Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þessi frétt er meira en árs gömul

Ástand lands almennt slæmt ofan 180 metra yfir sjó á annesjum

30. ágúst 2023

Niðurstöður rannsókna nokkurra íslenskra vísindamanna á ástandi íslenskra gróðurvistkerfa sýna að ástand lands er almennt slæmt ofan 180 metra hæðar á annesjum en samsvarandi hæð er nokkru ofar inn til landsins á öðrum svæðum. Grein um efnið kom út nýverið í vísindaritinu PLOS ONE.

Ástand lands almennt slæmt ofan 180 metra yfir sjó á annesjum

Greinin er á ensku og ber titilinn A framework model for current land condition in Iceland. Höfundar eru Ólafur Arnalds, prófessor við deild náttúru og skógar við LbhÍ, og þrír sérfræðingar hjá Landgræðslunni, þau Bryndís Marteinsdóttir, Jóhann Þórsson og Sigmundur Helgi Brink.

Í frétt um rannsóknina á vef Landgræðslunnar segir að vistkerfi á landi hafi haft mismunandi mikið þanþol gagnvart landnýtingu, áföllum vegna eldgosa og kuldatímabila – sem leiði til mismunandi ástands þess í dag. Í rannsókninni er sett fram líkan til að varpa ljósi á hvaða þættir skýri best núverandi ástand vistkerfa á Íslandi sem endurspeglar þannig þanþol kerfanna gagnvart nýtingu og náttúrulegum áföllum í aldanna rás.

Í greininni var notuð nýstárleg aðferð sem byggðist á því að í slembiúrtaki voru 500 reitir lagðir út í landfræðilegum gagnagrunni, hver 250 ha að stærð. Vistfræðilegt ástand hvers reits var metið út frá stöðumati GróLindar og kannað hvort samband væri milli ástandsins og útbreiðslu votlendis, hæðar yfir sjávarmáli, halla, tilvistar urðarskriðna, nándar við eldvirk svæði og landfræðilegrar legu (þ.e. hvort reiturinn væri á Suður- og Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi, Vestfjörðum eða annesjum norðanlands).

Breyturnar reyndust allar hafa marktæk áhrif á núverandi ástand landsins en áhrifin eru mismikil og breytileg eftir landssvæðum. Í ljós kom að hæð yfir sjávarmáli og útbreiðsla votlendis eru mikilvægustu breyturnar. Niðurstöðurnar sýna að ástand lands er almennt slæmt (GróLindar-einkunn 3 eða lægri) ofan 180 m hæðar á annesjum (P á meðfylgjandi mynd) en samsvarandi hæð er nokkru ofar inn til landsins á öðrum svæðum. Loks segir í fréttinni á vef Landgræðslunnar að niðurstöðurnar bendi til þess að leggja beri meiri áherslu á að vernda vistkerfi á hálendi og annesjum fyrir landnýtingu. Votlendisvistkerfin hafi almennt meira þanþol gagnvart nýtingu og áföllum og því séu votlend landsvæði almennt í betra ástandi.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson

Ástand lands almennt slæmt ofan 180 metra yfir sjó á annesjum-image-0