Breytingar á heilsufari eldra fólks
Með hækkandi aldri er eðlilegt að vart verði ýmissa breytinga á heilsufari og hætta á sjúkdómum eykst. Dæmi um slíkt eru sjón og heyrn. Þá geta minnistruflanir farið að gera vart við sig. Samspil aldurstengdra breytinga, sjúkdóma og lyfjanotkunar getur leitt af sér af sér minni færni. Mikilvægt er að bregðast við öllum breytingum og leita sér aðstoðar.
Áfengisvandi eldra fólks er falinn vandi og lítt ræddur. Neysla áfengis- og vímuefna hefur aukist almennt, líka í eldri aldurshópum samkvæmt upplýsingum frá bráðamóttöku og öðrum deildum sjúkrahúsa. Þá er misnotkun ávanabindandi lyfja líka vandamál í hjá þessum aldurshópum.
Ekki er óalgengt að þeir sem áður hafa haft stjórn á neyslu áfengra drykkja, missi tökin þegar aldurinn færist yfir. Af þeim sem eru eldri en 60 ára og leggjast inn á Vog eru yfir 50% sem drekka áfengi daglega.
Gott er að byrja á því að setja sig í samband við heilsugæslu eða heimilislækni varðandi aðstoð við niðurtröppun. Ef þörf er á inniliggjandi afeitrun skal setja sig í samband við SÁÁ, ýmist með því að hringja í síma 530 7600 eða skoða upplýsingar á heimasíðu samtakanna
Þegar eldra fólk kemur inn á öldrunardeild og í viðtali kemur í ljós að drykkja er vandamál, getur verið erfitt og viðkvæmt að ræða það.
Ástæða aukinnar neyslu áfengis á efri árum getur meðal annars verið sú, að þegar fólk lætur af störfum er það ekki nægilega vel undirbúið fyrir hið hversdagslega líf án launaðs starfs. Því er mikilvægt að halda áfram að gera sér dagamun um helgar en búa til nýjar venjur þess á milli án áfengis.
Bent er á upplýsingar á Heilsuveru um áfengi (in Icelandic) og frá embætti landlæknis um áfengis- og vímuvarnir (in Icelandic).
Margir verða fyrir hinum ýmsu áföllum á lífsleiðinni. Þau geta tengst missi nákomins ættingja, að missa vinnu eða greinast með alvarlegan sjúkdóm svo fátt eitt sé nefnt.
Þá er mikilvægt að þekkja einkenni áfalla og áfallastreituröskunar svo vitað sé hvað hægt er að gera og að hægt er að leita aðstoðar, því alvarlegar afleiðingar geta komið fram í kjölfar slíkra áfalla, fljótlega eða mörgum árum síðar.
Hvað er áfall? Það kallar á sterk streituviðbrögð í kjölfar ákveðinna, óvæntra atburða þar sem öryggistilfinningu er ógnað? Afleiðingin er oft langvarandi streita. Á vef Landspítlans Áföll, áfallastreita og áfallahjálp - Landspítali (landspitali.is)er að finna ítarlegar upplýsingar um áföll, áfallahjálp og sálrænan stuðning.
Byltur eru algengt vandamál hjá eldra fólki og geta þær í sumum tilfellum haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Áætlað er að um þriðjungur fólks 65 ára og eldra detti að minnsta kosti einu sinni á ári og að um helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri detti einu sinni á ári eða oftar.
Um 10% bylta fylgja áverkar og um helmingur þeirra áverka eru brot sem geta haft mikil áhrif á lífsgæði þess sem dettur.
Hægt er að draga úr líkum á byltum með reglubundinni hreyfingu, jafnvægisæfingum og fleira.
Nánari upplýsingar um byltur og eldra fólk má finna hjá Heilsugæslunni og hjá Björtum lífsstíl.
Margir óttast að greinast með heilabilun þegar árunum fjölgar. Lífsstíll skiptir miklu máli þegar kemur að forvörnum gegn heilabilunarsjúkdómum. Tegundir heilabilunarsjúkdóma eru margar eins og sjá má hér fyrir neðan.
Nánari upplýsingar um heilabilun eru á Heilsuveru og fjölbreytt fræðsluefni hjá Alzheimer samtökunum.
Alzheimer
Alzheimer er algengasta tegund heilabilunar. Um er að ræða taugahrörnunarsjúkdóm sem er algengastur hjá eldra fólki en yngri einstaklingar greinast líka. Einkenni birtast hægt og bítandi og eru oft óljós enda tekur greiningarferli oft langan tíma. Vísbendingar eru m.a. þessar:
Gleymni sem nýlega hefur orðið vart við og hefur áhrif á starfshæfni.
Hlutir eru ekki settir á sinn rétta stað.
Vaxandi erfiðleikar við skipulag og flóknari athafnir daglegs lífs.
Erfiðleikar við að glöggva sig á tíma og rúmi.
Hægt er að fá upplýsingar og ráðgjöf hjá Alzheimersamtökunum. Þjónustan þar er í boði fyrir alla landsmenn, þeim að kostnaðarlausu.
Ráðgjafasími: 5201082, opinnn mánudaga til fimmtudaga kl.9.00-15.00 og föstudaga kl. 9.00-12.00
Netfang: radgjafi@alzheimer.is
Auglýsing frá Alzheimersamtökunum og Gott að eldast
Lewy body
Lewy body heilabilun getur haft í för með sér ýmis einkenni s.s. hreyfitruflanir sem eru sambærilegar þeim sem fylgja Parkinsonssjúkdómnum.
Persónuleikabreytingar á borð við skyndilega reiði og ranghugmyndir geta fylgt þessum sjúkdómi. Hann getur því reynst aðstandendum sérlega erfiður.
Æðaheilabilun
Æðaheilabilun orsakast af sjúkdómum í æðum s.s. blæðingum, kölkun og blóðtöppum sem valda súrefnisskorti. Einkennin geta verið mismundandi og fer eftir hvar í heila skemmdin er.
Greining
Þegar grunur vaknar um að hugsanlega sért þú eða einhver þér nákominn farinn að þróa með sér heilabilun en mjög mikilvægt að leita til læknis.
Fyrsti viðkomustaður er alltaf heimilislæknir. Hann getur lagt fyrir próf og metið hver næstu skref verða. Þeim sem eru 65 ára og yngri er oftast vísað strax á Minnismóttöku þar sem ítarleg greining fer fram.
Á Minnismóttöku eru myndir teknar af tölvusneiðmyndir af heila og mænuvökvi rannsakaður. Þá hefur jáeindaskanni komið að góðum notum við greiningu.
Greiningarferlið getur tekið langan tíma eða allt að því eitt ár.
Mjög mikilvægt er að leita strax til læknis þar sem einkennin geta bent til annars en heilabilunar s.s. æxlis eða blæðinga.
Meðferð - lyf
Enn sem komið eru hafa engin ný lyf gegn algengri heilabilun komið á markað á Íslandi í meira en 20 ár. Von er á breytingu þar sem byrjað verður á næsta ári að gefa lyf sem gefið hefur góða raun og hægt á framgangi sjúkdómsins um þriðjung.
Lyfið er gefið í æð en hætt er við að ekki margir muni fá samþykkta niðurgreiðslu þar sem það er mjög dýrt.
Meðferð - lífstíll
Góðar fréttir bárust á sama tíma og sagt var frá nýja lyfinu. Þær tengjast finnskri rannsókn sem kallast FINGER. Niðurstöður benda til þess að aðferðin dragi úr framgangi Alzheimer um þriðjung, eins og nýja lyfið.
Þetta er í fyrsta skipti sem niðurstöður vísindalegrar rannsóknir tengdar virkni og lífsstíl gefa viðlíka niðurstöður.
Mikilvægir þættir:
Líkamleg virkni
Stunda þarf líkamlega virkni að lágmarki þrisvar í viku. Hún þarf að vera það áköf að púlsinn hækki, fólk mæðist og svitni.
Hugræn virkni
Reglulega þarf að takast á við eitthvað nýtt eins og að læra nýtt tungumál eða á hljóðfæri. Til eru smáforrit með viðurkenndum þrautum sem leysa þarf reglulega og þá eru krossgátur, sudoku og pússluspil líka góð forvörn.
Félagsleg virkni
Að hitta annað fólk hvort sem er í félagsmiðstöð, klúbbum eða vinahópum skiptir gríðarlega miklu máli. Þar viðhelst m.a. sú virkni að halda uppi samræðum en málstol gerir oft vart við sig þegar líður á framgang sjúkdómsins. Þarna skiptir líka miklu mái að láta meðhöndla heyrnaskerðingu sé þess þörf.
Annað sem nefna má er mikilvægi góðs svefns, heilsusamlegt mataræði og hófleg neysla áfengis.
Aðstandendur
Að búa á heimili með einstaklingi sem er farinn að sýna mikil einkenni heilabilunar tekur oftast mikið á. Einstaklingurinn þarf mikla aðstoð við allar athafnir daglegs lífs, er illa áttaður og jafnvel hættur að þekkja sína nánustu. Dægurvilla gerir fljótt vart við sig og því geta nætur verið erfiðar.
Mikilvægt er að aðstandendur leiti sér aðstoðar og stuðnings.
Smáforritið Heilabilun er gagnlegt fyrir þá sem annast fólk með heilabilun.
Þegar á fimmtugsaldri fara stoðkerfi fólks að taka breytingum. Vöðvamassi rýrnar og beinþéttni sömuleiðis. Þá eykst stirðleiki þar sem sveigjanleiki liða og sina minnkar.
Mikilvægt er að bregðast við þessu og gera æfingar sem miða sérstaklega að því að styrkja stoðkerfið. Það mun meðal annars stuðla að því að auka vellíðan, minnka hættu á byltum og gera fólki kleift að standa óstutt upp úr stólum.
Á Heilsuveru er að finna myndbönd með styrktaræfingum og teygjum sem hægt er að framkvæma heima.
Bjartur lífsstíll er verkefni sem unnið var í samstarfi við Íþróttasamband Íslands og Landssamband eldri borgara. Þar má til dæmis finna bæklinga með heimaæfingum á gólfi eða með og við stól.
Eldra fólk þarf að hafa í huga að með aldrinum minnkar orkuþörfin, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar.
Á vef Embættis landlæknis er að finna ráðleggingar um mataræði fyrir eldra fólk og hvað hægt er að gera ef matarlyst minnkar.
Alzheimersamstökin eru með gagnlegan fræðslufyrirlestur um næringu, lífsgæði og vellíðan.
Fjöldi sjúkdóma getur hrjáð fólk þegar það eldist. Margir þeirra flokkast ekki sem öldrunarsjúkdómar þótt aldur séu vissulega áhættuþáttur.
Þar má t.d. nefna Parkinsonsjúkdóminn sem er taugahrörnunarsjúkdómur og hefur áhrif á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingu. Einkenni byrja hægt og eru þau helstu:
Hægar og stirðar hreyfingar
Skjálfti
Vöðvastífleiki
Jafnvægisleysi
Þá sýna rannsóknir að þau einkenni sem valda mestum erfiðleikum í daglegu lífi séu þau sem tengjast ekki hreyfingu s.s. hugræn einkenni eins og erfiðleikar með minni og málnotkun. Þá verður vart við minna lyktarskyn, þunglyndi, þreytu og svefntruflanir.
Nánari upplýsingar má finna á Heilsuveru og einnig fræðsluefni hjá
Parkinsonsamtökunum og Taktur.
Greining
Þegar grunur vaknar um parkinsonsjúkdóm er best að leita fyrst til heimilislæknis. Stundum er hægt að greina fljótt en oft tekur það lengri tíma.
Það sem er skoðað er:
Heilsufarssaga
Dæmigerð einkenni eins og hreyfingar, skjálfti og stífleiki.
Ganga og tal
Meðferð
Almenn virkni er mikilvæg í allri meðferð parkinsonssjúklinga og er t.d. veitt sérhæfð sjúkraþjálfun í Takti – þjónustumiðstöð Parkinsonssamtakanna.
Meðferð felur alla jafna í sér lyfjagjöf. Hún ein læknar ekki sjúkdóminn en getur haldið einkennum niðri. Þau geta verið mjög persónubundin.
Þá er möguleiki á aðgerðum á heila þar sem rafskautum er komið fyrir.
Sjón
Augað fer í gegnum aldursbreytingar og missir upp úr fertugu ákveðinn sveigjanleika. Hann gerir að verkum að augað stillir sig af og getur þannig séð allar fjarlægðir. Flestir sem eldast finna fyrst fyrir einkennum fjarsýni þ.e. að sjá illa það sem nálægt er.
Helstu einkenni aldursfjarsýni eru:
Fókuspunktur breytist þegar um ræðir nærvinnu
Þreyta í augum
Þokusjón
Lengri tíma tekur að skipta milli fjarlægða
Ýmsir sjúkdómar geta komið fram í augum:
Gláka – er augnsjúkdómur sem leiðir til skemmda á sjóntaug sem tengir augað við heilann. Ef gláka er ekki meðhöndluð getur hún valdið blindu.
AMD – er aldurstengdur sjúkdómur sem veldur hrörnun í augnbotnum. Orsakir eru ekki þekktar en áhættuþættir eru reykingar og hækkandi aldur.
Ský á auga – er ástandið þegar augasteinninn er ekki lengur tær. Við það takmarkast leið ljóssins inn í sjónhimnu augans og gefur þokukennda sjón. Sjúkdómurinn er algengastur hjá eldra fólki. Meðferð er aðgerð þar sem settur er nýr gervi augasteinn í stað þess gamla.
Aðrir sjúkdómar í augum eru t.d. augnbotnavandamál tengd sykursýki og sjónhimnulos.
Heyrn
Skert heyrn getur bæði verið meðfædd eða áunnin. Hún eykst venjulega hægt og rólega með árunum. Heyrnaskerðing fylgir oftast hækkandi aldri. Um helstu tegundir og ástæður heyrnaskerðingar má lesa á Heilsuveru.
Mikilvægt er að meðhöndla heyrnaskerðingu enda sýna nýjar rannsóknir að tengsl eru á milli heyrnaskerðingar og heilabilunar. Ástæðan er nokkuð augljós en þegar heyrn daprast dregur fólk úr félagslegum tengslum og missir samband við umhverfi sitt.
Meðferð:
Heyrnatæki koma að gagni þegar þörf er á að magna utanaðkomandi umhverfishljóð eins og tal.
Heyrnatækin eru til í mismunandi gerðum, stærðum og litum. Þau eru líka til í mismunandi verðflokkum. Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði ef heyrn mælist innan ákveðinna marka. Þá er hægt að sækja um niðurgreiðslu til sjúkrasjóða helstu stéttarfélaga.
Í dag er það stærri hópur fólks en áður sem heldur eigin tönnum alla ævi. Það kallar á aukna áherslu á umhirðu tanna og eftirlit tannlækna.
Vönduð tannhirða er er lykillinn að því að tennur endist sem kallar á að bursta þarf kvölds og morgna, nota tannþráð einu sinni á dag og skola með flúorlausn einu sinni í viku.
Þeir sem hafa fengið einhverja tegund tanngerva þurfa líka að huga að tannhirðu. Á Heilsuveru er að finna um þetta góðar leiðbeiningar.
Vakin er athygli á því að Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í tannlæknakostnaði eldra fólks en allar upplýsingar er að finna á vef þeirra. Athugið að skilyrði fyrir greiðsluþátttöku er að vera með skráðan heimilistannlækni.
Góð geðheilsa er öllum mikilvæg og er undirstaða lífsgæða.
Þunglyndi og kvíði eru algeng vandamál eldra fólks. Félagsleg eingangrun og einmanaleiki eru megin áhættuþættir fyrir þunglyndi og kvíða á efri árum. Mikilvægt er að leita sér hjálpar til að bæta lífsgæðin.Á heilsugæslu fer fram mat á geðrænum vanda og meðferð. Því er fyrsti viðkomustaður heilsugæslan þín eða hringja í 1700, upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar.
Ýmis ráð og fræðsla er til um geðheilsu og þunglyndi, svo sem:
Geðheilsa/andleg heilsa á vef Sjálfsbjargar
HappApp á Heilsuveru
Þvagleki er þegar fólk hefur ekki fulla stjórn á þvagblöðrunni og missir því þvag. Það getur verið mismikið vandamál og þekkist bæði hjá konum og körlum. Þvagleki er algengari hjá eldra fólki.
Mikilvægt er að finna leiðir svo þvagleki hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði fólks.
Á Heilsuveru eru gagnlegar upplýsingar um þvagleka og hvað hver og einn getur gert.
Á Heilsuveru eru yfirgripsmiklar og gagnlegar upplýsingar sem henta öllum eldri en 60 ára.