Vefir stofnana - Verkefnasaga
11. janúar 2023
Fjölmargar stofnanir hafa fært sig yfir á Ísland.is, og fleiri eru á leiðinni.
Markmið verkefnisins er að gera þjónustu hins opinbera aðgengilega á einum stað, Ísland.is, óháð því hvaða stofnun veitir hana.
Rannsóknir hafa sýnt að fólk veit oft ekki hvaða stofnun gerir hvað. Stórt hlutfall símtala til þjónustustofnana eru fyrirspurnir um þjónustu sem þær ekki veita og tími starfsfólks fer í að gefa upp símanúmer annarra stofnana. Leit á veraldarvefnum skilar notendum einnig oft mörgum niðurstöðum frá mismunandi stofnunum og erfitt að sjá hver á best við.
Ljóst er að dýrmætum tíma bæði starfsfólks og þjónustuþega er oft illa varið. Krafan um að geta sótt upplýsingar og þjónustu á vefnum á fljótlegan og einfaldan hátt verður sífellt háværari.
Með því að sameina þjónustu hins opinbera á einum stað er verið að mæta þessum þörfum notenda.
Ferlið
Flutningur yfir á Ísland.is felur í sér:
Efnishönnun þar sem efni stofnunar er rýnt út frá þörfum notenda og unnið út frá efnisstefnu vefsins áður en það fer inn í leiðakerfi Ísland.is.
Uppsetningu á lendingarsíðu stofnunar innan vefsvæðisins þar sem notendur geta nálgast upplýsingar um heimilisfang, opnunartíma, starfsfólk, stefnur og annað slíkt.
Lokun núverandi vefsvæðis stofnunar til að koma í veg fyrir tvöföldun á efni.
Nálgunin
Til grundvallar efnishönnun fyrir vefinn er efnisstefna Ísland.is.
Hún byggir á þremur skilyrðum sem góður upplýsingavefur þarf að uppfylla:
Upplýsingarnar eru á vefnum.
Fólk finnur þær.
Fólk skilur þær.
Notandinn er alltaf í fyrsta sæti og áhersla er lögð á að fyrir hverja notendaþörf sé ein og aðeins ein síða sem svari henni. Vefstjórar þurfa aðeins að viðhalda efninu á einum stað og engin hætta er á misvísandi upplýsingum til notenda. Það hjálpar einnig notendum að geta treyst því að á Ísland.is er réttar upplýsingar að finna, þær eru hannaðar út frá þörfum notenda og settar fram á mannamáli. Gerðar eru prófanir og mælingar til að besta efnið, leiðakerfið og leitina til að notendur komist beint að efninu.
Efnisstefnunni fylgir einnig handbók sem er gott uppflettirit fyrir nýja vefstjóra á Ísland.is að styðjast við. Í henni er reynt að tryggja jafnt aðgengi allra hópa að upplýsingum og þjónustu á vefnum, sem og samræmi í vinnu mismunandi stofnana á Ísland.is.
Sérfræðingar kynna og kenna notendamiðaðar aðferðir við efnishönnun og halda vinnustofur með vefstjóra og starfshópi stofnunar. Veitt er ráðgjöf og stuðningur við starfsfólkið sem tekur þátt í vinnunni fyrir hönd stofnana sem koma með í stafrænu vegferð hins opinbera.
Sýslumenn voru fyrstir til að stíga skrefið og færa sig inn á Ísland.is. Það var stórt og lærdómsríkt samvinnuverkefni Sýslumanna, Stafræns Íslands og Stefnu. Síðan þá hafa 15 aðrar stofnanir bæst í hópinn og enn fleiri bíða þess að geta hafið vinnu við að færa efnið yfir og loka núverandi vefsvæði.
Viltu vera með?
Stofnanir sem hafa áhuga á að vera með í stafrænu vegferðinni eru hvattar til að sækja um samstarf við Stafrænt Ísland.