Um verktaka og einyrkja
Einyrkjar/verktakar eru sjálfstætt starfandi atvinnurekendur en ekki launamenn. Einstaklingsfyrirtæki er fyrirtæki sem einstaklingur á og rekur á eigin kennitölu.
Einyrkjar/verktakar
Einyrkjar/verktakar njóta hvorki réttar til launa frá verkkaupa, til dæmis í veikinda- og slysatilfellum, né mótframlags í lífeyrissjóði, slysatrygginga eða orlofsréttar.
Einyrkjar/verktakar verða sjálfir að standa skil á ýmsum launatengdum og rekstrartengdum sköttum og gjöldum samkvæmt lögum. Þá er þeim sem stunda atvinnurekstur og öllum launþegum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði frá 16 ára til 70 ára aldurs.
Mikill munur er á stöðu verktaka og launþega gagnvart atvinnurekanda sínum, eða verkkaupa. Við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar til dæmis ekki rétt á greiðslum úr ábyrgðasjóði launa.
Einyrkjar/verktakar fá atvinnuleysisbætur að uppfylltum vissum skilyrðum.
Einstaklingsfyrirtæki
Ábyrgð einstaklings á skuldbindingum einstaklingsfyrirtækis er bein og ótakmörkuð og að öllu leyti sambærileg öðrum persónulegum skuldbindingum.
Lagaumhverfi einstaklingsfyrirtækis er einfalt, sjálfstæði eigenda mikið og stofnkostnaður oft lítill.
Fyrirtæki einstaklings á að bera fullt nafn hans en skammstafa má skírnarnafn. Einstaklingsfyrirtæki þarf að skrá í fyrirtækjaskrá.
Fyrirtækjaskrá rsk.is
Einstaklingsfyrirtæki sem greiðir laun þarf að skrá á launagreiðendaskrá staðgreiðslu skattstjóra viðkomandi umdæmis.
Skattayfirvöld
Laun manns sem stundar eigin atvinnurekstur kallast reiknað endurgjald og við ákvörðun á fjárhæð skal fara eftir viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald. Standa þarf skil á staðgreiðslu skatta af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega. Ef maki og börn starfa við atvinnureksturinn þarf einnig að reikna þeim endurgjald.
Virðisaukaskattur er vörsluskattur og almennur neysluskattur. Rekstraraðilum ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af allri sölu á vörum og þjónustu nema hún sé sérstaklega undanþegin í lögum. Í gildi eru tvö virðisaukaskattsþrep.
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Skatturinn