Viðgengst kynferðisleg áreitni á vinnustaðnum þínum?
Öll í vinnuumhverfinu hafa rétt á að setja sér mörk í samskiptum og segja til
um hvers konar hegðun og samskipti þau samþykkja frá öðrum. Kynntu þér
betur hvað þú getur gert ef þú telur þig upplifa kynferðislega áreitni eða vilt
koma í veg fyrir að slík hegðun viðgangist á vinnustaðnum þínum.
Kynntu þér málið nánar
Kynferðisleg áreitni getur verið rótgróinn hluti af menningu vinnustaða og jafnvel viðgengist í skjóli vana og gríns. Í þannig aðstæðum er ólíklegt að brugðist sé við hegðuninni og því hætta á að hún haldi áfram. Þess vegna er mikilvægt að vinnustaðir kynni sér málið betur og hugi meðal annars að vinnustaðamenningunni. Í þessu fræðslumyndbandi er fjallað um skilgreiningu, birtingamyndir og dæmi um kynferðislega áreitni og hér er myndband um forvarnir og viðbrögð. Efni um vinnustaðamenningu og hagnýt ráð til að efla hana má síðan finna undir sálfélagslegt vinnuumhverfi hér á vefnum.
Viðraðu upplifun þína
Þegar óvissa kemur upp í samskiptum getur verið gott að taka samtal við stjórnanda. Viðrun eða samtal milli stjórnenda og starfsfólks getur verið góð leið til að draga úr líkum á að kynferðisleg áreitni eigi sér stað og viðgangist í vinnuumhverfinu. Þar gefst starfsfólki tækifæri til að viðra upplifun sína af vinnuumhverfinu og stjórnandi getur veitt nauðsynlegar upplýsingar og stuðning. Önnur leið er að nýta samskiptasáttmála, sé hann til staðar, til að
skýra betur mörk og viðmið í samskiptum starfsfólks innan vinnustaðarins. Kynntu þér til hverra þú getur leitað innan vinnustaðarins en þær upplýsingar eiga að liggja fyrir í áætlun um öryggi og heilbrigði vinnustaðarins.
Hvað gerist næst?
Ferli máls innan vinnustaðar
Hafir þú upplifað kynferðislega áreitni ber atvinnurekanda að bregðast við í samræmi við áætlun um öryggi og heilbrigði vinnustaðarins. Þá er mikilvægt að vita hvað gerist næst og við hverju megi búast og því getur verið gott að óska eftir upplýsingum um viðbrögð vinnustaðarins. Vinnueftirlitið hefur unnið flæðirit um ferli EKKO-mála sem ætlað er að styðja við stjórnendur þegar upp koma slík mál – frá því að tilkynning berst og þar til máli telst lokið. Einnig er til gátlisti sem styður við góða málsmeðferð.
Hvar get ég fengið aðstoð utan vinnustaðar?
Kynferðisleg áreitni getur haft verulegar afleiðingar fyrir þau sem fyrir henni verða og geta jafnvel varað í langan tíma. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Margir aðilar bjóða upp á stuðning og úrræði fyrir þolendur kynferðislegrar áreitni til dæmis Stígamót, Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Virk auk annarra fagaðila.
Ekki horfa í hina áttina
Þeir sem heyra eða horfa á aðra verða fyrir kynferðislegri áreitni af hendi samstarfsaðila eða þriðja aðila eru í lykilstöðu til að stöðva áreitnina. Eitt af því sem þeir geta gert er að bregðast við með því að láta vita. Í áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum á að koma fram til hvers þú getir leitað en komi það ekki fram skal leita til stjórnenda. Það er alltaf á þeirra ábyrgð að bregðast við og leysa slík mál. Kynferðisleg áreitni á aldrei að viðgangast á vinnustöðum.
Dæmi um forvarnir og viðbrögð
Virðum mörk hvers annars
Vinnustaðir geta brugðist við kynferðislegri áreitni og annarri óviðeigandi hegðun með setningum sem öll á vinnustaðnum hafa sameinast um að nota ef þau upplifa að farið sé yfir mörk sín eða samstarfsfólks. Það getur verið gagnlegt fyrir hvert og eitt að æfa setningarnar og rifja reglulega upp þannig að auðveldara sé að láta vita þegar farið er yfir mörkin. Þannig eru send skýr skilaboð um að slík hegðun líðist ekki.Nálgumst þolanda
Eitt af því sem hægt er að gera er að nálgast þolandann og hvetja hann til að láta
stjórnanda vita. Annað er að stíga inn í aðstæður til að stöðva þær ef þú treystir þér til. Þá getur þú látið gerandann vita að þú upplifir að hann tali með óviðeigandi hætti með því til dæmis að segja:
- „Mér finnst mjög óviðeigandi að heyra hvernig þú talar, þú mátt gjarnan hætta því.“
- „Það líður engum vel að heyra þig tala með þessum hætti, þetta er mjög óviðeigandi“.Látum stjórnanda vita
Gera ætti stjórnanda viðvart þannig að hann geti brugðist við til að stöðva hegðunina. Í áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum á að koma fram til hverra starfsfólk getur leitað.Aukum þekkingu
Hér má finna fræðslumyndband um kynferðislega áreitni og myndband forvarnir og viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi.Leggjum til að gerður sé samskiptasáttmáli
Hægt er að leggja til að stjórnendur og starfsfólk vinni saman að gerð samskiptasáttmála þar sem sett eru fram viðmið í samskiptum. Ef upp koma atvik þar sem starfsfólk upplifir kynferðislega áreitni eða aðra óviðeigandi hegðun er hægt að benda á samskiptasáttmálann til að stöðva hegðunina.