hvernig svokallaður UV-stuðull er nú með hæsta móti á sólríkum dögum en UV-stuðullinn segir til um styrk útfjólublárrar geislunar sem getur valdið skaða á bæði húð og augum fólks. Sé UV-stuðullinn 3 eða hærri þá er þörf á að verja sig fyrir geislum sólar og gott er að vita að styrkur UV-geislunar getur verið mikill þótt svalt sé í veðri og þó skýjað sé. Einnig ber að nefna að t.d. sandur og vatn endurvarpa UV-geislunum sem eykur styrk þeirra enn frekar.
Í alþjóðlega UV appinu SunSmart má sjá hvenær þörf er á að nota sólarvarnir yfir daginn, hvar sem maður er í heiminum. Gjaldfrjálst er að hlaða niður appinu bæði í App store og Google Play.
Geislavarnir hvetja fólk til að fylgjast með UV-stuðlinum á vefsíðunni http://uv.gr.is/ eða í SunSmart appinu og nota sólarvarnir þegar UV-stuðullinn er 3 eða hærri.
Að lokum bendum við á eftirfarandi fræðsluefni:
Umfjöllun um sólarvörn og UV-stuðul í Kastljósinu
Viðtal við Birnu Þórisdóttir, sérfræðing í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu í Morgunútvarpi RÚV
Á síðu Landlæknisembættisins Verum klár í sólinni er að finna ýmis ráð sem gott er að rifja upp.
Á Heilsuveru er síðan Örugg í sólinni með gagnlegar upplýsingar.
Á vef Heilsugæslunnar er grein eftir Margréti Héðinsdóttur hjúkrunarfræðing um þetta efni.