Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skot- og stangveiði

Sportveiðar eru vinsælt tómstundagaman en að mörgu er að hyggja áður en lagt er í skot- eða stangveiðar.

Skotveiðar

Þeir sem hyggjast stunda almennar skotveiðar hér á landi þurfa að vera handhafar skotvopnaleyfis og veiðikorts.

Til þess að öðlast þau réttindi er farið á tvö námskeið, skotvopnanámskeið og veiðikortanámskeið.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með skotvopna- og veiðikortanámskeiðum um allt land.

Skotvopnanámskeið

Skotvopnanámskeið Umhverfisstofnunar eru ætluð þeim sem vilja sækja um skotvopnaleyfi hjá lögreglunni.

Ef námskeiðinu er lokið með fullnægjandi árangri getur námskeiðsfari sótt um A-skotvopnaleyfi að því loknu.

Athuga ber að skotvopnaleyfi veitir takmarkaðan rétt til þess að stunda skotveiðar og því fara flestir einnig á veiðikortanámskeið.

Almenn skilyrði til að mega sækja skotvopnanámskeið:

Að hafa náð 20 ára aldri, vera andlega heilbrigður og hafa ekki verið sviptur sjálfræði.

Að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga eða laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því brot var framið og refsing hefur ekki farið fram úr sektum eða varðhaldi má víkja frá þessu skilyrði

Gögnin sem skila þarf inn til lögreglu ef sótt er um að fara á skotvopnanámskeið eru eftirfarandi:

Sakavottorð sem sótt er um hjá lögreglu um leið og gögnum er skilað

Læknisvottorð sem er sérstaklega útgefið vegna skotvopnaleyfis

Nýleg passamynd

Umsóknareyðublað um þátttöku í skotvopnanámskeiði með undirskrift tveggja meðmælenda

Ekki þarf að skila inn ofangreindum gögnum ef ætlunin er að fara eingöngu á veiðikortanámskeið.

Hafa ber í huga að á mörgum stöðum þarf tilskilin leyfi til veiða og ber veiðimönnum að kynna sér það til hlítar hverju sinni. 

Veiðikortanámskeið

Veiðikortanámskeið Umhverfisstofnunar eru ætluð þeim sem vilja sækja um veiðikort.

Veiðikort gefur almenn réttindi til þess að stunda veiðar á spendýrum og fuglum Íslandi samkvæmt íslenskum lögum.

Veiðikort veitir ekki skotvopnaréttindi og því fara flestir einnig á skotvopnanámskeið.

Allir sem hyggjast stunda almennar fugla-, refa- eða hreindýraveiðar verða að vera handhafar veiðikorts.

Ef námskeiðinu er lokið með fullnægjandi árangri getur námskeiðsfari sótt um veiðikort að því loknu.

Veiðikort þarf til almennra veiða á fuglum, refum og hreindýrum hvort heldur veitt er með byssu eða öðru.
Handhafar veiðikorts þurfa að skila inn veiðiskýrslu árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki.

Stangveiðar

Lax-, silungs- og sjóbirtingsveiðar er hægt að stunda um land allt í ám, vötnum og sjó.  

Afla skal tilskilinna leyfa þar sem þörf er á.

Fólk má veiða á sjóstöng í hafi án sérstaks leyfis svo fremi að einungis sé veitt til eigin neyslu.

Um útgerð frístundaveiðibáta gilda sérreglur.

Veiðar í háf

Þar sem veiði fullvaxinna lunda, álku, langvíu og stuttnefju í háf telst til hlunninda, má nýta þau.

Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.

Allir sem stunda veiðar í háf þurfa veiðikort.

Ráðlegt er að gæta fyllsta öryggis á ferð um óbyggðir landsins, undirbúa ferðir af kostgæfni og kynna sér aðstæður vel. Þá er mikilvægt að vita til hvaða ráða má grípa ef neyð steðjar að.

Lög og reglugerðir