Prentað þann 27. des. 2024
737/2003
Reglugerð um meðhöndlun úrgangs.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
- II. KAFLI Stjórnvöld o.fl.
- III. KAFLI Meðhöndlun úrgangs.
- 12. gr. Meginreglur.
- 13. gr. Forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.
- 14. gr. Hreinsunarúrgangur.
- 15. gr. Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.
- 16. gr. Smitandi úrgangur o.fl.
- 17. gr. Um almennan þrifnað utanhúss.
- 18. gr. Sorpílát.
- 19. gr. Skyldur rekstraraðila.
- 20. gr. Spilliefni frá heimilum.
- IV. KAFLI Starfsleyfisskylda.
- V. KAFLI Ýmis ákvæði.
- I. viðauki
- II. viðauki
I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, einkum mengun vatns, jarðvegs og andrúmslofts.
Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að dregið verði með skipulögðum hætti úr myndun úrgangs eins og unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og að sú förgun úrgangs sem nauðsynleg er verði með skipulögðum hætti þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun úrgangs.
Um förgun úrgangs fer samkvæmt reglugerðum um urðun úrgangs og brennslu úrgangs. Um meðhöndlun úrgangs á sjó gilda lög um varnir gegn mengun sjávar. Reglugerðin gildir ekki um geislavirkan úrgang.
3. gr. Skilgreiningar.
Atvinnurekstur: hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
Besta fáanlega tækni: framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
Eftirlitsaðilar: viðkomandi heilbrigðisnefnd og Umhverfisstofnun og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Flokkunarmiðstöðvar: staðir þar sem tekið er við úrgangi sem er safnað saman kerfisbundið til flokkunar til endurnýtingar og/eða til förgunar.
Förgunarstaður: staður þar sem förgun úrgangs fer fram m.a. urðunarstaðir og brennslustöðvar.
Grunnvatn: vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.
Heilbrigðisþjónusta og stofur sem stunda húðrof: stofnanir og starfsaðstaða sem læknar, tannlæknar, dýralæknar eða aðrir sem hafa sambærileg réttindi til að koma í veg fyrir og greina sjúkdóma í mönnum eða dýrum, gera að sárum og/eða hafa eftirlit með sjúkdómum. Hér er einnig átt við læknis- og líffræðilegar rannsóknastofur, hjúkrunar- og dvalarheimili og aðra umönnunarstaði fyrir fólk, fótaaðgerðarstofur og stofur sem stunda húðrof eins og nálarstungur, húðgatanir og húðflúr.
Heimilisúrgangur (sorp): úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.
Landbúnaðarúrgangur: úrgangur frá landbúnaði, til dæmis húsdýraskítur, gamalt hey, heyrúlluplast og dýrahræ.
Lífrænn úrgangur: lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, veitingastöðum, veisluþjónustufyrirtækjum og smásölum og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
Meðferð úrgangs: meðhöndlun úrgangs önnur en endanleg förgun.
Meðhöndlun úrgangs (sorphirða): söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.
Böggun: þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans.
Flokkun: aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.
Flutningur: ferli þegar úrgangur er fluttur í atvinnuskyni til endurnotkunar, endurnýtingar eða förgunar.
Endurnotkun (reuse): endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd.
Endurnýting (recovery): hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun þ.m.t. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun.
Endurvinnsla (recycling): endurframleiðsla úr úrgangi til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla.
Förgun: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega s.s. urðun og brennsla úrgangs.
Pökkun: þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.
Mengun: þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Mengunarvarnaeftirlit: eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðferðar. Þaðan fer úrgangur til nýtingar eða förgunar. Undir móttökustöðvar falla flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og brennslustöðvar.
Rekstraraðili: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.
Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu og verslun annar en heimilisúrgangur.
Ruslabiður: ílát sem komið er fyrir á almannafæri í því skyni að auðvelda fólki að losa sig við úrgang.
Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof: Úrgangur sem hefur í för með sér meiri sýkingarhættu og skaðlegri áhrif á fólk og umhverfi en annar úrgangur. Til þessa flokks heyrir smitandi úrgangur (sóttmengaður úrgangur), líkamshlutar og vefir, hvassir hlutir, lyfjaúrgangur, geislavirk efni og spilliefni.
Sorpgeymsla: aðstaða í eða við fasteign, fyrirtæki eða stofnun þar sem úrgangi er safnað áður en hann er fluttur til söfnunarstöðva eða móttökustöðva.
Sorpílát: ílát til að safna úrgangi, s.s. tunnur og gámar af ýmsum stærðum.
Smitandi úrgangur (sóttmengaður úrgangur): Úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof sem inniheldur lífvænlegar örverur eða eiturhrif þeirra sem vitað er eða má ætla að geti valdið sjúkdómum í mönnum eða öðrum lífverum.
Spilliefni: úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista sem spilliefni í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.
Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðvar.
Umhverfi: samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
Urðun: varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð.
Urðunarstaðir: staðir þar sem tekið er við úrgangi til urðunar á eða í landi, þar á meðal urðunarstaðir þar sem framleiðandi úrgangs fargar eigin úrgangi á framleiðslustað og varanlegir staðir, þ.e. þar sem úrgangur er geymdur lengur en eitt ár áður en honum er fargað, eða þrjú ár áður endurnýting hefst.
Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem úrgangshafi ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og er skráður á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.
Úrgangshafi: framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni.
Vatn: grunnvatn og yfirborðsvatn.
Vöktun: kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
Yfirborðsvatn: kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór.
II. KAFLI Stjórnvöld o.fl.
4. gr. Framkvæmd.
Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum um yfirstjórn mála á varnarsvæðum.
Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir móttökustöðvar og meðhöndlun spilliefna og hefur eftirlit með því að starfsleyfishafi fari að ákvæðum þess.
Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðferð á úrgangi sem fjallað er um í III. kafla reglugerðarinnar. Heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi fyrir söfnunarstöðvar og annars konar starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður, annarri en fjallað er um í 3. mgr., og hefur eftirlit með þeirri starfsemi, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun. Um eftirlit með þeirri starfsemi fer samkvæmt reglugerð um mengunarvarnaeftirlit.
5. gr. Stefna um meðhöndlun úrgangs.
Ráðherra gefur út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Í stefnunni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu, hlutverk stjórnvalda og einkaaðila við meðhöndlun úrgangs og stefnu til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun.
Umhverfisstofnun vinnur tillögu að stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir, sbr. 6. gr., og leggur fyrir ráðherra. Umhverfisstofnun skal við gerð tillögunnar hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, hlutaðeigandi haghafa og fleiri aðila eftir því sem við á. Ráðherra skal auglýsa drög að stefnu í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við þau. Ráðherra gefur stefnu út að loknu umsagnarferli og skal hún vera aðgengileg almenningi. Ráðherra skal á a.m.k. sex ára fresti meta og taka ákvörðun um hvort þörf er á að endurskoða stefnuna. Í þeim tilvikum þegar stefna þarfnast endurskoðunar skal hún unnin í samræmi við þessa grein. Ráðherra er þó heimilt að uppfæra stefnu án þess að auglýsa slíkar uppfærslur sérstaklega.
6. gr. Stefna um úrgangsforvarnir.
Ráðherra gefur út almenna stefnu um úrgangsforvarnir til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Stefnan skal taka mið af lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs. Í stefnunni skulu m.a. koma fram markmið um úrgangsforvarnir, lýsing á þeim ráðstöfunum sem þegar eru fyrir hendi til að minnka úrgang og mat á gagnsemi tiltekinna ráðstafana.
Stefna um úrgangsforvarnir skal innihalda mælikvarða til að unnt sé að meta framgang ráðstafana og aðgerða sem fjallað er um í stefnunni.
Í II. viðauka er fjallað um dæmi um ráðstafanir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.
7. gr. Skyldur sveitarstjórna.
Sveitarstjórn skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn skal ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum á viðkomandi svæðum.
Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp sorpílát í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili. Staðsetning sorpíláts skal vera þannig að aðgengi að því sé gott.
Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm og úrgangi úr öðrum hreinsivirkjum þar sem til fellur lífrænn, mengandi eða sóttmengaður úrgangur, sbr. þó 4. mgr. 18. gr. og ákvæði einstakra starfsleyfa.
Sveitarstjórn skal í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Séu fleiri en 20 sumarhús í hverfinu skal staðsetning sorpíláts vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu. Gæta skal að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs.
8. gr. Ferðamannastaðir o.fl.
Sveitarstjórn og yfirvöld fólkvanga og þjóðgarða skulu í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp ruslabiður á ferðamannastöðum og öðrum stöðum þar sem reikna má með mannsöfnuði og sjá um viðhald og tæmingu þeirra sé það ekki falið öðrum rekstraraðila.
9. gr. Svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.
Sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skal semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir, sbr. 5. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Áætlunin skal taka mið af lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Í áætluninni skal jafnframt fjalla um úrgangsforvarnir. Við gerð áætlunarinnar skal sveitarstjórn auglýsa hana í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Kynna skal áætlunina í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Sveitarstjórn skal að því loknu staðfesta áætlunina og skal hún vera aðgengileg almenningi. Sveitarstjórn skal á a.m.k. sex ára fresti meta og taka ákvörðun um hvort þörf sé á að endurskoða svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Í þeim tilvikum þegar áætlunin þarfnast endurskoðunar skal hún unnin í samræmi við þessa grein. Sveitarstjórn er þó heimilt að uppfæra áætlunina án þess að auglýsa slíkar uppfærslur sérstaklega.
Eftir því sem við á og að teknu tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs svæðisins sem áætlunin tekur til skal a.m.k. koma fram í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs:
- yfirlit yfir tegund, magn og myndunarstaði úrgangs sem verður til innan svæðisins sem áætlunin tekur til, hvaða úrgangur er líklegt að verði fluttur frá svæðinu eða til þess og mat á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni,
- gildandi kerfi fyrir söfnun úrgangs og stórar förgunar- og endurnýtingarstöðvar, þ.m.t. sérstakt fyrirkomulag vegna olíuúrgangs, spilliefna eða strauma úrgangs sem fjallað er um í lögum og reglugerðum,
- mat á þörfinni fyrir ný söfnunarkerfi, lokun starfandi móttökustöðva og, ef nauðsyn krefur, fjárfestingar í tengslum við þetta,
- upplýsingar um hvar hagkvæmast er að hafa förgunar- og endurnýtingarstöðvar í framtíðinni, sé þörf á þeim,
- almenn stefna varðandi úrgangsstjórnun, þ.m.t. áætluð tækni og aðferðir til úrgangsstjórnunar, eða stefna vegna úrgangs sem skapar sérstök vandamál við stjórnun.
Með tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs skipulagssvæðisins geta svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs tekið til eftirfarandi:
- skipulagsþátta, sem tengjast úrgangsstjórnun, þ.m.t. lýsing á því hvernig ábyrgð dreifist á opinbera aðila og einkaaðila sem fara með úrgangsstjórnun,
- mats á gagnsemi og heppileika þess að nota efnahagsleg stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmis vandamál er varða úrgang,
- beitingar herferða til vitundarvakningar og upplýsingamiðlunar til almennings eða tiltekins hóps neytenda,
- aflagðra, mengaðra förgunarstaða og ráðstafana til að lagfæra þá.
Í svæðisáætlunum sveitarfélaga skal gera grein fyrir leiðum til að ná þeim markmiðum að lífrænn heimilisúrgangur sem berst til urðunarstaða hafi, eigi síðar 1. júlí 2020, minnkað niður í 35% af heildarmagni þess lífræna heimilisúrgangs sem féll til árið 1995.
Í svæðisáætlunum sveitarfélaga skal einnig gera grein fyrir leiðum til að ná þeim markmiðum að annar lífrænn úrgangur, svo sem lífrænn rekstrarúrgangur, sem berst til urðunarstaða hafi, eigi síðar 1. júlí 2020, minnkað niður í 35% af heildarmagni þess úrgangs sem féll til árið 1995.
Sveitarstjórn skal senda Umhverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á því formi sem stofnunin leggur til.
10. gr. Samþykktir.
Sveitarstjórn setur sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Heimilt er að samþykkt taki til tveggja eða fleiri sveitarfélaga. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Um gerð og staðfestingu samþykktarinnar fer skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
11. gr. Gjaldtaka.
Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar. Þar sem úrgangur er urðaður skal gjaldið einnig að svo miklu leyti sem unnt er standa undir kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár. Ákvæði þetta gildir þó ekki um rekstraraðila sem aðeins annast förgun á eigin úrgangi á framleiðslustað.
Sveitarfélög skulu innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar þessarar, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við magns úrgangs, gerð hans, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og eða þjónustustig.
Gjald sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum reglugerðar þessara.
Sveitarfélögum er heimilt að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða framangreint gjald. Sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má innheimta með aðför.
III. KAFLI Meðhöndlun úrgangs.
12. gr. Meginreglur.
Draga skal eins og unnt er úr myndun úrgangs. Stefnt skal að endurnotkun og endurnýtingu hans svo sem kostur er. Beita skal bestu fáanlegri tækni við meðhöndlun úrgangs.
Allur úrgangur skal færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð þessari, öðrum reglugerðum um úrgang eða samþykktum sveitarfélaga. Allur úrgangur skal meðhöndlaður á viðeigandi hátt áður en til förgunar kemur.
Meðferð úrgangsskal vera með þeim hætti að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af.
Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.
Óheimilt er að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma.
Opin brennsla úrgangs er óheimil. Þetta á þó ekki við um brennur, t.d. áramótabrennur o.þ.h., sem starfsleyfi hefur verið veitt fyrir, sbr. ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, enda sé í leyfinu kveðið á um að brennslutími miðist við tilefnið og að efni og magn sem fari í brennuna sé tilgreint.
Hafi úrgangur dreifst eða sé meðferð úrgangs ábótavant að öðru leyti getur heilbrigðisnefnd krafist þess að viðkomandi aðili hreinsi upp og geri viðeigandi ráðstafanir í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
Úrgangshafa er óheimilt að þynna eða blanda úrgang í þeim eina tilgangi að hann fullnægi viðmiðunum um móttöku úrgangs.
13. gr. Forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.
Við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum skal eftirfarandi forgangsröðun lögð til grundvallar:
- úrgangsforvarnir,
- undirbúningur fyrir endurnotkun,
- endurvinnsla,
- önnur endurnýting, t.d. orkuvinnsla, og
- förgun.
Undirbúningur fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangsefna, a.m.k. pappírs, málma, plasts og glers frá heimilum og hugsanlega frá öðrum upprunastöðum ef þeir straumar úrgangs líkjast úrgangi frá heimilum, skal að lágmarki aukast í heild upp í 50% miðað við þyngd eigi síðar en 2020.
Undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu efniviðar, þ.m.t. við fyllingar þar sem úrgangur er notaður í stað annars efniviðar, í tengslum við almennan úrgang frá byggingar- og niðurrifsstarfsemi, annan en náttúrulegan efnivið, skal aukast að lágmarki upp í 70% miðað við þyngd eigi síðar en 2020.
Komið skal í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs og endurnota skal umbúðir. Endurnýta skal minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs, þar sem minnst 25% og mest 45% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi er endurunnið og þar af minnst 15% af þyngd hvers umbúðaefnis fyrir sig.
Endurnotkun og endurvinnsla úr sér genginna ökutækja skal eigi síðar en 1. janúar 2006 vera að lágmarki 85% og á sama tíma skal endurnotkun og endurvinnsla vera að lágmarki 80% af meðalþyngd ökutækis. Eigi síðar en 1. janúar 2015 skal endurnotkun og endurnýting allra úr sér genginna ökutækja vera að lágmarki 95% og á sama tíma skal endurnotkun og endurvinnsla vera að lágmarki 85% af meðalþyngd ökutækis.
Stefnt skal að því að árlega verði að jafnaði safnað 4 kílóum raf- og rafeindatækjaúrgangs á hvern íbúa, sem verði meðhöndlaður á viðeigandi hátt.
14. gr. Hreinsunarúrgangur.
Hreinsunarúrgang sem fellur til við hreinsun, s.s. salernisúrgang, síu- eða ristarúrgang og seyru sem ekki verður nýtt, skal flytja til móttökustöðvar sem hefur starfsleyfi. Þetta gildir einnig um úrgang frá landbúnaði nema reglugerð kveði á um annað. Taka skal mið af ákvæðum reglugerðar um seyru þegar seyra er nýtt til uppgræðslu, í landbúnaði eða til annarra nota.
15. gr. Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.
Tryggja skal að allur sérstakur úrgangur sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu eða vegna húðrofa sé meðhöndlaður á viðunandi hátt og að hann blandist ekki við heimilisúrgang og annan úrgang. Til að koma í veg fyrir smit, eitranir, ofnæmi, óþol, eld, íkveikju- og sprengihættu, jónandi geislun og mengun umhverfis skal gæta ítrustu varkárni og nákvæmni við meðhöndlun á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.
Þeir sem hafa undir höndum sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu eða stofum sem stunda húðrof eða sjá um geymslu hans, pökkun og undirbúning á flutningi skulu tryggja að meðhöndlun hans sé eins og kveðið er á um í viðauka. Stjórnendum heilbrigðisstofnana og framangreindra stofa ber að tryggja að starfsfólk þeirra sem meðhöndlar sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof og/eða efni og hluti sem verða að slíkum úrgangi fái fræðslu um meðhöndlun hans og upplýsingar um þá ábyrgð sem það ber varðandi hann. Skrá skal þjálfun og fræðslu starfsfólks.
16. gr. Smitandi úrgangur o.fl.
Meðferð á sýktu heyi, dýrahræjum, smitandi sláturúrgangi og öðrum smitandi úrgangi en fjallað er um í 15. gr. skal vera á viðunandi hátt og þess gætt að hann blandist ekki við annan úrgang og valdi ekki smiti. Um meðferð á þessum úrgangi skal hafa samráð við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd og viðkomandi héraðsdýralækni eftir því sem við á. Að öðru leyti er vísað til reglugerðar um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.
17. gr. Um almennan þrifnað utanhúss.
Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.
Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni.
Nefndin getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið.
Nefndinni er heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum.
Heilbrigðisnefnd getur látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.
Sveitarstjórn skal sjá um að hreinsun fari fram á opinberum stöðum, t.d. görðum og torgum.
18. gr. Sorpílát.
Sorpílát sem geymd eru utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu og vera þannig staðsett að aðgangur að þeim sé greiður og af þeim geti ekki stafað óþægindi eða óþrifnaður fyrir umhverfið.
Ganga skal þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að þær valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega. Sorpgeymslur má eingöngu nota til geymslu úrgangs.
Heilbrigðisnefnd getur gefið fyrirmæli um fjölda, staðsetningu, gerð og þrif sorpíláta. Að öðru leyti er vísað til byggingarreglugerðar.
Fasteignareigandi skal sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum.
19. gr. Skyldur rekstraraðila.
Úrgangi sem fellur til við atvinnurekstur skal safna saman og flytja brott þegar í stað eða geyma með þeim hætti að óhollusta eða óþrifnaður stafi ekki af. Úrgang skal geyma í hentugum og heilum sorpílátum þannig gerðum að auðvelt sé að tæma þau. Rekstraraðili ber einnig ábyrgð á nauðsynlegri hreinsun nálægs umhverfis.
Rekstraraðili skal sjá til þess að rekstri hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu lagfærð og endurnýjuð eftir þörfum. Óheimilt er að veita atvinnurekstri starfsleyfi nema fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi til þess að geyma úrgang.
Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá skulu sjá um flutning og bera kostnað vegna meðhöndlunar.
Rekstraraðilar húsnæðis eða svæða þar sem salernisúrgangur, ristarúrgangur eða seyra fellur til sjá um alla meðferð og flutning úrgangsins, svo fremi ekki sé í gildi sérstök heilbrigðissamþykkt sem kveður á um annað.
20. gr. Spilliefni frá heimilum.
Ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs um eftirlit með spilliefnum, merkingu, skráningu og bann við blöndun þeirra eiga ekki við um heimilisúrgang fyrr en hann hefur verið flokkaður og móttekin til söfnunar, förgunar eða endurnýtingar.
IV. KAFLI Starfsleyfisskylda.
21. gr. Starfsleyfi.
Meðhöndlun úrgangs er háð starfsleyfi eins og nánar segir í reglugerð þessari og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í starfsleyfi skulu vera ákvæði sem miða að því að vernda umhverfi og heilsu manna. Jafnframt skulu ákvæði starfsleyfis taka mið af aðstæðum á viðkomandi stað.
Til að vernda heilsu fólks skal við staðsetningu söfnunar- og flokkunarmiðstöðva fyrir úrgang taka mið af því að ekki hljótist af óþægindi fyrir íbúa og taka tillit til nálægðar við íbúðarhús, skóla, matvælaframleiðslu- og sölustaði, heilbrigðisstofnanir og aðra dvalarstaði fólks.
22. gr. Eftirlit og skoðanir.
Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi og eftirlit með atvinnurekstri sem heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir.
Umhverfisstofnun annast eftirlit með atvinnurekstri sem stofnunin gefur út starfsleyfi fyrir. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar um meðhöndlun úrgangs að öðru leyti.
Starfsleyfishafar skv. 1. og 2. mgr. sæta eftirliti er varða söfnun og flutning úrgangs. Eftirlit skal ná til uppruna, eðlis, magns og áfangastaðar þess úrgangs sem safnað er og fluttur.
V. KAFLI Ýmis ákvæði.
23. gr. Aðgangur að upplýsingum.
Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
24. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.
Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
25. gr. Gjaldskrár.
Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og hollustuháttaráðs áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Umhverfisráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga.
26. gr. Þvingunarúrræði.
Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.
Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir sem Umhverfisstofnun innheimtir skulu renna til ríkissjóðs en dagsektir sem heilbrigðisnefnd innheimtir til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag.
Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 2. mgr. má innheimta með fjárnámi.
Ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað.
Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.
Til að knýja á um ráðstafanir gagnvart starfsleyfishafa samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit, sbr. ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.
27. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.
28. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.
Eftirfarandi gerð öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:
Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/727/ESB frá 6. desember 2013 um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á úrgangsstjórnunaráætlunum og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs, sem vísað er til í tölulið 32ffe, XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 170/2015 frá 11. júní 2015. Framkvæmdarákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55 frá 17. september 2015, 2015/EES/63/75, bls. 356-360.
29. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, 13. og 22. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003 og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga.
Reglugerðin er jafnframt sett með hliðsjón af tölul. 27, 32d, 32db, 32e og 2aa XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 75/442/EBE, sbr. 91/156/EBE, tilskipunum 1999/31/EB, 2000/53/EB og 2002/96 og ákvörðunum 94/3/EB, 96/350/EB, 94/741/EB) og með hliðsjón af 7. tölulið XVII. kafla í II. viðauka EES-samningsins (tilskipun 94/62/EB).
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu og fellur reglugerð um úrgang, nr. 805/1999 úr gildi þar með.
Ákvæði til bráðabirgða.
Umhverfisstofnun skal gefa út landsáætlun, sbr. 5. gr., fyrir 1. apríl 2004. Sveitarstjórnir skulu staðfesta fyrstu áætlun, sbr. 8. gr. innan eins árs frá þeim tíma.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.