Stjórnendur
Stjórnendur eiga að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks. Hluti af því er að fyrirbyggja kynferðislega áreitni í vinnuumhverfinu. Hún getur haft verulegar afleiðingar í för með sér fyrir líðan þolenda og samstarfsfólks sem og vinnustaðinn í heild. Því er mikilvægt að bregðast skjótt við komi fram kvörtun, ábending eða grunur um kynferðislega áreitni.
Mikilvægt að bregðast við
Þegar mál tengt kynferðislegri áreitni kemur upp þarf atvinnurekandi alltaf að bregðast við eins fljótt og kostur er. Því er afar mikilvægt að það komi fram í áætlun um öryggi og heilbrigði vinnustaðarins til hvaða aðgerða eigi að grípa sem tryggja fumlaus viðbrögð.
Kynntu þér flæðirit um ferli EKKO mála og gátlista fyrir stjórnendur um meðferð EKKO mála til að fræðast nánar um þær kröfur sem reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gera til vinnustaða.
Eru forvarnir í lagi?
Atvinnurekendur eiga að meta hvaða áhættuþættir eru til staðar í vinnuumhverfinu sem geta leitt til kynferðislegrar áreitni. Þar ber helst að skoða þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja á vinnustaðnum og móta hegðun og samskipti starfsfólks. Sjá nánar um áhrif vinnustaðamenningar.
Þegar áhættumatið liggur fyrir þarf að ákveða til hvaða forvarna eigi að grípa til að fyrirbyggja að kynferðisleg áreitni komi upp. Þarf til dæmis að gera samskiptasáttmála eða breyta skipulagi? Hér má sjá dæmi um þætti sem gott er að hafa í huga í tengslum við skipulag og stjórnun starfa.
Það þarf að vera skýrt hvert starfsfólk getur leitað til að koma á framfæri kvörtun eða ábendingu um kynferðislega áreitni. Þá er gott að hugsa fyrir því að að þolendur og gerendur geta gegnt ólíkum störfum innan vinnustaðarins. Þeir geta til dæmis verið samstarfsfólk, stjórnendur, eigendur, viðskiptavinir og eða þjónustunotendur. Sjá nánar undir: hvar og hvenær getur einelti, áreitni og ofbeldi átt sér stað.
Afleiðingar fyrir þolendur
Ef kynferðisleg áreitni viðgengst í vinnuumhverfinu getur það haft veruleg áhrif á heilsu og líðan þolenda og samstarfsfólks. Dæmi um afleiðingar geta meðal annars verið almenn vanlíðan, félagsleg einangrun, þunglyndi eða hjarta- og æðasjúkdómar.
Ein leið til að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks er að skapa vettvang fyrir viðrun og hvetja starfsfólk til að ræða upplifun sína af samskiptum í vinnuumhverfinu. Þá fá stjórnendur tækifæri til að bregðast snemma við og veita þolendum viðeigandi stuðning.
Afleiðingar fyrir vinnustaðinn
Ef kynferðisleg áreitni fær að viðgangast á vinnustað getur það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir vinnustaðinn í heild. Kynferðisleg áreitni er einkenni óheilbrigðrar vinnustaðamenningar og samskipta sem hafa neikvæð áhrif á starfsánægju og frammistöðu starfsfólks. Þannig getur hún dregið úr árangri vinnustaða og skaðað ímynd þeirra.
Áhrif vinnustaðamenningar
Ein árangursríkasta leiðin til að takast á við kynferðislega áreitni er að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu. Stjórnendur eru í lykilstöðu til að hafa jákvæð áhrif á gildi, viðhorf og venjur innan vinnustaða þeirra með þeim áherslum sem þeir velja að setja í forgang. Hins vegar er samvinna stjórnenda og starfsfólk mikilvæg upp á það hversu vel tekst til. Hér má finna fræðsluefni og hagnýt ráð til að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu.
Er skýrt á vinnustaðnum að kynferðisleg áreitni er óheimil og verði ekki
liðin í vinnuumhverfinu?
Atvinnurekandi verður að gefa starfsfólki skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni er bönnuð á vinnustaðnum og verði ekki liðin. Skilaboðin geta meðal annars komið fram í áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum, starfsmannahandbók, innri upplýsingasíðum eða í samskiptasáttmála. Sjá dæmi í: Stuðningsefni við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði.
Veit starfsfólk hvert það getur komið á framfæri kvörtun eða ábendingu um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum?
Eitt af því sem stjórnandi getur gert er að gefa starfsfólki kost á að viðra upplifun sína af vinnuumhverfinu, þar með talið samskiptum við samstarfsfólk eða þriðja aðila. Viðrun getur verið hvetjandi fyrir starfsfólk til að ræða samskiptavanda eða kvörtun vegna kynferðislegrar áreitni. Á sama tíma gefur hún stjórnendum tækifæri til að veita nauðsynlegar upplýsingar og stuðning.
Starfsfólk þarf að vera vel upplýst um hvert það getur leitað með kvartanir eða ábendingar um kynferðislega áreitni innan vinnustaðarins. Upplýsingarnar eiga að koma fram í áætlun um öryggi og heilbrigði vinnustaðarins og vera aðgengilegar starfsfólki.
Hvernig er hægt að tryggja að brugðist sé við ábendingum, kvörtunum eða grun eins fljótt og unnt er?
Til að vinnustaðir geti brugðist við kynferðislegri áreitni eins fljótt og kostur er verða þeir að gera grein fyrir þeim aðgerðum sem grípa á til í slíkum málum. Þegar ferlið hefur verið vel skilgreint og öll sem starfa á vinnustaðnum þekkja það eru meiri líkur á að viðbrögð og meðferð máls verði vönduð. Einnig er líklegra að varfærni og nærgætni verði gætt í öllum aðgerðum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsfólks í huga.
Kynntu þér flæðirit um ferli EKKO mála og gátlista fyrir stjórnendur um meðferð EKKO mála til að fræðast nánar um þær kröfur sem reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gera til vinnustaða.
Viðbrögð vinnustaðarins eiga að koma fram í áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum.
Kynferðisleg áreitni getur haft skaðleg áhrif á þann sem fyrir henni verður og valdið samstarfsfólki vanlíðan. Hún getur líka haft neikvæð áhrif á framleiðni, árangur og orðspor vinnustaða. Því er til mikils að vinna að bregðast skjótt við og stuðla að heilbrigðum samskiptum.
Eru forvarnir á vinnustaðnum enn að hafa tilætluð áhrif?
Vinnustaðir þurfa að fara reglulega yfir þá áhættuþætti sem geta leitt til kynferðislegrar áreitni eða annarrar óæskilegrar hegðunar. Þegar breytingar verða til dæmis á samsetningu starfsmannahópsins eða skipulagsbreytingar getur verið ástæða til að endurmeta stöðuna.
Með sama hætti þarf að kanna hvort þær forvarnir sem áður hefur verið gripið til séu enn að virka. Sem dæmi er mælt með að endurskoða samskiptasáttmála reglulega þannig að tryggt sé að starfsfólk tengi við hann.
Þegar mál tengd kynferðislegri áreitni koma upp þurfa stjórnendur að bregðast við og endurskoða bæði áhættumat og forvarnaraðgerðir í þeim tilgangi að efla forvarnir á vinnustaðnum til að fyrirbyggja að aðstæður endurtaki sig.
Dæmi um forvarnaraðgerðir er að:
vinna að samskiptasáttmála
bjóða upp á viðrun
efla heilbrigða vinnustaðamenningu eða annað sem hentar aðstæðum á vinnustaðnum.