Aðstandendur
Um leið og það er gefandi að vera aðstandandi eldra fólks (foreldra, tengdaforeldra, frænku, frænda eða vinar) getur það einnig verið flókið og krefjandi hlutverk. Virða þarf sjálfstæði einstaklingsins og frelsi til að stýra eigin lífi. En það getur þurft að veita stuðning til að taka ákvarðanir eða annast daglegar athafnir.
Aðstandendur þurfa að huga að mörgu og er hér fjallað um nokkur atriði.
Hefur þú áhyggjur af færni eldri ættingja þíns?
Viðvörunarmerki um minnkandi færni og aukinn hrumleika eru meðal annars:
Breytingar á persónuleika
Gleymska
Erfiðleikar við að ganga upp stiga
Minni matarlyst eða viðkomandi hefur léttst
Marblettir án áverka
Persónulegu hreinlæti ábótavant
Oftar veikindi
Þú getur leitað til heilsugæslunnar um ráðgjöf, en einnig getur lesið þér til um til um á Heilsuveru og hér á Ísland.is.
Rétt er að spyrja tímanlega hvort aðstandandi þinn vilji þiggja aðstoð með fjármálin. Einnig er gott að ræða hvern hann myndi vilja fá til að sjá um þau EF hann missir getuna til þess.
Ef einstaklingur getur ekki veitt skriflegt umboð um sín fjármál vegna veikinda þá þarf að fara í fjárræðissviptingu og því mikilvægt að ræða þessi mál snemma.
Ef óskað er aðstoðar er hægt að útbúa umboð sem veitir rétt til umsjónar með daglegum fjármálum og samskiptum við ýmsar stofnanir, svo sem Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar og fleiri. Með slíkri umboðsveitingu er viðkomandi að sinna þessum málum með rafrænum skilríkjum sínum og allt er rekjanlegt. Einnig er hægt að veita umboð á mínum síðum á Island.is til ýmissa aðgerða. Æskilegt er að aðrir nánir ættingjar, skrifi undir sem vottar eða hafi vitneskju um umboðsveitingu.
Á Mínar síður (linkur) á island.is er hægt að veita umboð til ýmissa aðgerða.
Vert er að skoða afslætti og sérkjör sem eldra fólki býðst til dæmis er varðar greiðsluþátttöku við heilbrigðisþjónustu, tannlækningar og styrki frá Sjúkratryggingum.
Deilur geta sprottið upp, oftast um fjármál, og þá er gott að hafa gert ráðstafanir snemma á borð við umboð, samkomulag um setu í óskiptu búi, gerð erfðaskráa og fleira.
Ef aðstandandi þinn þarf og vill aðstoð vegna heilsu sinnar eru hér nokkur ráð:
Fáið leyfi til að tala við heilsugæslu eða heimilislækni.
Ganga frá umboðum til að sækja lyf og/eða fletta upp lyfjum í Heilsuveru.
Apótek bjóða upp á lyfjaskömmtun fyrir einstaklinga (7-28 dagar) og sum einnig upp á heimsendingar.
Fylgja ástvini í viðtal og skoðun hjá heilbrigðisstarfsmönnum. Oft fá einstaklingar mikið af upplýsingum og þá er gott að hafa einhvern með sem getur punktað niður. Óska eftir skriflegri niðurstöðu skoðunar og rannsókna.
Fylgist með lyfjagjöf ef mögulegt er, t.d. með lyfjaskömmtun eða lyfjaróbót. Óskið eftir aðstoð heimaþjónustu ef þörf er á.
Fylgjast með samþykktum vegna einnota hjálpartækja inni á mínum síðum hjá Sjúkratryggingum. Samþykktir eru gjarnan tímabundnar (dæmi bleiur).
Almennt er hægt að fá ýmis hjálpartæki niðurgreidd frá Sjúkratryggingum (stuðningstæki, öryggishnappar) og Sjónstöðinni að uppfylltum skilyrðum.
Það getur komið að þeim tíma að einstaklingur þurfi aðstoð heimastuðnings og/eða heimahjúkrunar til að geta búið öruggur heima við. Ástvinur og aðstandandi eru ekki alltaf sammála um hvort hennar er þörf og þá hvenær. Það getur reynst gott að fá starfsmann heimastuðnings eða heimahjúkrunar í heimsókn til að fá upplýsingar um þann stuðning sem er í boði og hægt er að sækja um.
Mikilvægt er að hafa í huga að taka ekki af einstaklingnum það sem hann getur enn gert og frekar koma inn með aðstoð þar sem hennar er þörf. Stundum þarf bara litla breytingu á umhverfinu eða fá inn hjálpartæki til að einstaklingur geti gert sitt verk áfram. Hægt er að fá upplýsingar um slíkt hjá heimastuðningi, heimahjúkrun eða heilsugæslu í sínu sveitarfélagi.
Frekari upplýsingar um helstu breytingar sem verða á heilsufari hjá eldra fólki.
Vefurinn heimsokn.is býður upp á einfalt kerfi sem heldur utan um heimsóknir aðstandenda til vinar eða ættingja sem þarf á sérstakri umhyggju að halda.
Aðgangur að honum er ókeypis.
Ræðið við ástvin um óskir hans og vilja tímanlega. Með þessu getur það reynst aðstandendum auðveldara að fylgja eftir vilja og óskum síns ástvinar ef hann getur ekki gert það sjálfur vegna t.d. veikinda.
Nokkur atriði til umhugsunar:
Hvað er ástvini mikilvægt og hvað vill hann leggja áherslu á?
Hvað óttast ástvinur þinn mest þegar aldurinn færist yfir?
Er lífssagan til á aðgengilegum stað? Með því að aðstandandi þinn fyllir út lífssöguna sína og óskir við lífslok leggur hann sitt af mörkum til að sú umönnun, sem hann mögulega þarf á að halda, verði hagað eftir sínum óskum.
Hver eru lífsgildi ástvinar og óskir varðandi meðferð og takmarkanir á meðferð? Kirkjan hefur gefið út Val mitt við lífslok sem inniheldur spurningar um óskir einstaklinga um hugsanlegar meðferðartakmarkanir og eigin útför.
Hvernig vilja þau að þeirra sé minnst?
Mikilvægt er fyrir aðstandendur að leita sér stuðnings og ráðgjafar.
Of mikið álag á þig sem aðstandanda eykur líkur á heilsufarsvanda hjá þér.
Heilsugæslustöðvar veita aðstandendum eldra fólks ráðgjöf. Einnig bjóða sum sveitarfélög upp á ráðgjöf.
Gott er að finna ættingja eða vin sem er reiðubúinn til að hlusta og veita stuðning. Þá veita mörg sjúklingafélög ráðgjafaþjónustu.
Efri ár – öldrunarráðgjöf veitir persónulega ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna með hagsmuni allra í fjölskyldunni að leiðarljósi.
Alzheimersamtökin veita einstaklingum með heilabilun og aðstandendum þeirra ráðgjöf, öllum að kostnaðarlausu. Hægt er að hringja í ráðgjafasímann 520 1082 eða senda póst á radgjafi@alzheimer.is og panta tíma á staðnum, í fjarviðtali eða síma.
Samskipti fólks eru mismunandi en eru öllum mikilvæg. Félagsleg samskipti eru mikilvæg öllum en með hækkandi aldri og/eða vegna veikinda getur dregið úr þeim. Mikilvægt er því að hlúa að félagslegum samskiptum og margt hægt að gera eins og til dæmis fara í stutta göngutúra, sitja og spjalla yfir kaffibolla eða tala saman í síma.
Samskipti geta breyst með árunum og breytingar geta gerst hraðar hjá öðrum aðilanum en hinum. Ef slíkar breytingar verða þá er gott að hafa í huga að það getur tekið einstaklinga mislangan tíma að tileinka sér ný samskipti. Því getur fylgt pirringur og reiði. Hvernig við tökum á breyttum samskiptum er mismunandi og einstaklingsbundið. Muna að við eigum í samskiptum við aðra manneskju. Stundum felur breyting á samskiptum í sér að setja þurfi mörk og getur það reynst erfitt og flókið. Hægt er að leita aðstoðar hjá t.d. félagsráðgjafa eða sálfræðingi til að bæta samskipti við sinn ástvin.
Hér er umfjöllun um samskipti við aldraða foreldra hjá Leitum leiða.
Löggild skilríki eru vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini. Þörf er á löggildu skilríki til að fá rafræn skilríki, við kosningar, að sækja lyf og fleira.
Vakin er athygli á nafnskírteini sem er nýtt löggilt skilríki. Sótt er um nafnskírteini hjá Sýslumönnum.
Vert er að sækja um nafnskírteini, þegar vegabréf og ökuskírteini eru að renna út og óvíst hvort þau verði endurnýjuð. Þannig styðjum við sjálfsögð mannréttindi.
Mörg félagasamtök halda utan um stuðningshópa aðstandenda. Hér eru nokkrir:
Alzheimersamtökin stuðningshópar
- Halda utan um mismunandi stuðningshópa.
sem er fyrir einstaklinga sem fengið hafa krabbamein
Sorgarmiðstöðin, stuðningshópastarf
Eldra fólki er hættara við ýmsum óhöppum. Slys hjá eldra fólki hafa oft alvarlegri afleiðingar en hjá þeim yngri.
Nokkur ráð til að auka öryggi:
Færa hluti sem eru notaðir daglega s.s. bolla, diska og skálar, á stað þar sem auðvelt er að ná í þá.
Með því að fjarlægja mottur af gólfum eða skrautmuni sem þar standa er hægt að minnka hættuna á byltum.
Fá lægri sturtubotn til að minnka hættu á byltum.
Fá öldrunarráðgjafa/heilsugæslu til að koma og meta aðstæður á heimili.
Fjárfesta í öryggishnappi. Mikið úrval af slíku er til hjá öryggisfyrirtækjum.
Ýmis gagnleg hjálpartæki eru til og vert að skoða gagnlega tengla undir Hjálpartæki.
Örugg efri ár er bæklingur um hvar og hvernig megi koma í veg fyrir slys hjá eldra fólki.