Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 9. des. 2023

830/2022

Reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að framkvæmd mengunarvarna og hollustuverndar vegna starfsemi sem fellur undir lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmiðið er einnig að bæta viðmót, einfalda aðgengi að stjórnsýslu og auka skilvirkni með því að taka upp skráningu atvinnurekstrar í miðlæga rafræna gátt í stað starfsleyfisskyldu þar sem við á.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skráningarskyldan atvinnurekstur sem tilgreindur er í viðauka við reglugerð þessa.

3. gr. Skráningarskylda.

Rekstraraðili skráningarskylds atvinnurekstrar, sbr. viðauka, skal skrá starfsemi sína á vefsetrinu island.is áður en starfsemi hefst.

Óheimilt er að hefja skráningarskyldan atvinnurekstur fyrr en skráning hefur farið fram, skráningargjald greitt og rekstraraðili fengið senda staðfestingu, sbr. 2. mgr. 4. gr.

4. gr. Upplýsingar um starfsemi, yfirlýsing rekstraraðila og staðfesting á skráningu.

Rekstraraðili skal skrá upplýsingar um rekstraraðila, lýsingu á tegund starfseminnar, umfangi hennar og umfangi einstakra rekstrarþátta, staðsetningu starfseminnar, svo sem fastanúmer fasteignar þar sem starfsemi fer fram, og eiganda hennar ásamt öðrum upplýsingum eða gögnum sem krafist er við skráningu. Rekstraraðili skal við skráningu lýsa því yfir að hann uppfylli þær almennu kröfur sem gilda um atvinnureksturinn, að starfsemin sé í samræmi við samþykkta notkun húsnæðis eða aðstöðu og að skráðar upplýsingar um starfsemina séu réttar.

Heilbrigðisnefnd skal að jafnaði innan fimm virkra daga frá því að rekstraraðili skráir starfsemi sína, sbr. 1. mgr., tilkynna á vefsetrinu island.is ef starfsemi uppfyllir ekki skilyrði skráningar og hvaða rök liggi þar að baki.

Þegar fullnægjandi upplýsingar, yfirlýsing rekstraraðila og starfsemi uppfyllir skráningu er skráningin staðfest og skráning atvinnurekstrar tilkynnt til rekstraraðila, eiganda fasteignar og hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Upplýsingar um starfsemina eru jafnframt sendar rafrænt úr kerfinu til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Rekstraraðila skulu jafnframt send rafrænt viðeigandi starfsskilyrði sem gilda um starfsemi hans.

Umhverfisstofnun og hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd skulu hafa upplýsingar um skráða starfsemi aðgengilegar á vefsvæðum sínum.

5. gr. Starfsskilyrði.

Umhverfisstofnun gefur út almennar kröfur sem skulu gilda um skráningarskyldan atvinnurekstur, sbr. viðauka og 2. mgr. 4. gr.

Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir skulu hafa starfsskilyrði aðgengileg á vefsvæðum sínum.

6. gr. Ábyrgð rekstraraðila.

Rekstraraðili skráningarskylds atvinnurekstrar ber ábyrgð á því að starfsemi hans sé skráð, að skráðar upplýsingar um starfsemina séu réttar og að starfsemin sé í samræmi við gildandi löggjöf, almennar kröfur og starfsskilyrði. Staðfest skráning ásamt starfsskilyrðum skulu vera sýnileg viðskiptavinum á starfsstöð.

7. gr. Breytingar á starfsemi.

Rekstraraðila ber að skrá upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á skráningarskyldri starfsemi með hæfilegum fyrirvara á vefsetrinu island.is. Óheimilt er að gera breytingar á starfsemi fyrr en rekstraraðili hefur greitt breytingargjald og fengið senda staðfestingu um breytta skráningu.

8. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefnd fer með eftirlit með skráningarskyldum atvinnurekstri, þ. á m. að starfsemi sé rétt skráð. Eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og eftir því sem við á reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi og reglugerð um hollustuhætti.

9. gr. Gjaldtaka.

Um gjaldtöku fyrir skráningu og eftirlit fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og eftir því sem við á reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og reglugerð um hollustuhætti. Við skráningu á vefsetrinu island.is er innheimt gjald fyrir skráningu og breytingar á skráningu samkvæmt reglugerð þessari.

Heilbrigðisnefnd innheimtir gjald fyrir eftirlit með skráningarskyldum atvinnurekstri samkvæmt reglugerð þessari.

10. gr. Málsmeðferð o.fl.

Um málsmeðferð og úrskurði, valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt henni.

11. gr. Afskráningar.

Rekstraraðili skal afskrá starfsemi sína á vefsetrinu island.is þegar starfsemi er hætt. Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd fær senda tilkynningu um afskráningu.

Hafi rekstraraðili ekki afskráð starfsemi sína og starfsemin er sannarlega ekki lengur starfandi eða ef starfsemi fellur ekki lengur undir skilyrði um skráningarskylda starfsemi er hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd heimilt að afskrá starfsemina þegar lögbundinni málsmeðferð er lokið. Heilbrigðisnefnd skal tilkynna afskráningu á vefsetrinu island.is.

12. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. tölul. 4. gr. og 1. og 20. tölul. 5. gr. laganna. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um hlutverk heilbrigðisnefnda við framkvæmd reglugerðar þessarar.

Reglugerðin öðlast gildi 15. nóvember 2022. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 582/2000 um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 3. gr. þurfa þeir rekstraraðilar, sem eru með gildandi starfsleyfi, ekki að skrá sama atvinnurekstur sem fellur undir reglugerð þessa. Við gildistöku reglugerðar þessarar skulu hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir skrá og færa inn í miðlæga skrá eins fljótt og verða má þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 4. gr. um rekstraraðila sem hafa gild starfsleyfi vegna starfsemi sem fellur undir reglugerðina, á sniðmáti sem Umhverfisstofnun ákveður.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.