Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 13. okt. 2021

962/2019

Reglugerð um veiðar á íslenskri sumargotssíld.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um veiðar íslenskra skipa á íslenskri sumargotssíld. Einungis skipum sem hafa aflamark í íslenskri sumargotssíld er heimilt að stunda veiðar á íslenskri sumargotssíld í fiskveiðilandhelgi Íslands. Veiðitímabil íslenskrar sumargotssíldar er frá og með 1. september til og með 30. apríl ár hvert.

2. gr.

Einungis er heimilt að stunda síldveiðar með vörpu utan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu, sbr. 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

3. gr.

Ef net eru notuð til síldveiða, skal lágmarksmöskvastærð vera slík að þegar möskvi er teygður horna á milli eftir lengd netsins, komist flöt mælistika 63 mm breið og 2 mm þykk auðveldlega í gegn. Netið skal mælt vott.

4. gr.

Síldarafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtaðri síld um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé aflanum landað í íslenskri höfn og tryggt að skráning og vigtun sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda síldarinnar eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Heimilt er að miðla afla úr nótum á miðunum milli skipa í því skyni að koma í veg fyrir að síld sé sleppt dauðri úr nótum.

Um vigtun á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla.

5. gr.

Síldarsýni skulu tekin úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera 50 til 75 stykki af síld sem valin eru af handahófi. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, í Reykjavík eða útibúum stofnunarinnar að lokinni veiðiferð.

6. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 56/1997, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 770/2006, um veiðar á íslenskri sumargotssíld.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.