Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 24. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 13. okt. 2021

115/2006

Reglugerð um þorskfisknet.

1. gr.

Heimilt er að stunda veiðar í þorskfisknet með þeim takmörkunum sem ákveðnar eru í lögum og reglugerðum hverju sinni.

Á Breiðafirði eru allar þorsfisknetaveiðar bannaðar innan línu, sem dregin er frá Selskeri (austan Sigluness á Barðaströnd) 65°26,85´ N - 23°38,45´ V um Selsker sunnan fjarðarins í Eyrarfjall 65°00,00´ N - 23°12,00´ V.

2. gr.

Lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta, sem heimilt er að leggja, skal vera 5½ þumlungur (139,7 mm).

3. gr.

Þegar möskvastærð er mæld skulu þrír möskvar lagðir saman og teygðir horna á milli eftir lengd netsins. Netið skal mælt vott.

Um framkvæmd möskvamælinga vísast að öðru leyti til reglugerðar nr. 24/1998, um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.

6. gr.

Skipum, sem hafa 12 menn eða fleiri í áhöfn, er óheimilt að hafa fleiri en 268 net í sjó.

Séu í áhöfn 11 menn skulu ekki fleiri en 248 net í sjó.

Séu í áhöfn 10 menn skulu ekki fleiri en 228 net í sjó.

Séu í áhöfn 9 menn skulu ekki fleiri en 208 net í sjó.

Séu í áhöfn 8 menn skulu ekki fleiri en 188 net í sjó.

Séu í áhöfn 7 menn skulu ekki fleiri en 168 net í sjó.

Séu í áhöfn 6 menn skulu ekki fleiri en 148 net í sjó.

Séu í áhöfn 5 menn skulu ekki fleiri en 128 net í sjó.

Séu í áhöfn 4 menn skulu ekki fleiri en 108 net í sjó.

Séu í áhöfn 3 menn skulu ekki fleiri en 88 net í sjó.

Séu í áhöfn 2 menn skulu ekki fleiri en 68 net í sjó.

Sé sjálfvirkur netaafdráttarbúnaður (dráttarkarl) notaður við veiðarnar er heimilt að hafa 12 netum fleira í sjó en tilgreint er hér að ofan.

Miðað er við að 60 faðma löng slanga sé í hverju neti.

7. gr.

Þorskfisknet skulu lögð í eina stefnu á sama veiðisvæði, eftir því sem við verður komið.

7. gr. a

Óheimilt er að stunda veiðar með þorskfisknetum og grásleppunetum á sama tíma.

Séu stundaðar veiðar á skötusel samtímis veiðum með þorskfisknetum vísast til reglugerðar um veiðar á skötusel í net.

8. gr.

Týni skip þorskfisknetum í sjó, ber skipstjóra að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslunni og Fiskistofu og skýra frá staðsetningu netanna, eins nákvæmlega og unnt er.

9. gr.

Auk eftirlits Landhelgisgæslu með veiðum og veiðarfærum hafa eftirlitsmenn Fiskistofu eftirlit með því, að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og skal skipstjóri veiðiskips gera eftirlitsmönnum kleift að gera þær athuganir á veiðarfærum skipsins, er þeir telja nauðsynlegar.

10. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast gildi 14. febrúar 2006 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 365, 15. maí 2002 um þorskfisknet.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.