Fara beint í efnið

Prentað þann 27. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 31. ágúst 2007 – 13. apríl 2021 Sjá núgildandi

646/2007

Reglugerð um uppboðsmarkaði sjávarafla.

I. KAFLI Gildissvið, skilgreiningar o.fl.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi uppboðsmarkaða sjávarafla og hefur það að markmiði að tryggja gagnsæi viðskipta og að skýrar reglur gildi um verðmyndun, þjónustu og greiðslur í viðskiptum með sjávarafla á uppboðsmarkaði.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

Fiskmarkaður: Uppboðs- eða heildsölumarkaður sem annast umboðssölu fyrir sjávarafla.

Leyfishafi: Sá sem fengið hefur leyfi ráðherra samkvæmt lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla, til að starfrækja uppboðsmarkað fyrir sjávarafla og ber ábyrgð á starfsemi uppboðsmarkaðarins.

Reiknistofa uppboðsmarkaða: Aðili sem leyfishafi hefur falið að sjá um framkvæmd uppboða og þá starfsemi sem tilgreind er í 6. gr. laga nr. 79/2005.

Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla.

Sjávarafli: Öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr.

Uppboð: Sala, þar sem hæstbjóðandi hlýtur hlut þann er boðinn er til sölu.

Uppboðsmarkaður: Markaður þar sem sjávarafli, eldistegundir, bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, vatnafiskur og afurðir úr framantöldu eru seldar á frjálsu uppboði.

Uppboðsstaður: Staður þar sem aðilar geta kynnt sér afla eða upplýsingar um afla, sem seldur verður á uppboði.

Uppboðsstjóri: Sá aðili sem leyfishafi hefur falið að annast framkvæmd uppboðs og hlotið hefur löggildingu ráðherra til starfa.

3. gr. Yfirstjórn.

Sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.

II. KAFLI Leyfi til reksturs uppboðsmarkaða.

4. gr. Útgáfa rekstrarleyfa.

Sjávarútvegsráðherra veitir leyfi til reksturs uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla sem skulu vera ótímabundin. Við veitingu rekstrarleyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði séu til frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkaða. Rekstrarleyfi skal gefið út á nafn og kennitölu þess einstaklings eða lögaðila sem um ræðir og er óheimilt að framselja það til þriðja aðila. Rekstrarleyfið er bundið því húsnæði sem Fiskistofa hefur samþykkt fyrir starfsemina samkvæmt lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

5. gr. Skilyrði fyrir rekstrarleyfi.

Leyfi til reksturs uppboðsmarkaða er einungis heimilt að veita aðilum sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi. Erlendur ríkisborgari sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang. Enn fremur gildir ákvæði þetta ekki um einstaklinga sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða til Færeyinga búsettra í Færeyjum eða á Íslandi.
  2. Eru fjárráða.
  3. Hafa forræði á búi sínu.

Þá má veita hlutafélögum eða öðrum lögaðilum sem eiga heimili hér á landi leyfi til reksturs uppboðsmarkaða, enda uppfylli stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lögaðila skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal auk þess fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

6. gr. Ábyrgð leyfishafa.

Leyfishafi ber ábyrgð á starfsemi uppboðsmarkaðarins og er honum skylt að hlíta ákvæðum laga, reglugerða og annarra fyrirmæla er um meðferð sjávarafla gilda á hverjum tíma.

7. gr. Svipting rekstrarleyfis.

Ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði sett í reglugerð þessari eða lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla, getur ráðherra svipt hann leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar.

III. KAFLI Starfsemi uppboðsmarkaða.

8. gr. Frágangur og merking afla.

Fyrir afhendingu skal seljandi tegundaflokka afla, svo sem lög kveða á um og einnig flokka á milli lifandi og dauðblóðgaðs fisks.

Öllum afla skulu við löndun fylgja upplýsingar um veiðisvæði, aldur, fiskstærð, veiðarfæri og meðferð og önnur þau atriði sem kunna að hafa áhrif á verð og gæði.

Ef afli er meira en sólarhrings gamall skal dagmerkja umbúðir. Séu dagmerkingar vanræktar skal þess sérstaklega getið í uppboðslýsingu og er fiskmarkaði þá heimilt að miða aldur aflans við fyrsta veiðidag viðkomandi veiðiferðar.

Seljandi er ábyrgur fyrir því að meðferð og frágangur afla sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma.

9. gr. Húsnæði, búnaður og meðferð afla.

Um húsnæði og búnað uppboðsmarkaðar og meðferð afla gilda lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum, og reglur settar á grundvelli þeirra laga, eftir því sem við á.

10. gr. Vigtun afla.

Allur afli skal vigtaður samkvæmt þeim lögum og reglugerðum, sem um það gilda, sbr. nú lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum.

11. gr. Lágmarksverð.

Um sjávarafla sem seldur er á uppboðsmarkaði gilda ekki ákvæði um lágmarksverð samkvæmt lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

12. gr. Gæðakröfur.

Standist fiskur ekki almennar gæðakröfur samkvæmt reglugerð nr. 233/1999, um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum, skal hann ekki boðinn upp á uppboðsmarkaði samkvæmt lögum þessum. Kaupandi afla á uppboðsmarkaði getur ekki borið fyrir sig galla á honum, nema hann sé ekki í samræmi við gefnar upplýsingar við söluna, seljandi hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð.

IV. KAFLI Framkvæmd uppboðsmarkaða o.fl.

13. gr. Uppboðsstjóri.

Leyfishafi skal hafa í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sér um framkvæmd uppboðs, uppboðsstjóra. Sjávarútvegsráðherra veitir uppboðsstjóra löggildingu til starfans. Uppboðsstjórar mega hvorki gera boð á uppboði sjálfir né láta aðra gera það fyrir sína hönd.

14. gr. Uppboðsskilmálar.

Uppboðsstjóri skal auglýsa uppboðsskilmála á fullnægjandi hátt og skulu þeir einnig aðgengilegir áður en uppboð hefst. Jafnframt skulu uppboðsskilmálar birtir á heimasíðu þess markaðar, sem uppboðið heldur, eða hjá reiknistofu. Skulu þátttakendur í uppboði kynna sér uppboðsskilmála áður en uppboð hefst.

Í uppboðsskilmálum skal gera grein fyrir gjöldum er leggjast ofan á söluverð og greiðsluskilmálum, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða, ásamt öðrum skilmálum sem uppboðsstjóra er skylt að geta svo og því hvenær ábyrgð á hinu selda flyst úr hendi seljanda til kaupanda.

15. gr. Uppboð.

Uppboð skulu vera opin almenningi og skal afli vera til sýnis og skoðunar í hæfilegan tíma fyrir uppboðið. Ef ekki er mögulegt að hafa afla til sýnis skal það sérstaklega tekið fram í uppboðslýsingu og skulu upplýsingar um þann afla vera aðgengilegar almenningi á sama hátt í hæfilegan tíma fyrir uppboðið.

16. gr. Réttaráhrif uppboðs.

Sala sjávarafla á uppboðsmarkaði telst bindandi, að því gefnu að allar upplýsingar sem gefnar voru, séu réttar. Athugasemdum varðandi kaup skal koma á framfæri við uppboðsmarkað svo fljótt sem verða má. Þegar að loknu uppboði á viðkomandi einingu, telst kaupandi eigandi aflans.

17. gr. Söluverð.

Kaupandi skal greiða söluverð strax þegar afli hefur verið sleginn honum eða setja viðhlítandi ábyrgð fyrir greiðslu sem uppboðsstjóri metur gilda. Verði dráttur á greiðslu söluverðs aflans skal kaupandi greiða af því dráttarvexti og kostnað.

18. gr. Kostnaður.

Seljandi ber allan kostnað sem fellur á aflann fram að sölu þ.m.t. löndunar- og flutningskostnað en kaupandi ber áfallinn kostnað eftir sölu.

19. gr. Skil afla til kaupanda.

Afli skal afhentur kaupanda í því ástandi sem hann er við uppboð. Óski kaupandi eftir frekari meðhöndlun á því sem keypt var, svo sem flokkun, slægingu, umísun, gámun eða geymslu, skal hann tafarlaust tilkynna það viðkomandi fiskmarkaði. Allur slíkur kostnaður skal greiddur af kaupanda.

20. gr. Þóknun fyrir sölu.

Þóknun fyrir sölu og þjónustu skal vera samkvæmt gjaldskrá hvers uppboðsmarkaðar sem birta skal með sama hætti og uppboðsskilmála, sbr. 14. gr. og þannig að hún sé öllum aðgengileg á uppboðsstað, eða á heimasíðu uppboðsmarkaðar eða reiknistofu.

21. gr. Upplýsingaskylda.

Leyfishöfum er skylt að láta liggja frammi yfirlit yfir selt aflamagn hvers dags og verð þess. Skulu þeir daglega senda Fiskistofu afrit af slíku yfirliti. Þá skulu leyfishafar senda opinberum aðilum, sem þess óska skýrslu um seljendur, afla, aflamagn, kaupendur og verð.

V. KAFLI Uppgjör og reikningsskil.

22. gr. Uppgjör.

Leyfishafar uppboðsmarkaða skulu standa skil á uppboðsandvirði hins selda afla til seljanda, að frádregnum beinum kostnaði við uppboðið og lögboðnum gjöldum, m.a. sjá um skil á greiðslum samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Leyfishafar skulu krefjast greiðslutrygginga af kaupanda sé ekki um staðgreiðslu að ræða.

23. gr. Reikningsskilakerfi.

Reiknistofa uppboðsmarkaða annast rekstur reikningsskilakerfis vegna uppboðsmarkaða og er leyfishafa heimilt að fela henni þann hluta starfsemi sinnar sem mælt er fyrir um í 22. gr.

Við framkvæmd reikningsskila samkvæmt 1. mgr. skal reiknistofan senda kaupanda reikning fyrir andvirði þess fisks, sem hann hefur keypt á fiskmörkuðunum. Á fiskkaupareikningi skulu koma fram eftirtaldir kostnaðarliðir: fiskkaup, markaðskostnaður og annar kostnaður vegna þjónustu sem kaupandi kann að óska eftir, auk gjalda sem lög kveða á um.

Reiknistofa uppboðsmarkaða skal, eftir því sem við á, fara að þeim lögum sem gilda um starfsemi uppboðsmarkaða, enda starfar hún í þeirra umboði. Reiknistofa uppboðsmarkaða skal tryggja svo sem frekast er unnt, jafnræði allra þátttakenda í uppboðum uppboðsmarkaða.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

24. gr. Ábyrgð seljanda.

Seljanda er skylt að gefa alltaf réttar upplýsingar um öll þau atriði sem geta haft áhrif á verðmyndun aflans.

25. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Með brot gegn reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.

26. gr. Endurútgáfa eldri leyfa.

Leyfi til reksturs uppboðsmarkaða, sem gefin voru út fyrir 1. júlí 2007, skulu falla úr gildi frá og með 1. september 2007. Óski leyfishafi eftir því að ráðuneytið endurnýi leyfið skal hann gera það fyrir 1. september 2007, og heldur þá eldra leyfi gildi sínu þar til það hefur verið endurútgefið.

27. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 79, 24. maí 2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. september 2007.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.