Prentað þann 28. des. 2024
165/2020
Reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2020.
I. KAFLI Leyfi til veiða.
1. gr. Almennt.
Allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Bátum með leyfi til veiða á grásleppu er heimilt að veiða með hrognkelsanetum. Bátum sem hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki er óheimilt að stunda veiðar með rauðmaganetum, nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.
2. gr. Grásleppuveiðileyfi.
Fiskistofu er heimilt að veita þeim bátum leyfi til grásleppuveiða, sem leiða rétt sinn til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, enda hafi þeir leyfi til veiða í atvinnuskyni, skv. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Umsækjandi skal í umsókn greina hvenær hann muni hefja grásleppuveiðar með lagningu neta ásamt því að tilgreina fjölda hrognkelsaneta og teinalengd nets. Hver bátur getur einungis haft eitt grásleppuveiðileyfi á hverri grásleppuvertíð.
3. gr. Veiðisvæði og veiðitímabil.
Grásleppuveiðileyfi hvers báts skal gefið út til 25 samfelldra daga, frá og með 10. mars til og með 12. ágúst.
Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi leyfi til grásleppuveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.
Þrátt fyrir 1. málsl. 1. mgr. er einungis heimilt að veiða á svæði í Breiðafirði innan línu sem dregin er úr Krossnesvita vestan Grundarfjarðar 64°58,30 N 023°21,40 V í Lambanes vestan Vatnsfjarðar 65°29,30 N 023°12,60 V frá og með 20. maí.
Óheimilt er að stunda veiðar með rauðmaganetum eftir 15. júní.
4. gr. Breyting á bátum.
Sé báti, sem hefur rétt til grásleppuveiða skv. 2. gr., breytt þannig að hann stækkar um meira en 2,5 brúttótonn er óheimilt að gefa út grásleppuveiðileyfi til hans, nema fluttur hafi verið til bátsins réttur til grásleppuveiða af öðrum báti sem er a.m.k. jafnstór í brúttótonnum talið og stækkunin sem er umfram 2,5 brúttótonnin, sem leiddi af breytingunni.
Fiskistofu er óheimilt að gefa út grásleppuveiðileyfi til báts sem hefur verið stækkaður þannig að hann mælist meira en 15 brúttótonn.
5. gr. Flutningur á rétti til að öðlast grásleppuveiðileyfi.
Fiskistofu er heimilt að flytja rétt til grásleppuveiða milli báta að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
- Bátur, sem réttur er fluttur frá, hefur nýtt réttinn í a.m.k. eina vertíð.
- Bátur sem réttur er fluttur til hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni.
- Bátur, sem réttur er fluttur til er að hámarki 2,5 brúttótonnum stærri en sá bátur sem réttur er fluttur frá. Óheimilt er að flytja rétt til grásleppuveiða til báts sem er stærri en 15 brúttótonn.
Með beiðni um flutning fylgi skrifleg staðfesting eigenda báts, sem réttur er fluttur frá.
Við sölu báts, sem hefur rétt til grásleppuveiða, fylgir rétturinn bátnum nema um annað sé samið í kaupsamningi eða afsali. Hafi seljandi báts tekið fram í kaupsamningi eða afsali, að rétturinn fylgi ekki með við söluna, hefur seljandinn heimild til að flytja hann á annan bát, að uppfylltum öðrum skilyrðum þessarar reglugerðar.
Tilkynna skal til Fiskistofu, innan 30 daga, ef réttur til grásleppuveiða fylgir ekki báti við sölu hans. Nýti seljandi ekki heimild 1. mgr. til að flytja réttinn á annan bát, næstu tvær vertíðir frá sölu bátsins, fellur rétturinn niður. Sama gildir ef almennt leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni er fellt úr gildi. Ákvæði þessarar greinar taka einnig til þess þegar bátur er tekinn af skipaskrá Samgöngustofu eftir því sem við á.
6. gr. Aðrar veiðar og meðafli.
Óheimilt er að stunda aðrar veiðar en hrognkelsaveiðar í sömu veiðiferð. Áður en veiðiferð hefst skal útgerð sjá til þess að báturinn hafi þær aflaheimildir sem duga fyrir ætluðum meðafla í veiðiferðinni.
Telji Fiskistofa að meðafli grásleppuveiðibáts sé að aflasamsetningu frábrugðinn meðafla annarra grásleppuveiðbáta á svipuðum veiðisvæðum skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í bátinn til að fylgjast sérstaklega með veiðum hans í einn dag. Skal útgerð grásleppuveiðbátsins tilkynnt um ákvörðun Fiskistofu. Telji Fiskistofa að ástæða sé til að fylgjast áfram með veiðum grásleppuveiðbátsins vegna meðaafla, skal útgerð bátsins bera kostnað af veru veiðieftirlitsmanns Fiskistofu um borð frá og með öðrum degi, sbr. 13. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.
II. KAFLI Tilhögun veiða.
7. gr. Veiðitími.
Óheimilt er að leggja grásleppunet fyrir kl. 08.00 fyrsta dag gildandi leyfis. Skylt er að draga öll grásleppunet, sbr. 10. gr., úr sjó fyrir lok leyfistímabils, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr.
Óheimilt að hefja veiðar með yfirtöku hrognkelsaneta í sjó. Merking veiðarfæra skal að fullu frágengin í landi áður en veiðar með hrognkelsanetum hefjast.
8. gr. Vitjun neta.
Grásleppunet skulu dregin eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að þau eru lögð í sjó. Frá þessu má aðeins víkja ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja neta enda hafi skipstjóri sent Fiskistofu tilkynningu þar að lútandi á netfangið grasleppa@fiskistofa.is. Týni skip hrognkelsanetum í sjó, ber skipstjóra að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu og skýra frá staðsetningu netanna eins nákvæmlega og unnt er.
9. gr. Netalagnir.
Að hámarki er hverjum bát heimilt að hafa samanlagða teinalengd neta til hrognkelsaveiða allt að 7.500 metra á vertíð. Netalengd miðast við teinalengd (efri tein/flottein nets). Hverjum bát er einungis heimilt að nota net sömu teinalengdar á hverri grásleppuvertíð.
Frá 1. apríl til 14. júlí má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 metra frá stórstraumsfjöruborði, sbr. lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
10. gr. Svæði lokuð fyrir veiðum með hrognkelsanetum vegna hættu á meðafla sjávarspendýra.
-
Innan svæðis á Faxaflóa, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 64°50,00´N - 22°25,75´V
- 64°32,40´N - 21°51,40´V
- 64°26,00´N - 22°00,00´V
- 64°25,00´N - 22°20,00´V
- 64°36,00´N - 22°34,00´V
- 64°50,00´N - 22°32,00´V
-
Innan svæðis á Breiðafirði, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°04,80´N - 22°43,40´V Stykkishólmur
- 65°17,45´N - 22°21,90´V Skarðsstöð á Skarðsströnd
- 65°25,45´N - 22°12,45´V Reykhólar
-
Innan svæðis út af Rauðasandi, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°32,80´N - 24°29,40´V
- 65°28,30´N - 23°56,00´V
- 65°26,50´N - 23°57,60´V
- 65°27,50´N - 24°07,00´V
- 65°29,00´N - 24°16,00´V
- 65°28,00´N - 24°27,00´V
- 65°29,00´N - 24°35,00´V
-
Innan svæðis út af Kollsvík, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°39,20´N - 24°29,34´V
- 65°38,95´N - 24°18,40´V
- 65°34,20´N - 24°22,00´V
- 65°34,55´N - 24°27,14´V
-
Innan svæðis út af Tálknafirði, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°48,75´N - 24°10,60´V
- 65°48,27´N - 24°04,67´V
- 65°45,34´N - 24°06,36´V
- 65°45,75´N - 24°12,50´V
-
Innan svæðis út af Ströndum (Selsker-Óðinsboði), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 66°28,00´N - 22°28,00´N
- 66°23,00´N - 21°42,00´V
- 66°10,50´N - 21°28,00´V
- 65°58,30´N - 21°40,00´V
-
Innan svæðis út af Ströndum (Reykjarfjörður-Veiðileysufjörður), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°58,00´N - 21°37,70´V
- 65°59,25´N - 21°23,00´V
- 65°56,20´N - 21°19,50´V
- 65°56,00´N - 21°36,80´V
-
Innan svæðis út af Ströndum (út af Kaldbakshorni), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°53,20´N - 21°16,00´V
- 65°51,40´N - 21°14,50´V
- 65°50,20´N - 21°15,00´V
- 65°49,80´N - 21°18,00´V
-
Innan svæðis út af Ströndum (út af Bjarnarfirði), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°46,70´N - 21°24,00´V
- 65°45,50´N - 21°14,00´V
- 65°44,70´N - 21°14,00´V
- 65°44,60´N - 21°21,00´V
-
Innan svæðis innst í Húnaflóa, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 65°45,50´N - 20°50,00´V
- 65°41,00´N - 20°42,00´V
- 65°21,00´N - 20°51,00´V
- 65°14,00´N - 21°10,00´V
- 65°29,00´N - 21°17,00´V
-
Innan svæðis út af Skagatá sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 66°06,40´N - 20°23,00´V
- 66°08,20´N - 20°10,20´V
- 66°06,85´N - 20°10,00´V
- 66°05,00´N - 20°23,25´V
-
Innan svæðis á Skagafirði (út af Ketubjörgum), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 66°02,20´N - 19°57,85´V
- 66°02,20´N - 19°54,00´V
- 66°01,10´N - 19°54,00´V
- 66°01,20´N - 19°57,85´V
-
Innan svæðis á Skagafirði (við Drangey), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 66°02,20´N - 19°43,40´V
- 66°02,20´N - 19°39,00´V
- 65°55,90´N - 19°34,60´V
- 65°55,90´N - 19°42,00´V
-
Innan svæðis á Skagafirði (á Málmeyjarsundi), sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
- 66°04,00´N - 19°36,80´V
- 66°04,00´N - 19°22,40´V
- 66°02,00´N - 19°26,00´V
- 66°02,00´N - 19°35,50´V
11. gr. Netamöskvi.
Grásleppunet skulu vera með möskva á bilinu 10,5 þumlunga (267 mm) til 11,5 þumlunga (292 mm).
Rauðmaganet skulu vera með möskva á bilinu 7 þumlunga (178 mm) til 8 þumlunga (203 mm) og net 20 möskva eða grynnri.
12. gr. Merking lagna.
Netabaujur skulu vera á báðum endum netatrossu og allar merktar með flaggi, sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Á flaggið skal mála umdæmisnúmer eða skipaskrárnúmer þess skips, sem notar netin. Auk þessa skulu allir belgir merktir með umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips, sem notar þá. Merkingar á baujuflöggum og belgjum skulu vera greinilegar og skulu stafir stórir og skýrir. Allar niðurstöður skulu, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips sem þær notar.
Skylt er að númera netatrossur báta frá einum til þess fjölda trossa sem hver bátur á í sjó. Númer netatrossu skal skráð skýrum tölustöfum á baujuflagg á báðum endum trossu.
III. KAFLI Eftirlit, viðurlög o.fl.
13. gr. Veiðieftirlit og stjórnsýsluviðurlög.
Fiskistofa hefur eftirlit með veiðum á grásleppu og rauðmaga og er heimilt að veita áminningar eða svipta skip leyfi til veiða á grásleppu og/eða rauðmaga vegna brots á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa, sbr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt niður leyfi til veiða á grásleppu.
Verði um óeðlilega veiði á botnfisktegundum að ræða þannig að magn þeirra í þorskígildum talið sé ítrekað svipað eða meira en magn grásleppu- og/eða rauðmagaaflans í þorskígildum talið er Fiskistofu heimilt að svipta viðkomandi skip leyfi til grásleppu- og/eða rauðmagaveiða.
14. gr. Refsingar og viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.
15. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57/1997, um umgengni um nytjastofna sjávar. Reglugerðin tekur þegar gildi.
Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 236/2019 um hrognkelsaveiðar 2019.
Ákvæði til bráðabirgða.
Fiskistofu er heimilt, á grásleppuvertíðinni 2020, að leyfa í tilraunaskyni óhefðbundin búnað í stað hefðbundinna bauja og belgja í þeim tilgangi að minnka meðafla af sel. Þeir sem vilja gera slíkar tilraunir sendi Fiskistofu erindi, þar sem búnaðinum er lýst og tilgreint hve margar netatrossur áætlað er að setja búnaðinn á. Óheimilt er að nota slíkan óhefðbundinn búnað án sérstaks leyfis Fiskistofu.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.