Prentað þann 27. des. 2024
858/2014
Reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Með þessari reglugerð er stefnt að því að skipuleggja afkastagetu flugvalla, þar sem innviðir mæta ekki eftirspurn á grundvelli sameiginlegra reglna sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Með þessum hætti er jafnframt stuðlað að aukinni umhverfisvernd og samkeppni á hinu Evrópska efnahagssvæði.
Reglugerðin gildir um úthlutun afgreiðslutíma á flugvelli sem skilgreindur hefur verið sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma eða með afgreiðslutíma eftir samráði.
2. gr. Tilnefning og eftirlit.
Samgöngustofa telst lögbært stjórnvald samkvæmt reglugerð þessari og fer með hlutverk aðildarríkis í framkvæmd og eftirliti skv. þeim reglugerðum sem innleiddar eru skv. 5. gr. reglugerðar þessarar.
3. gr. Kostnaður.
Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjald af rekstraraðila flugvallar sem er tilnefndur sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma á grundvelli reglugerðar þessarar. Skal gjaldið miðast við raunkostnað sem hlýst af framkvæmd reglugerðar þessarar.
4. gr. Samræmingarstjóri.
Samræmingarstjóri skal rækja störf sín á sjálfstæðan, hlutlausan og skýran hátt og án mismununar. Samræmingarstjóri ber einn ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma og skal ekki taka við fyrirmælum varðandi úthlutun þeirra í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og innleiddra EES-gerða.
Samræmingarstjóri verður ekki gerður bótaskyldur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengjast störfum hans samkvæmt þessari reglugerð og innleiddum EES-gerðum nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða stórfellt gáleysi eða misferli af hans hálfu.
5. gr. Innleiðing gerða.
Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir ráðsins og Evrópuþingsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
- Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94; eins og hún birtist í sérútgáfu við EES-samninginn nr. 2, hluta 10A, bls. 361 og í EES-viðbæti nr. 17, 1994, bls. 1.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2004, eins og hún birtist í EES-viðbæti nr. 31, 2007, bls. 119 og nr. 20, 2005, bls. 21.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/459 frá 30. mars 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2020, frá 3. apríl 2020.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1477 frá 14. október 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar tímabundna framlengingu á sérstökum neyðarráðstöfunum til að bregðast við afleiðingum COVID-19 heimsfaraldursins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2020, frá 30. október 2020, eins og hún birtist í EES-viðbæti nr. 19, 2021, bls. 38.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/250 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar tímabundna tilslökun á reglum um nýtingu afgreiðslutíma á flugvöllum í Sambandinu vegna COVID-19 heimsfaraldursins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2021, frá 3. mars 2021.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1889 frá 23. júlí 2021 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar rýmkun ráðstafana með tilliti til tímabundinnar tilslökunar á reglum um nýtingu afgreiðslutíma vegna COVID-19 hættuástandsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2022, frá 4. febrúar 2022, eins og hún birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18, frá 17. mars 2022, bls. 356-358.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/255 frá 15. desember 2021 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar rýmkun ráðstafana með tilliti til tímabundinnar tilslökunar á reglum um nýtingu afgreiðslutíma vegna COVID-19 hættuástandsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2022, frá 18. mars 2022 eins og hún birtist í EES-viðbæti nr. 26, frá 21. apríl 2022, bls. 352-354.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/2038 frá 19. október 2022 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar tímabundna tilslökun á reglum um nýtingu afgreiðslutíma á flugvöllum í Sambandinu vegna faraldsfræðilegra aðstæðna eða hernaðarárása, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2023, frá 17. mars 2023, eins og hún birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 85 frá 16. desember 2022, bls. 129-137.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 57. gr. c, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1050/2008, með áorðnum breytingum, um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.
Ákvæði til bráðabirgða.
Tilnefning samræmingarstjóra í samræmi við reglugerð nr. 1050/2008 skal teljast gild tilnefning samkvæmt reglugerð þessari.
Samgöngustofu er heimilt að yfirtaka réttindi og skyldur samkvæmt núgildandi samningi við samræmingarstjóra.
REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) 2020/459 frá 30. mars 2020 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á Bandalagsflugvöllum
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin, að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefndina, að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð (1), og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Í kjölfar útbreiðslu COVID-19 faraldursins hefur orðið verulegur samdráttur í flugumferð vegna þess að eftirspurn hefur minnkað til muna og sökum beinna ráðstafana sem aðildarríkin og þriðju lönd hafa gripið til í þeim tilgangi að halda faraldrinum í skefjum. Strax í janúar 2020 fóru flugrekendur að finna fyrir þessum alvarlegu áhrifum, með tilliti til Alþýðulýðveldisins Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæðis Alþýðulýðveldisins Kína, og hafa þessar aðstæður verið allsráðandi frá 1. mars 2020 og er líklegt að þær hafi áhrif á a.m.k. tvö áætlunartímabil, veturinn 2019/2020 og sumarið 2020.
2) Þessar aðstæður eru flugrekendum ofviða og flugþjónusta, sem þeir þurfa að aflýsa að eigin frumkvæði eða sem þeim er gert að aflýsa, er nauðsynlegt eða lögmætt svar við þessum aðstæðum. Flug sem flugrekendur þurfa að aflýsa að eigin frumkvæði verndar einkum fjárhagslegt heilbrigði þeirra og kemur í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af völdum flugs þar sem um er að ræða loftför sem fljúga með fáa eða enga farþega sem eingöngu er flogið til að viðhalda afgreiðslutímum á flugvöllum.
3) Tölur sem hafa verið birtar hjá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, sýna u.þ.b. 10% samdrátt í flugumferð innan Evrópusvæðisins fyrir fyrri hluta marsmánaðar 2020, mælt á ársgrundvelli. Flugrekendur tilkynna sem stendur um mikinn samdrátt í bókun ferða fram í tímann og hafa þegar aflýst fjölda flugferða innan áætlunartímabilanna fyrir veturinn 2019/2020 og sumarið 2020 sem afleiðing af faraldrinum.
4) Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 95/93 (2), með hliðsjón af 2. mgr. 10. gr. hennar, gæti flugrekandi, sem nær ekki að nýta a.m.k. 80% af röð afgreiðslutíma sem honum hefur verið úthlutað á flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma, misst hefðbundinn rétt sinn á þeim afgreiðslutímum.
5) Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93 er samræmingarstjórum afgreiðslutíma heimilt, við útreikning hefðbundins réttar, að líta framhjá ónýttum afgreiðslutímum á flugvöllum á þeim tímum þegar flugrekandinn getur ekki starfrækt áætlað flug sökum t.d. lokun flugvalla. Hins vegar er í þessari grein ekki fjallað um aðstæður eins og útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Því er rétt að breyta reglugerð (EBE) nr. 95/93 til samræmis við það.
6) Í ljósi fjölda þeirra bókana fram í tímann sem vitað er um og faraldsfræðilegra spáa má á þessu stigi fastlega gera ráð fyrir að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til 24. október 2020 hið minnsta verði fjölda ferða aflýst sem rekja má til útbreiðslu COVID19 faraldursins. Þó svo að flugrekendur nýti ekki þá afgreiðslutíma sem þeim hefur verið úthlutað á þessu tímabili ætti það ekki að hafa í för með sér að þeir missi hefðbundinn rétt sinn sem þeir myndu annars njóta. Því er nauðsynlegt að skilgreina við hvaða skilyrði ætti að líta á ónýtta afgreiðslutíma sem nýtta afgreiðslutíma í þessum tilgangi, með tilliti til samsvarandi síðari tímabil.
7) Afgreiðslutímar á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma eru verðmætar efnahagslegar auðlindir. Þrátt fyrir almennan samdrátt í flugumferð ætti aflýsing flugþjónustu þó ekki að koma í veg fyrir að aðrir flugrekendur nýti afgreiðslutíma á flugvelli og gætu þeir óskað eftir því að nýta þá tímabundið án þess að slíkt veiti þeim hefðbundinn rétt á slíkum afgreiðslutímum. Ef flugrekandinn, sem fékk afgreiðslutímana úthlutaða, nýtir þá ekki ætti þar af leiðandi að skila þeim án tafar til samræmingaraðilans.
8) Erfitt er að spá fyrir um frekari þróun COVID-19 faraldursins og áhrif hans á flugrekendur. Framkvæmdastjórnin ætti að greina að staðaldri áhrifin af völdum COVID-19 faraldursins á fluggeirann og Sambandið ætti að vera í aðstöðu til að framlengja, án ástæðulausrar tafar, gildistíma ráðstafananna, sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þessari reglugerð, ef þessar erfiðu aðstæður verða viðvarandi.
9) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að líta svo á að afgreiðslutímar, sem ekki eru nýttir vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins, sem nýtta afgreiðslutíma, og þeim verður betur náð á vettvangi Sambandsins vegna umfangs og áhrifa fyrirhugaðrar aðgerðar er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði.
10) Í því skyni að framlengja, ef nauðsyn krefur og það telst réttlætanlegt, þær ráðstafanir sem settar eru fram í þessari reglugerð ætti að fela framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja gerðir, í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, í því skyni að framlengja gildistíma ráðstafananna sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þessari reglugerð. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga, og að þetta samráð fari fram í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016 (3). Til að tryggja jafna þátttöku við undirbúning framseldra gerða fá Evrópuþingið og ráðið í hendur öll skjöl á sama tíma og sérfræðingar aðildarríkjanna og hafa sérfræðingar þeirra kerfisbundinn aðgang að fundum sérfræðingahópa framkvæmdastjórnarinnar sem hafa umsjón með undirbúningi framseldra gerða.
11) Í ljósi hinna brýnu, sérstöku aðstæðna, sem hafa skapast af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins, var talið viðeigandi að veita undanþágu frá átta vikna frestinum, sem um getur í 4. gr. bókunar 1 um hlutverk þjóðþinga í Evrópusambandinu sem fylgir sáttmálanum um Evrópusambandið, sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
12) Þessi reglugerð ætti að öðlast gildi sem fyrst eða daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (EBE) nr. 95/93 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 10. gr. a kemur eftirfarandi:
„10. gr. a
1. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingaraðilar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað er fyrir tímabilið frá 1. mars 2020 til 24. október 2020, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem fékk þá upprunalega úthlutaða.
2. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingaraðilar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað er fyrir tímabilið frá 23. janúar 2020 til 29. febrúar 2020, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem fékk þá upprunalega úthlutaða, að því er varðar flugþjónustu á milli flugvalla í Sambandinu og flugvalla annaðhvort í Alþýðulýðveldinu Kína eða í Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína.
3. Að því er varðar afgreiðslutíma, sem eru dagsettir síðar en 8. apríl 2020, skal 1. mgr. einungis gilda ef viðeigandi ónýttir afgreiðslutímar hafa verið gerðir aðgengilegir samræmingaraðilanum svo hægt sé að endurúthluta þeim til annarra flugrekenda.
4. Ef framkvæmdastjórnin telur, á grundvelli talna frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, að samdrátturinn í flugumferð sé viðvarandi í samanburði við samsvarandi tímabil á næstliðnu ári og að líklegt sé að svo verði áfram og ef hún telur einnig, á grundvelli bestu, fyrirliggjandi vísindagagna, að þetta ástand sé vegna áhrifa af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins skal hún samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 12. gr. a, til að breyta tímabilinu, sem tilgreint er í 1. mgr., til samræmis við það.
5. Framkvæmdastjórnin skal vakta að staðaldri ástandið með því að nota viðmiðanirnar sem settar eru fram í 4. mgr. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem framkvæmdastjórnin hefur aðgang að skal hún, eigi síðar en 15. september 2020, leggja yfirlitsskýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, samþykkja framseldu gerðina sem kveðið er á um í 4. mgr.
6. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum útbreiðslu COVID-19 faraldursins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 12. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.“
2) Eftirfarandi greinar bætast við:
„12. gr. a
Beiting framsals
1. Framkvæmdastjórninni er falið vald til að samþykkja framseldar gerðir að uppfylltum þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldu gerðirnar, sem um getur í 10. gr. a, til 2. apríl 2021.
3. Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla valdaframsalið sem um getur í 10. gr. a. Með ákvörðun um afturköllun skal binda enda á valdaframsalið sem um getur í þeirri ákvörðun. Ákvörðunin öðlast gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða síðar, eftir því sem tilgreint er í henni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi neinna framseldra gerða sem þegar eru í gildi.
4. Áður en framseld gerð er samþykkt skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við sérfræðinga sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016.
5. Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
6. Framseld gerð, sem er samþykkt skv. 10. gr. a, skal því aðeins öðlast gildi að Evrópuþingið eða ráðið hafi ekki haft uppi nein andmæli innan tveggja mánaða frá tilkynningu um gerðina til Evrópuþingsins og ráðsins eða ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina, áður en fresturinn er liðinn, um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum. Þessi frestur skal framlengdur um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
12. gr. b
Flýtimeðferð
1. Framseldar gerðir, sem samþykktar eru samkvæmt þessari grein, skulu öðlast gildi án tafar og gilda svo lengi sem engin andmæli eru lögð fram í samræmi við 2. mgr. Í tilkynningu til Evrópuþingsins og ráðsins um framselda gerð skal taka fram ástæður þess að flýtimeðferðinni er beitt.
2. Evrópuþingið eða ráðið getur andmælt framseldri gerð í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 6. mgr. 12. gr. a. Í slíku tilviki skal framkvæmdastjórnin fella gerðina tafarlaust úr gildi í kjölfar tilkynningar um ákvörðun Evrópuþingsins eða ráðsins um andmæli.“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 30. mars 2020.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, / Fyrir hönd ráðsins,
D. M. SASSOLI, / G. GRLIĆ RADMAN
forseti. / forseti.
_____________________________________________________
(1) Afstaða Evrópuþingsins frá 26. mars 2020 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 30. mars 2020.
(2) Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á Bandalagsflugvöllum (Stjtíð. EB L 14,
22.1.1993, bls. 1).
(3) Stjtíð. ESB L 123, 12.5.2016, bls. 1.
REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) 2021/250
frá 16. febrúar 2021
um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 að því er varðar tímabundna tilslökun á reglum um nýtingu afgreiðslutíma á flugvöllum í Sambandinu vegna COVID-19 heimsfaraldurs
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins (1), að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð (2), og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Í kjölfar COVID-19 hættuástandsins hefur orðið verulegur samdráttur í flugumferð vegna þess að eftirspurn hefur minnkað til muna og sökum beinna ráðstafana sem aðildarríkin og þriðju lönd hafa gripið til í þeim tilgangi að hemja útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Faraldurinn hefur haft skaðleg áhrif síðan 1. mars 2020 og líklegt er að áhrifin vari næstu árin.
2) Þessar aðstæður eru flugrekendum ofviða og hafa leitt til þess að þeir hafa þurft að aflýsa flugþjónustu að eigin frumkvæði eða þeim gert að aflýsa henni. Flug sem flugrekendur þurfa að aflýsa að eigin frumkvæði verndar einkum fjárhagslegt heilbrigði þeirra jafnframt því að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af völdum flugs loftfara með enga eða örfáa farþega sem eingöngu eru starfrækt til að viðhalda afgreiðslutímum þeirra.
3) Tölur sem hafa verið birtar hjá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol), sem er netstjórnandi fyrir starfsemi neta fyrir flugumferð innan samevrópska loftrýmisins, sýna áframhaldandi samdrátt í flugumferð sem nemur um 74% frá og með miðjum júní 2020, mælt á ársgrundvelli.
4) Ekki er mögulegt, á grundvelli bókana fram í tímann sem vitað er um, spáa Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu og faraldsfræðilegra spáa, að spá fyrir um hvenær líklegt er að tímabili verulegrar lítillar eftirspurnar eftir flugi, vegna COVID19 hættuástandsins, muni ljúka. Samkvæmt nýjustu spám Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu mun flugumferð í febrúar 2021 nema u.þ.b. helmingi flugumferðar febrúarmánaðar 2020. Spár sem ná lengra en sú dagsetning eru háðar allmörgum óvissuþáttum, t.d. aðgengi að bóluefnum við COVID-19. Við þessar aðstæður ættu flugrekendur sem nýta ekki afgreiðslutíma sinn í samræmi við nýtingarhlutfall afgreiðslutíma, eins og sett er fram í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 (3), ekki sjálfkrafa að missa forgangsrétt sinn að röð afgreiðslutímanna, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. þeirrar reglugerðar, sem þeir myndu annars njóta. Með þessari reglugerð ætti að ákvarða sértækar reglur í þessu skyni.
5) Þær reglur ættu jafnframt að beinast að mögulegum neikvæðum áhrifum á samkeppni flugrekanda. Einkum er nauðsynlegt að tryggja að flugrekendum, sem eru reiðubúnir að veita þjónustu, sé heimilt að nýta ónýtta afgreiðslugetu og þeir hafi möguleika á að viðhalda slíkum afgreiðslutímum til lengri tíma. Þetta ætti að viðhalda hvötum meðal flugrekenda til að nýta afgreiðslugetu flugvalla sem myndi að sama skapi koma neytendum til góða.
6) Því er nauðsynlegt, í samræmi við þessar meginreglur og í takmarkaðan tíma, að mæla fyrir um við hvaða skilyrði flugrekendur hafi áfram rétt á röð afgreiðslutíma, skv. 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93, og gera kröfur til hlutaðeigandi flugrekenda um að gefa eftir ónýtta afgreiðslugetu.
7) Á því tímabili þegar COVID-19 hættuástandið hefur neikvæð áhrif á flutninga í lofti ætti að víkka út skilgreiningu hugtaksins „nýr aðili“ í því skyni að fjölga flugrekendum, sem falla undir hana, og gefa þannig fleiri flugrekendum tækifæri til að hefja starfrækslu og efla starfsemi sína ef þeir óska þess. Þó er nauðsynlegt að takmarka réttindi flugrekenda, sem falla undir skilgreininguna, við réttmæta nýja aðila með því að útiloka flugrekendur sem, ásamt sérhverju móðurfélagi sínu eða eigin dótturfélögum eða dótturfélögum móðurfélags síns, hafa til umráða meira en 10% allra úthlutaðra afgreiðslutíma tiltekinn dag, sem um er að ræða, á hverjum tilteknum flugvelli.
8) Á meðan tilslökun á reglum um nýtingu afgreiðslutíma er í gildi ætti kerfið um úthlutun afgreiðslutíma að taka til greina viðleitni flugrekenda, sem hafa starfrækt flug með því að nota afgreiðslutíma sem eru hluti af röð sem annar flugrekandi hefur rétt á, skv. 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93, en sem hafa verið gerðir aðgengilegir samræmingarstjóra afgreiðslutíma til tímabundinnar endurúthlutunar. Flugrekendur, sem hafa nýtt a.m.k. fimm raðir afgreiðslutíma, ættu því að njóta forgangs við úthlutun á þeim röðum á næsta samsvarandi áætlunartímabili, að því tilskildu að flugrekandinn, sem á rétt á þeim samkvæmt þeim greinum, fari ekki fram á að nýta þær.
9) Þegar gripið er til tiltekinna COVID-19 hreinlætisráðstafana á flugvöllum getur það dregið úr tiltækri afgreiðslugetu og krafist sértækra COVID-19 samræmingarbreytna. Við slíkar aðstæður og til að gera kleift að gripið sé til slíkra breytna á viðeigandi hátt ætti að heimila samræmingarstjórum að breyta tímasetningu afgreiðslutíma, sem flugrekendum er úthlutað skv. 8. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93, eða til að aflýsa slíkum afgreiðslutímum á áætlunartímabilinu þegar tilteknar COVID-19 hreinlætisráðstafanir gilda.
10) Til að greiða fyrir nýtingu afgreiðslugetu flugvalla á áætlunartímabili sumarsins 2021 ætti flugrekendum að vera heimilt að skila afgreiðslutímum til samræmingarstjórans, sem þeir hafa fengið úthlutað fyrir upphaf áætlunartímabilsins svo unnt sé að endurúthluta afgreiðslutímunum í hverju tilviki fyrir sig. Flugrekendur sem skila heilum röðum afgreiðslutíma, áður en fresturinn sem settur er fram í þessari reglugerð rennur út, ættu að viðhalda rétti sínum til sömu raða afgreiðslutíma á þeim flugvelli á áætlunartímabili sumarsins 2022. Í ljósi annarra ráðstafana um tilslökun á reglum um nýtingu afgreiðslutíma, sem er að finna í þessari reglugerð, ætti flugrekendum með umtalsverðan fjölda afgreiðslutíma á flugvelli að vera heimilt að skila að hámarki helmingi afgreiðslutíma sinna með þeim hætti.
11) Með fyrirvara um skuldbindingu aðildarríkja um að uppfylla ákvæði laga Sambandsins, einkum reglurnar, sem mælt er fyrir um í sáttmálunum og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 (4), er ekki unnt að kenna flugrekendum um neikvæðar afleiðingar af mögulegum ráðstöfunum, sem opinber yfirvöld aðildarríkja eða þriðju landa hafa samþykkt til að bregðast við útbreiðslu COVID-19 faraldursins, og sem takmarka ferðagetu með mjög stuttum fyrirvara, og milda ætti þessar afleiðingar þegar þær ráðstafanir hafa veruleg áhrif á framkvæmanleika ferðalaga eða möguleikann á að ferðast eða á eftirspurn eftir viðkomandi flugleiðum. Þetta gæti falið í sér ráðstafanir sem hafa í för með sér lokun landamæra eða loftrýmis að hluta til eða að öllu leyti eða lokun viðkomandi flugvalla að hluta til eða að öllu leyti eða skertrar afgreiðslugetu þeirra, leitt til takmarkana á hreyfanleika flugáhafnar sem myndi verulega hefta rekstur flugþjónustu (e. air services) eða verulega hamla getu farþega til að ferðast með hvaða flugrekanda sem er á viðkomandi flugleið, þ.m.t. ferðatakmarkanir, takmarkanir á hreyfanleika eða ráðstafanir í tengslum við sóttkví í ákvörðunarlandi eða -svæði eða takmarkanir á tiltækileika nauðsynlegrar þjónustu sem styður beint við starfrækslu flugþjónustu. Þar af leiðandi ættu mildunarráðstafanir að tryggja að flugrekendur gjaldi ekki fyrir það þegar þeim tekst ekki að nýta afgreiðslutíma sökum slíkra takmarkandi ráðstafana sem höfðu ekki enn verið birtar þegar afgreiðslutímunum var úthlutað. Tilslökun á reglum, sérstaklega í því skyni að draga úr áhrifum af völdum innleiðingar slíkra ráðstafana, ætti að gilda í takmarkaðan tíma og, hvað sem öðru líður, ekki lengur en tvö samfelld áætlunartímabil.
12) Á tímabilum þar sem COVID-19 hættuástandið hefur umtalsverð áhrif á eftirspurn eftir flugi ættu flugrekendur, eftir því sem þurfa þykir, að njóta tilslakana á kröfum um að nýta afgreiðslutíma til að halda réttinum til að nýta þá afgreiðslutíma á sambærilegu síðara áætlunartímabili. Þetta ætti að gera flugrekendum kleift að fjölga flugferðum þegar aðstæður leyfa. Við setningu neðri marka nýtingarhlutfallsins, sem eru ákvörðuð í þessu skyni, ætti að taka mið af núverandi horfum um flugumferð fyrir árið 2021, frá og með upphafi 2021, sem nam 50% af umferðarþunga ársins 2019, óvissu í tengslum við COVID19 hættuástandið sem og endurheimt tiltrúar neytenda og þeirrar trúar að flugumferð komist í upprunalegt horf.
13) Í því skyni að bregðast við þróun áhrifa af völdum COVID-19 hættuástandsins og skorti á gagnsæi í kjölfarið að því er varðar þróun flugumferðar til meðallangs tíma, og til að bregðast á sveigjanlegan hátt, ef það er bráðnauðsynlegt og telst réttlætanlegt, við áskorunum sem loftflutningageirinn stendur frammi fyrir sem afleiðingu af því, ætti að fela framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja gerðir, í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, til að breyta gildistíma tilslökunar á reglu um nýtingu afgreiðslutíma og prósentugildum lágmarksnýtingarhlutfallsins á tilteknu bili. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga, og að þetta samráð fari fram í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016 (5). Einkum, í því skyni að tryggja jafna þátttöku við undirbúning framseldra gerða, fá framkvæmdastjórnin og ráðið öll skjöl á sama tíma og sérfræðingar aðildarríkjanna og hafa sérfræðingar þeirra kerfisbundinn aðgang að fundum sérfræðingahópa framkvæmdastjórnarinnar sem vinna að undirbúningi framseldra gerða.
14) Til að geta hafið nauðsynlegan undirbúning í tæka tíð þarf flugrekendum og samræmingarstjórum að vera kunnugt um þau skilyrði sem gilda um nýtingu afgreiðslutíma á tilteknu áætlunartímabili Framkvæmdastjórnin ætti því að leitast við að samþykkja framseldu gerðirnar eins fljótt og auðið er og ætti, hvað sem öðru líður, að samþykkja þær áður en fresturinn til að skila afgreiðslutímum rennur út eins og um getur í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar (EBE) nr. 95/93.
15) Flugvellir, þjónustuveitendur flugvallar og flugrekendur þurfa að hafa upplýsingar um tiltæka afgreiðslugetu til að geta unnið að áætlunargerð með skipulegum hætti. Flugrekendur ættu, eins fljótt og auðið er og eigi síðar en þremur vikum fyrir áætlaðan dag sem nýta á viðkomandi afgreiðslutíma, að gera afgreiðslutímana, sem þeir hafa ekki ætlað sér að nýta, aðgengilega fyrir samræmingarstjórann til mögulegrar endurúthlutunar til annarra flugrekenda. Flugrekendur sem ítrekað og af ásetningi uppfylla ekki þá kröfu eða aðrar kröfur reglugerðar (EBE) nr. 95/93 ættu að sæta viðeigandi viðurlögum eða sambærilegum ráðstöfunum.
16) Ef samræmingarstjóri er sáttur við að flugrekandi hafi hætt starfrækslu á flugvelli ætti hann tafarlaust að afturkalla afgreiðslutímana frá hlutaðeigandi flugrekanda og færa þá í heildarskrána til endurúthlutunar til annarra flugrekanda.
17) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að setja sértækar reglur og gera tímabundnar tilslakanir á almennum reglum um nýtingu afgreiðslutíma til að milda áhrif COVID-19 hættuástandsins á flugumferð, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna umfangs þess og áhrifa, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði.
18) Í ljósi hinna brýnu, sérstöku aðstæðna, sem tengjast COVID-19 hættuástandinu, er talið viðeigandi að veita undanþágu frá átta vikna frestinum, sem um getur í 4. gr. bókunar 1 um hlutverk þjóðþinga í Sambandinu, sem fylgir sáttmálanum um Evrópusambandið, sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
19) Til að beita megi ráðstöfunum þessarar reglugerðar skjótt ætti hún að öðlast gildi sem fyrst eða daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (EBE) nr. 95/93 er breytt sem hér segir:
1) Ákvæðum 2. gr. er breytt sem hér segir:
a) Eftirfarandi lið er bætt við:
„ba) á tímabilinu, sem um getur í 3. mgr. 10. gr. a, merkir „nýr aðili“:
i. flugrekandi, sem sækir um afgreiðslutíma á flugvelli, sem hluta af röð afgreiðslutíma á tilteknum degi, þannig að flugrekandinn hefði færri en sjö afgreiðslutíma í heild á þeim flugvelli þann tiltekna dag væri beiðni hans samþykkt eða
ii. flugrekandi, sem sækir um röð afgreiðslutíma fyrir beint áætlunarflug með farþega milli tveggja flugvalla í Sambandinu, þar sem í mesta lagi tveir aðrir flugrekendur starfrækja samskonar beint áætlunarflug milli þeirra flugvalla þennan tiltekna dag þannig að flugrekandinn hefði samt sem áður færri en níu afgreiðslutíma á viðkomandi flugvelli þennan tiltekna dag, fyrir þetta flug, ef beiðni hans væri samþykkt.
Flugrekandi sem, ásamt móðurfélagi sínu, eigin dótturfélögum eða dótturfélögum móðurfélags síns, hefur til umráða meira en 10% allra úthlutaðra afgreiðslutíma tiltekinn dag á tilteknum flugvelli telst ekki nýr aðili á þeim flugvelli.“ b) Eftirfarandi lið er bætt við:
„n) „COVID-19 samræmingarbreytur“: endurskoðaðar samræmingarbreytur sem hafa í för með sér skerta afgreiðslugetu flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma vegna tiltekinna hreinlætisráðstafana sem aðildarríkin hafa gripið til í því skyni að bregðast við COVID-19 hættuástandinu.“
2) Í stað fyrstu undirgreinar 1. mgr. 7. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Flugrekendur, sem starfa eða hyggjast starfa á flugvelli með afgreiðslutíma eftir samráði eða á flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma, skulu senda samráðsstjóra eða samræmingarstjóra allar viðeigandi upplýsingar sem þeir óska eftir. Allar viðeigandi upplýsingar skulu gefnar með því sniði og innan þeirra tímamarka sem samráðsstjóri eða samræmingarstjóri tilgreinir. Þegar flugrekandi óskar eftir úthlutun skal hann einkum upplýsa samræmingarstjórann um það hvort hann myndi njóta góðs af því að teljast nýr aðili í samræmi við b-lið eða lið ba í 2. gr.“
3) Ákvæðum 8. gr. er breytt sem hér segir:
a) Í stað inngangsorða fyrstu undirgreinar 2. mgr. kemur eftirfarandi:
„2. Með fyrirvara um 7. gr., 8. gr. a og 9. gr., 10. gr. (1. mgr. og 2. mgr. a) og 14. gr. skal 1. mgr. þessarar greinar ekki gilda ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:“.
b) Eftirfarandi málsgrein er bætt við:
„2a. Á tímabilinu, sem um getur í 3. mgr. 10. gr. a, skal röðum afgreiðslutíma sem voru færðar aftur í heildarskrá afgreiðslutíma, í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, í lok áætlunartímabilsins („viðmiðunaráætlunartímabilsins“), sé þess óskað, úthlutað á næsta samsvarandi áætlunartímabili til flugrekanda sem hefur nýtt a.m.k. fimm afgreiðslutíma viðkomandi raðar í kjölfar beitingar 7. mgr. 10. gr. a á viðmiðunaráætlunartímabilinu, að því tilskildu að þeim röðum afgreiðslutíma hafi ekki þegar verið úthlutað til flugrekanda, sem var upphaflega handhafi þeirra raða, fyrir næsta samsvarandi áætlunartímabil í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar.
Ef fleiri en einn umsækjandi uppfyllir kröfur fyrstu undirgreinar skal flugrekandinn, sem hefur nýtt flesta afgreiðslutíma þeirrar raðar, njóta forgangs.“
c) Eftirfarandi málsgrein er bætt við:
„6a. Á tímabilinu þegar COVID-19 samræmingarbreytur eru í gildi og til að unnt sé að beita þeim á réttan hátt er samræmingarstjóra heimilt að breyta tímasetningu afgreiðslutíma, sem sótt hefur verið um eða sem hefur verið úthlutað innan tímabilsins, sem tilgreint er í 3. mgr. 10. gr. a, eða aflýsa tímunum eftir að hafa veitt hlutaðeigandi flugrekanda áheyrn. Í þessu samhengi skal samræmingarstjórinn taka tillit til viðbótarreglnanna og -leiðbeininganna, sem um getur í 5. mgr. þessarar greinar, samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru fram þar.“
4) Í stað 3. mgr. 8. gr. a kemur eftirfarandi:
„3. a) Óheimilt er að færa afgreiðslutíma, eins og kveðið er á um í b-lið 1. mgr. þessarar greinar, sem úthlutað er nýjum aðila, eins og hann er skilgreindur í b-lið eða lið ba í 2. gr., næstu tvö samsvarandi áætlunartímabil nema um sé að ræða löglega yfirtöku á starfsemi gjaldþrota fyrirtækis.
b) Óheimilt er að færa afgreiðslutíma, sem úthlutað er nýjum aðila, eins og hann er skilgreindur í ii. og iii. lið b-liðar 2. gr. eða ii. lið liðar ba í 2. gr., yfir á aðra flugleið, eins og kveðið er á um í a-lið 1. mgr. þessarar greinar, næstu tvö samsvarandi áætlunartímabil nema nýi aðilinn njóti sama forgangs á nýju leiðinni og upphaflegu leiðinni.
c) Óheimilt er að skipta á afgreiðslutímum, eins og kveðið er á um í c-lið 1. mgr. þessarar greinar, sem úthlutað er nýjum
aðila, eins og hann er skilgreindur í b-lið eða lið ba í 2. gr., næstu tvö samsvarandi áætlunartímabil nema til að bæta tímasetningu afgreiðslutíma þessarar þjónustu í samanburði við þá tímasetningu sem upprunalega var sótt um.“
5) Ákvæðum 10. gr. er breytt sem hér segir:
a) Eftirfarandi málsgrein er bætt við:
„2a. Þrátt fyrir 2. mgr. skal röð afgreiðslutíma, sem er úthlutað fyrir áætlunartímabilið frá 28. mars 2021 til 30. október 2021 veita flugrekandanda rétt á sömu röð afgreiðslutíma fyrir áætlunartímabilið frá 27. mars 2022 til 29. október 2022 ef flugrekandinn hefur gert heila röð afgreiðslutíma aðgengilega fyrir samræmingarstjórann til endurúthlutunar fyrir 28. febrúar 2021. Þessi málsgrein skal aðeins gilda um raðir afgreiðslutíma sem sami flugrekandi hefur fengið úthlutað fyrir áætlunartímabilið frá 29. mars 2020 til 24. október 2020. Sá fjöldi afgreiðslutíma sem hlutaðeigandi flugrekandi getur nýtt, samkvæmt þessari málsgrein, skal takmarkast við fjölda sem samsvarar 50% þeirra afgreiðslutíma sem sama flugrekanda var úthlutað fyrir áætlunartímabilið frá 29. mars 2020 til 24. október 2020 nema hann hafi fengið færri en 29 afgreiðslutíma úthlutað á viku að meðaltali á fyrra samsvarandi áætlunartímabili á viðkomandi flugvelli.“
b) Ákvæðum 4. mgr. er breytt sem hér segir:
i. Eftirfarandi lið er bætt við:
„e) á tímabilinu sem um getur í 3. mgr. 10. gr. a, innleiðing opinberra yfirvalda á ráðstöfunum sem eru ætlaðar til að bregðast við útbreiðslu COVID-19 faraldursins á öðrum enda flugleiðar þar sem viðkomandi afgreiðslutímar voru notaðir eða fyrirhugað var að nota þá, að því tilskildu að ráðstafanirnar hafi ekki verið birtar á þeim tíma sem röðum afgreiðslutímanna var úthlutað, að þessar ráðstafanir hafi veruleg áhrif á framkvæmanleika ferðalaga eða möguleikann á að ferðast eða eftirspurn eftir viðkomandi flugleið og að þær leiði ekki til einhvers af eftirfarandi:
i. lokunar landamæra eða loftrýmis, að hluta til eða að öllu leyti, eða lokunar flugvallar, að hluta til eða að öllu leyti, eða að dregið sé úr afkastagetu flugvallarins, á stórum hluta viðkomandi áætlunartímabils,
ii. alvarlegra hindrana á getu farþega til að ferðast með hvaða flugrekanda sem er á umræddri beinni flugleið, á stórum hluta viðkomandi áætlunartímabils þ.m.t.
– ferðatakmarkanir á grundvelli ríkisfangs eða búsetustaðar, bann við öllum ferðalögum nema þeim sem eru nauðsynleg eða bann við flugi frá eða til tiltekinna landa eða landsvæða,
– takmarkanir á hreyfanleika eða ráðstafanir í tengslum við sóttkví eða einangrun í landinu eða á landsvæðinu þar sem ákvörðunarflugvöllurinn er staðsettur (þ.m.t. viðkomustaðir),
– takmarkanir á tiltækileika nauðsynlegrar þjónustu sem styður beint við starfrækslu flugþjónustu,
iii. takmarkana á hreyfanleika flugáhafnar sem myndi verulega hefta flugþjónustu frá eða til þeirra flugvalla sem notaðir eru, þ.m.t. skyndilegt komubann eða strand áhafnar á óvæntum stöðum vegna sóttvarnarráðstafana.“
ii. Eftirfarandi undirgreinum er bætt við:
„Ákvæði e-liðar skulu gilda á tímabilinu þegar ráðstafanirnar, sem um getur í þeim lið, eru í gildi og innan þeirra marka sem um getur í þriðju, fjórðu og fimmtu undirgrein í allt að sex vikur til viðbótar. Ef ráðstafanirnar, sem um getur í elið, falla úr gildi innan sex vikna áður en áætlunartímabilinu lýkur skal e-liður einungis gilda það sem eftir er af sex vikna tímabilinu ef afgreiðslutímar síðara áætlunartímabilsins eru notaðir fyrir sömu flugleið.
Ákvæði e-liðar skulu einungis gilda um afgreiðslutíma, sem eru notaðir fyrir flugleiðir sem flugrekandinn hefur þegar notað þá fyrir, áður en ráðstafanirnar, sem um getur í e-lið, voru birtar.
Ákvæði e-liðar falla úr gildi ef flugrekandinn nýtir viðkomandi afgreiðslutíma þannig að hann skiptir þeim út fyrir flugleið sem ráðstafanir opinberra yfirvalda hafa ekki áhrif á.
Flugrekendum er heimilt að réttlæta ónýttan afgreiðslutíma, í samræmi við e-lið, í að hámarki tvö samfelld áætlunartímabil.“
c) Í stað annarrar undirgreinar 6. mgr. kemur eftirfarandi:
„Umsóknir frá nýjum aðilum, þar sem flugrekendur uppfylla skilyrði um stöðu nýs aðila skv. i. og ii. lið b-liðar 2. gr., i. og iii. lið b-liðar 2. gr. eða i. og ii. lið liðar ba í 2. gr., skulu njóta forgangs.“
6) Í stað 10. gr. a kemur eftirfarandi:
„10. gr. a
Úthlutun afgreiðslutíma sem viðbrögð við COVID-19 hættuástandinu
1. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingarstjórar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað var fyrir tímabilið frá 1. mars 2020 til 27. mars 2021, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem þeim var upprunalega úthlutað.
2. Að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. skulu samræmingarstjórar líta svo á að afgreiðslutímar, sem úthlutað var fyrir tímabilið frá 23. janúar 2020 til 29. febrúar 2020, hafi verið notaðir af flugrekandanum sem þeim var upprunalega úthlutað, að því er varðar flugþjónustu á milli flugvalla í Sambandinu og flugvalla annaðhvort í Alþýðulýðveldinu Kína eða í Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína.
3. Að því er varðar afgreiðslutíma sem samræmingarstjórinn hefur ekki fengið aðgang að til endurúthlutunar, í samræmi við 2. mgr. a í 10. gr., á tímabilinu frá 28. mars 2021 til 30. október 2021 og að því er varðar 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr., ef flugrekandi sýnir samræmingarstjóranum fram á, svo honum þyki fullnægjandi, að hann hafi nýtt a.m.k. 50% viðkomandi raðar afgreiðslutíma, samkvæmt fyrirmælum samræmingarstjóra, á áætlunartímabilinu sem henni var úthlutað fyrir, skal flugrekandinn eiga rétt á sömu röðum afgreiðslutíma á næsta samvarandi áætlunartímabili.
Að því er varðar tímabilin, sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar, skulu prósentugildin, sem um getur í 4. mgr. 10. gr. og a-lið 6. mgr. 14. gr., vera 50%.
4. Að því er varðar afgreiðslutíma, sem eru dagsettir frá 9. apríl 2020 til 27. mars 2021, skal 1. mgr. einungis gilda ef flugrekandinn hefur skilað viðeigandi ónýttum afgreiðslutímum til samræmingarstjórans svo hægt sé að endurúthluta þeim til annarra flugrekenda.
5. Ef framkvæmdastjórnin telur, á grundvelli gagna frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir starfsemi neta fyrir flugumferð innan samevrópska loftrýmisins, að samdrátturinn í flugumferð sé viðvarandi í samanburði við samsvarandi tímabil árið 2019 og, á grundvelli flugumferðarspár Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu, að líklegt sé að svo verði áfram og ef hún telur einnig, á grundvelli bestu, fyrirliggjandi vísindagagna, að þetta ástand sé af völdum COVID-19 hættuástandsins, skal hún samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 12. gr. a, til að breyta tímabilinu, sem tilgreint er í 3. mgr., til samræmis við það.
Framkvæmdastjórninni er falið vald, ef bráðnauðsynlegt reynist til að bregðast við þróun áhrifa af völdum COVID-19 hættuástandsins á flugumferð, til að samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 12. gr. a, til að breyta prósentugildunum, sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar, innan bils á milli 30% og 70%. Í þessu skyni skal framkvæmdastjórnin taka til greina breytingar, sem hafa verið gerðar frá 20. febrúar 2021, á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) gagna sem Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu hefur gefið út um umferðarþunga og flugumferðarspár,
b) þróunar flugumferðar á áætlunartímabilinu, að teknu tilliti til þróunar sem orðið hefur frá því að COVID-19 hættuástandið hófst og
c) vísbendinga varðandi eftirspurn eftir farþega- og vöruflutningum í lofti, þ.m.t. þróun að því er varðar stærð og nýtingu flota sem og hleðslunýting.
Framseldar gerðir, samkvæmt þessari málsgrein, skulu samþykktar eigi síðar en 31. desember fyrir komandi sumaráætlunartímabil og eigi síðar en 31. júlí fyrir komandi vetraráætlunartímabil.
6. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum COVID-19 hættuástandsins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 12. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.
7. Á tímabilinu, sem um getur í 3. mgr., skulu flugrekendur gera alla afgreiðslutíma, sem þeir hyggjast ekki nota, aðgengilega fyrir samræmingarstjórann til endurúthlutunar til annarra flugrekanda, eigi síðar en þremur vikum áður en fyrirhuguð nýting afgreiðslutímanna hefst.“
7) Í stað 2. mgr. 12. gr. a kemur eftirfarandi:
„2. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldu gerðirnar, sem um getur í 10. gr. a, til 21. febrúar
2022.“
8) Ákvæðum 14. gr. er breytt sem hér segir:
a) Í stað 5. mgr. kemur eftirfarandi:
„5. „Aðildarríki skulu setja og beita viðurlögum sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og hafa varnaðaráhrif eða gera sambærilegar ráðstafanir gagnvart flugrekendum sem fara ítrekað og af ásetningi ekki að ákvæðum þessarar reglugerðar.“
b) Eftirfarandi lið er bætt við 6. mgr.:
„c) Ef samræmingarstjóri staðfestir, á tímabilinu sem um getur í 3. mgr. 10. gr. a og á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, að flugrekandi hafi hætt starfrækslu sinni á flugvelli og getur ekki lengur nýtt afgreiðslutímana, sem honum hefur verið úthlutað, skal samræmingarstjórinn afturkalla viðkomandi raðir afgreiðslutíma frá þeim flugrekanda það sem eftir er áætlunartímabilsins og færa þær í heildarskrána eftir að hafa veitt viðkomandi flugrekanda áheyrn.“
2. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 16. febrúar 2021.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, D. M. Sassoli forseti. | Fyrir hönd ráðsins, A. P. ZACARIAS forseti. |
_______________________________
(1) Álit frá 27. janúar 2021 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins).
(2) Afstaða Evrópuþingsins frá 11. febrúar 2021 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins) og ákvörðun ráðsins frá 15. febrúar 2021.
(3) Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á Bandalagsflugvöllum (Stjtíð. EB L 14,
22.1.1993, bls. 1).
(4) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 frá 24. september 2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu (Stjtíð. ESB L 293, 31.10.2008, bls. 3).
(5) Stjtíð. ESB L 123, 12.5. 2016, bls. 1.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.