Þessi frétt er meira en árs gömul
Áhuginn á heimsráðstefnu IUFRO aldrei meiri
13. september 2023
Ríflega fimm þúsund útdrættir hafa verið sendir inn til birtingar í tengslum við 26. heimsráðstefnu IUFRO sem fer fram í Stokkhólmi í Svíþjóð í júní á næsta ári. Þetta sýnir að áhuginn hefur aldrei verið meiri á ráðstefnunni í gervallri sögu IUFRO. Dr. Elena Paoletti, formaður vísindanefndar IUFRO, segist himinlifandi að sjá svona marga útdrætti. Það fullvissi skipuleggjendur ráðstefnunnar um að í boði verði vísindaleg dagskrá í hæsta gæðaflokki og árangur ráðstefnunnar eftir því.
Frá þessu segir í frétt á vef IUFRO sem eru alþjóðleg samtök skógrannsóknastofnana. Skógræktin er aðili að samtökunum fyrir hönd Íslands. Nú þegar innan við ár er í að ráðstefnan verði sett í júní á næsta ári hefur skógvísindafólk um allan heim, þar á meðal Íslendingar, sent inn alls 5.014 útdrætti til birtingar í ráðstefnugögnum. Útdrættirnir mynda hina vísindalegu undirstöðu ráðstefnunnar. Nú bíður vísindanefndar IUFRO að yfirfara útdrættina og velja hverjir þeirra standist þær kröfur að höfundarnir fái að birta veggspjöld eða halda erindi á ráðstefnunni.
„Þetta er auðvitað mikil vinna
en að sama skapi er virkilega uppörvandi að lesa um það sem er að gerast í heimi skógvísinda og skera úr um hvaða útdrættir eru áhugaverðastir og mestir að gæðum,“ segir Björn Hånell, prófessor við sænska landbúnaðarháskólann SLU sem situr í vísindanefnd IUFRO.
Umræddir 5.014 útdrættir ná yfir öll þau þemu og undirþemu sem verða tekin fyrir á heimsráðstefnu IUFRO 2024, allt frá líffjölbreytni til lífhagkerfisins, frá viðnámsþrótti skóga til sjálfbærra samfélaga og skóga fyrir framtíðina. Þessi framlög væntanlegra þátttakenda gefa líka til kynna gott jafnvægi milli landa og heimshluta enda hafa borist útdrættir frá 33 Evrópulöndum, 31 Asíulandi, 29 Afríkulöndum og 19 löndum Norður-, Mið- og Suður-Ameríku. Samtals er þarna á ferðinni vísindafólk frá 112 löndum hvaðanæva úr heiminum.
„Við gleðjumst mjög að sjá þetta jafnvægi enda tryggir það að vísindaframlag ráðstefnunnar verður sannarlega á breiðum og alþjóðlegum grunni,“ segir Elena Paoletti í fréttinni á vef IUFRO.
Svíar eru aðalgestgjafar heimsráðstefnu IUFRO 2024 en hin norrænu löndin taka þátt í dagskránni ásamt Eystrasaltslöndunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Í boði verða kynnisferðir til þessara landa, þar á meðal til Íslands. Landbúnaðarháskóli Íslands verður gestgjafi fyrir Íslands hönd ásamt nýrri stofnun skógræktar, Landi og skógi, sem verður til um áramótin.
Þau tuttugu lönd sem sent hafa flesta útdrætti til ráðstefnunnar
Svíþjóð | 475 |
Bandaríkin | 352 |
Þýskaland | 351 |
Indland | 282 |
Kína | 280 |
Finnland | 231 |
Ítalía | 180 |
Kanada | 172 |
Kenía | 166 |
Austurríki | 131 |
Spánn | 126 |
Brasilía | 121 |
Japan | 119 |
Bretland | 107 |
Suður-Kórea | 106 |
Filippseyjar | 96 |
Sviss | 93 |
Eþíópía | 73 |
Frakkland | 72 |
Belgía | 7 |
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson