MEMM - Menntun, móttaka, menning
Hvað er MEMM?
MEMM er þróunarverkefni sem miðar að því að styðja við menntun og inngildingu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í íslensku skóla- og frístundastarfi. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við sveitarfélög, menntastofnanir og fagfólk á landsvísu til að þróa árangursríka nálgun í móttöku, kennslu og stuðningi fyrir börn og ungmenni með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Verkefnið er leitt af Mennta- og barnamálaráðuneyti og er samhæfingarstjóri þess Fríða B. Jónsdóttir. Hluti verkefnisins felst í að Miðja máls- og læsis, þekkingarteymi um mál og læsi leik- og grunnskólabarna, gengur til liðs við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu auk þess sem búið er að fjölga kennsluráðgjöfum og brúarsmiðjum hjá MMS. Einnig er framhaldsskólateymi MEMM starfandi.
Hægt er að senda fyrirspurn um þjónustu á netfangið postur@midstodmenntunar.is
MEMM byggir á þremur meginþáttum:
Menntun: Að tryggja öllum börnum aðgengi og rétt til gæðamenntunar og námstækifæra óháð tungumála- og menningarbakgrunni.
Móttaka: Að koma á samræmdu verklagi um móttöku, menntun og þjónustu á landsvísu í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem og í frístundastarfi.
Menning: Að stuðla að fjölmenningarlegu og inngildandi skólaumhverfi þar sem virðing, jafnræði og þátttaka eru í forgrunni.