Vinnsla persónuupplýsinga barna
Samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga frá foreldri eða barni
Ef óskað er eftir samþykki fyrir tiltekinni vinnslu þarf að meta í hvert skipti hvort það sé foreldrið eða barnið sjálft sem veitir það.
Samþykki barns er alltaf metið eftir aldri og þroska þess. Ef óskað er eftir samþykki barns þarf það að skilja hvað það er að samþykkja. Skal því hafa allar upplýsingar og tilkynningar á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.
Á Netinu geta börn yfir 13 ára aldri sjálf samþykkt þjónustu en börn undir 13 ára aldri þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns.
Skólar og aðrir opinberir aðilar geta yfirleitt ekki byggt á samþykki nema um algerlega valfrjálsa þjónustu sé að ræða. Persónuverndarlög gera ráð fyrir að slík vinnsla fari eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggir á lagaheimild.
Samþykki foreldra er ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.
Á það skal bent að börn mega alltaf hætta við og skipta um skoðun. Þó barn hafi til dæmis samþykkt að myndir af sér væru birtar á vefsíðu skólans má barnið þannig alltaf skipta um skoðun og biðja um að láta fjarlægja þær.