Prentað þann 22. nóv. 2024
923/2010
Reglugerð um veiðar á skötusel í net.
1. gr.
Reglugerð þessi gildir um veiðar á skötusel í net og eru þær heimilar með þeim takmörkunum sem ákveðnar eru í lögum og reglugerðum hverju sinni.
Á Breiðafirði eru allar skötuselsveiðar bannaðar í net innan línu, sem dregin er frá Selskeri (austan Sigluness á Barðaströnd) um Selsker sunnan fjarðarins í Eyrarfjall.
2. gr.
Lágmarksmöskvastærð skötuselsneta sem heimilt er að nota er 12 þumlungar (305 mm). Óheimilt er að nota flottein með meira uppdrif en 13 g/m (grömm á metra) á skötuselsnet. Þrátt fyrir ákvæði fyrsta málsliðar er heimilt til og með 31. ágúst 2011 að nota net með 11,5 þumlunga (292 mm) möskva.
Þegar möskvastærð er mæld skulu þrír möskvar lagðir saman og teygðir horna á milli eftir lengd netsins. Netið skal mælt vott. Um framkvæmd möskvamælinga vísast að öðru leyti til reglugerðar nr. 24/1998, um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.
4. gr.
Hverju skipi er heimilt að hafa 100 net í sjó fyrir hvern skipverja í áhöfn en þó aldrei fleiri en 600 net. Takmörkun þessi á netafjölda miðast við 100 faðma ófellda slöngu. Heimilt er stunda veiðar með þorskfisknetum á sama tíma og veiðar eru stundaðar með skötuselsnetum. Í slíkum tilvikum skal skötuselsnetum fækkað um 3 net fyrir hvert eitt þorskfisknet sem lagt er í sjó.
Skötuselsnet skulu dregin eigi síðar en 4 sólarhringum eftir að þau eru lögð í sjó. Frávik frá þessu ákvæði er einungis heimilt ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja neta og skal skipstjóri tilkynna Fiskistofu liggi skötuselsnet viðkomandi skips lengur en 4 sólarhringa án þess að hafa verið dregin.
Týni skip skötuselsnetum í sjó, ber skipstjóra að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslunni og skýra frá staðsetningu netanna, eins nákvæmlega og unnt er.
5. gr.
Óheimilt er að stunda veiðar með skötuselsnetum á tímabilinu frá og með 20. janúar til og með 20. maí.
Til 14. júlí má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 metra frá stórstraumsfjöruborði.
6. gr.
Auk eftirlits Landhelgisgæslu með veiðum og veiðarfærum hafa eftirlitsmenn Fiskistofu eftirlit með, að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og er leyfishöfum skylt að gera þessum aðilum kleift að gera allar þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar í því skyni.
7. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi, að 2. gr. undanskilinni sem tekur gildi frá og með 21. maí 2011, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 282, 31. mars 2010, um veiðar á skötusel í net.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.