Skaðsemisábyrgð vegna tjóns af völdum vara
Framleiðendur og dreifingaraðilar vöru bera skaðabótaábyrgð vegna tjóns af völdum skaðlegra eiginleika hennar við notkun, neyslu eða geymslu.
Skaðsemisábyrgð
Til að skaðabótaábyrgð stofnist þurfa fjögur grundvallarskilyrði að vera fyrir hendi:
Tjónið þarf að vera á mönnum eða munum.
Tjónið þarf að vera rakið til vöru, en ekki til fasteigna eða þjónustu.
Varan þarf að vera gölluð, til dæmis ekki eins örugg og með réttu mátti vænta með hliðsjón af reglum um öryggi, eðlilegri notkun og hvernig hún var boðin og kynnt.
Krafan þarf að beinast gegn framleiðanda vörunnar, innflytjanda hennar eða þeim sem dreifði vörunni í atvinnuskyni.
Ekki aðeins kaupandi getur átt bótarétt heldur hver sem verður fyrir tjóni.
Tjónþola ber að sanna að tjón hafi orðið, hvert það sé og að tjónið verði rakið til ágalla. Ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni er heimilt að lækka eða fella niður bætur til hans.
Framleiðandi ber ekki ábyrgð ef hann hefur ekki dreift þeirri vöru sem tjón hlaust af, ef framleiðslan eða dreifingin hefur ekki verið í atvinnuskyni, ef ekki var kleift að staðreyna að vara væri haldin ágalla með þeirri þekkingu sem til var þegar vöru var dreift, eða ef ágalli vörunnar verður rakinn til ófrávíkjanlegra fyrirmæla hins opinbera.
Ekki má með samningi víkja fyrirfram frá rétti tjónþola þannig að hann verði lakari, en hins vegar er heimilt að semja um betri rétt handa tjónþola. Ef tjón hefur orðið hafa aðilar hins vegar fullt frelsi til að semja um kröfur.
Kröfur um skaðabætur fyrnast þremur árum eftir að tjónþoli fékk eða gat fengið vitneskju um tjón sitt, ágalla vörunnar og nafn og dvalarstað framleiðanda, og tíu árum eftir að framleiðandi dreifði vörunni.
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Neytendastofa