Umsögn um rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði
Sótt er um rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði á vef sýslumanna. Sýslumannsembættin senda í framhaldi umsagnarbeiðni til Vinnueftirlitsins að því er varðar vinnuvernd starfsfólks.
Vinnueftirlitið veitir umsögn um atriði er varða öryggi og aðbúnað starfsfólks á vinnustaðnum og er meðal annars litið til þess að fyrir liggi:
Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði, en atvinnurekendur bera ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, án tillits til stærðar hans. Tilgangur áætlunarinnar er að stuðla að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
Í skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði þarf að koma fram:
Áhættumat. Við gerð áhættumats þarf að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem hugsanlega geta ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Þá er gott að horfa til fimm meginþátta vinnuverndar. Hér má finna ýmis hjálpargögn við gerð áhættumats.
Áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Þegar áhættumat liggur fyrir er gerð áætlun um heilsuvernd og forvarnir sem fjallar um þær ráðstafanir sem þarf að grípa til svo koma megi í veg fyrir hætturnar eða draga úr þeim eins og frekast er kostur.
Aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað þurfa að vera hluti af áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Neyðaráætlun. Lýsing á nauðsynlegum ráðstöfunum til skyndihjálpar, slökkvistarfs og brottflutnings starfsfólks í samræmi við eðli starfseminnar þarf einnig að vera hluti af áætlun um heilusvernd og forvarnir.