Þöll er gamalt orð í norrænu máli sem meðal annars kemur fram í fornum kveðskap í kenningum eins og skrúða þöll. Upprunaleg merking er væntanlega fura eða jafnvel bara barrviður. Fura er til dæmis kölluð tall í sænsku nútímamáli. Það orð er af sama meiði og þöll í íslensku. Í grasafræðinni er ein ætt barrtrjáa kölluð þallarætt og henni tilheyra nokkrar ættkvíslir, sedrusviðir, þin-, lerki-, furu- og grenitegundir, en líka þallir. Því má segja að þetta gamla orð, þöll, hafi einskorðast í íslensku nútímamáli við tré af einni þessara ættkvísla.