Umgengni barns
Úrskurður um umgengni barns
Umgengni er ætlað að tryggja að barn fái að umgangast og halda sambandi við það foreldri sitt sem það býr ekki hjá.
Það er einnig réttur þess foreldris að fá að umgangast barn sitt og á því hvílir skylda að sinna umgengni við barnið.
Foreldrar geta samið um fyrirkomulag umgengni, svo framarlega sem það þjónar hagsmunum og þörfum barnsins. Ef foreldrar eru ekki sammála geta þeir farið fram á að sýslumaður úrskurði um umgengnina eftir því sem hann telur barninu fyrir bestu.
Úrskurður sýslumanns um umgengni
Í úrskurði um umgengni er ákveðið hvað umgengni á að vera mikil og oft eru fyrirmæli um hvernig á að framkvæma umgengnina. Við ákvörðun um það hversu mikil umgengni á að vera koma ýmis atriði til skoðunar, til dæmis:
Tengsl barns við umgengnisforeldri / umgengnis-aðila ef annar en foreldri
Hér skiptir máli hversu mikil umgengnin hefur verið áður. Ef til dæmis er verið að ákveða umgengni í framhaldi af skilnaði eða sambúðarslitum foreldra er yfirleitt mælt með mikilli umgengni beggja foreldra við barnið.
Aldur barns
Aldur barns getur skipt miklu máli þegar umgengni er ákveðin. Ef barn er mjög ungt getur það skipt máli varðandi lengd dvalar og hvort það eigi til dæmis að gista hjá umgengnisforeldri eða ekki. Það er ekki úrskurðað um gistingu mjög ungs barns hjá umgengnisforeldri gegn vilja forsjárforeldris.
Vilji barns
Ef um stálpuð börn er að ræða skiptir vilji þeirra miklu máli. Ekki er úrskurðað gegn vilja stálpaðs barns.
Búseta foreldra / umgengnis-aðila ef aðrir en foreldri
Ef foreldrar búa í sitt hvorum landshlutanum verður úrskurður um umgengni að taka tillit til þess.
Ef foreldri er búsett erlendis og krefst þess að umgengni fari fram þar, er þeirri kröfu yfirleitt hafnað ef um er að ræða önnur lönd en Norðurlönd. Hér er þó litið til afstöðu forsjárforeldrisins.
Umgengni við systkini
Ef systkini búa hjá sitt hvoru foreldrinu verður að gera þeim mögulegt að umgangast hvort annað.
Eftirlit með umgengni
Sýslumaður getur úrskurðað að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna. Þetta á helst við í tilvikum þar sem ekki er öruggt að fari nógu vel um barn hjá umgengnisforeldri eða þegar mikla deilur og jafnvel átök eru milli foreldra þegar barn er sótt eða því skilað.
Kostnaður við ferðir vegna umgengni
Það foreldri sem barn býr ekki hjá á að greiða kostnað við ferðir vegna umgengninnar, nema annað hafi verið ákveðið með samningi eða úrskurði sýslumanns. Þó er miðað við að foreldri sem barn býr hjá greiði kostnað við ferðir innan heimabæjar barnsins, til dæmis ferðir til og frá flugvöllum.
Réttur foreldra
Bréfa- og símasamband
Ef foreldri getur af einhverjum ástæðum ekki sinnt umgengni við barn með því að barnið dvelji hjá því, getur sýslumaður úrskurðað um að foreldrið fái að vera í bréfa-, tölvupóst- og/eða símasambandi við barnið.
Réttur til að fá upplýsingar um barn
Forsjárlaust foreldri á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá forsjárforeldri til dæmis um heilsufar þess og skólagöngu. Forsjárlaust foreldri á líka rétt á að fá upplýsingar um barnið hjá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Þessi réttur til upplýsinga frá stjórnvöldum og stofnunum felur hins vegar ekki í sér rétt forsjárlausa foreldrisins til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.
Flutningur barns úr landi
Forsjárforeldri má ekki flytjast úr landi með barn nema það hafi tilkynnt umgengnisforeldri um flutninginn með minnst 30 daga fyrirvara.
Tímabundinn úrskurður um umgengni
Sýslumaður eða dómari getur líka ákveðið hvernig umgengni skuli vera um ákveðinn tíma, til dæmis á meðan á forsjármáli stendur.
Ef þú ert ekki með rafræn skilríki má nálgast umsókn á pdf formi hér
Þjónustuaðili
Sýslumenn