Fötluð börn
Upplýsingar um greiningu, réttindi og þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
Flýtileiðir
Hvað er fötlun?
Fötlun getur verið margvísleg og haft mismikil áhrif. Helstu fatlanir barna eru þroskahömlun, einhverfa og hreyfihömlun.
Fötlun getur greinst við fæðingu eða síðar á lífsleiðinni. Sumar fatlanir eru augljósar og auðvelt að greina en aðrar taka tíma að birtast og greinast því oft seinna. Fötlun getur einnig verið afleiðing slysa.
Greining og þjónusta við fötluð börn er skilgreind í þremur stigum, táknað sem 1. - 3. stig í greiningar og þjónustu ferlum. Fyrsta stig er lýsandi fyrir almenna þjónustu, þar sem grunur er á einhvers konar fötlun en hún ekki staðfest. Staðfest greining er metin sem annars eða þriðja stigs og þá er úrræðum/þjónustu úthlutað eftir þörfum barnsins hverju sinni.
Börn sem greinast fötluð við fæðingu fá strax þjónustu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni (RGR) í samstarfi við stofnanir eins og Barnaspítala Hringsins eða Æfingastöðina. Yngri börn fá ýmsa þjálfun og kennslu á vegum RGR og foreldrar ráðleggingar og fræðslu. Starfsfólk RGR fylgist með því hvernig börnin þroskast, og þegar börnin eru tveggja ára eða byrja í leikskóla er oft gerð formleg athugun á þroska þeirra.

Frumgreining
Þegar grunur vaknar hjá foreldrum eða aðstandendum um að barnið sé með mögulega fötlun, er fyrsta skrefið gjarnan að fá ráðleggingar í nærumhverfi barnsins.
Hvert er hægt að leita?
Í kjölfarið geta þessir aðilar sent inn umsókn um að staða barnsins sé könnuð frekar af skólasálfræðingi sem gerir svokallaða frumgreiningu.
Frumgreining er fyrsta skref í greiningarferli barna. Frumgreining er framkvæmd af skólasálfræðing á vegum þjónustumiðstöðvar viðkomandi sveitarfélags.
Frumgreining getur falið í sér:
Viðtal við foreldra þar sem spurt er út í út í þroska-, heilsufars- og fjölskyldusögu barnsins.
Lagður er matslisti fyrir foreldra og kennara. Meðal annars er skimað fyrir einkennum ADHD og einhverfu, og spurt út í hegðun og líðan.
Skólasálfræðingurinn fer í leikskóla eða skóla barnsins og fylgist með barninu í nærumhverfi þess.
Vitsmunaþroski barnsins kortlagður (WISC-IV próf).
Þegar þessar niðurstöður liggja fyrir fundar skólasálfræðingurinn með foreldrum og afhendir þeim skilaskýrslu með niðurstöðunum. Farið er yfir niðurstöður frumgreiningar og þau úrræði og ráð sem grípa má til.
Ef vísbendingar koma fram um einkenni sem bent gætu til ADHD, einhverfu, þroskahömlunar, mótþróaröskunar eða hegðunarröskunar er tilvísun send til Geðheilsumiðstöðvar barna eða Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) sem gera nánari greiningu.
Hér má sjá myndband Ráðgjafar- og greiningarstöðvar sem lýsir ferlinu frá því að grunur vaknar um frávik í þroska barns þar til greiningu lýkur.
Greining
Þegar frumgreiningu er lokið er haldin skilafundur með grunnskóla/leikskóla og foreldrum/aðstandendum og upplýst um niðurstöðu greiningarinnar. Ef niðurstaðan kallar á frekari greiningu er tilfelli barnsins vísað til annað hvort Geðheilsumiðstöð barna sem sinnir annars stigs greiningum eða til Ráðgjafar- og greiningarstöðvarinnar sem sinnir þriðja stigs greiningum.
Á skilafundi með foreldrum/aðstandendum eru rædd möguleg næstu skref og þeir upplýstir um þjónustuferlið og áætlaðan biðtíma ef þörf er á frekari greiningu.
Greiningarferlið felur oft í sér spurningalista fyrir foreldra, viðtöl við sérfræðinga, til dæmis við félagsráðgjafa og lækni, ýmsar skoðanir og aðkomu mismunandi greiningaraðila, til dæmis lækna, talmeinafræðinga eða sjúkraþjálfara. Að loknu greiningarferli er haldinn skilafundur með foreldrum/aðstandendum barnsins og fjölskyldan upplýst um niðurstöður greiningarinnar og ráðlagt um þjónustu og næstu skref.
Þegar formleg greining hefur verið staðfest er mælt með að foreldrar hafi samband við félagsráðgjafa í sínu sveitarfélagi til að fá nánari upplýsingar um réttindi sín, þjónustuúrræði og stuðningsmöguleika sem standa til boða innan sveitarfélagsins.
Smelltu hér til að sjá myndband frá Ráðgjafar- og greiningarstöð um greiningaferlið.
Nánari upplýsingar:
Skólaþjónusta
Öll börn eiga rétt á stuðningi í námi sem mætir þeirra þörfum. Sveitarfélög bera ábyrgð á að veita fötluðum börnum nauðsynlega aðstoð í leik-, grunn- og framhaldsskólum, meðal annars með sérkennslu, ráðgjöf og einstaklingsmiðuðum lausnum.
Lesa má um reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum með því að smella hér.
Réttindi fatlaðra barna
Fötluð börn eiga ýmis konar réttindi sem foreldrar geta nýtt sér. Til að komast að því hvaða réttindi barninu stendur til boða í sínu sveitarfélagi þarf að fara í einstaklingsráðgjöf til starfandi ráðgjafa félagsþjónustunnar. Ráðgjöfin er fjölskyldum og aðstandendum að kostnaðarlausu. Ráðgjafi getur einnig ráðlagt varðandi skólaúrræði, réttindi og þjónustu, en líka hjálpað við að fylla út umsóknir.

Þjónusta
Fötluð börn eiga rétt á fjölbreyttri þjónustu sem styður við þroska þeirra og daglegt líf. Þjónustan felur meðal annars í sér tal-, iðju- og sjúkraþjálfun, einstaklingsstuðning, skammtímadvöl og akstursþjónustu, allt með það að markmiði að efla færni og lífsgæði þeirra.

Íþróttir og tómstundir
Fjölbreytt tómstundastarf er starfrækt fyrir fötluð börn á höfuðborgarsvæðinu.
Félagsmiðstöðvar og frístund
Íþróttafélög
Sundlaugar á landsvísu og aðgengi
Aðgengi að sundlaugum er misjafnt. Ágætt er að hringja á sundstaði á undan sér og athuga hvernig aðstaðan sé fyrir fatlað fólk. Hér eru nokkrar sundlaugar með góðu aðgengi samkvæmt athugun í mars 2025:
Stofnanir og samtök
Ýmsar stofnanir og samtök veita börnum með fötlun og fjölskyldum þeirra þjónustu, greiningar, fræðslu og stuðning.
Stofnanir sem sinna greiningu
Geðheilsumiðstöð barna og Ráðgjafar- og greiningarstöðin veita fötluðum börnum ýmsa þjónustu og sinna greiningu eftir frumgreiningu eftir þörfum. Börn sem fæðast með fötlun fá þjónustu frá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni strax.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (SLF)
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (SLF) eru félagasamtök sem veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra stuðning og þjónustu. Félagið rekur meðal annars Æfingastöðina, þar sem boðið er upp á sjúkra- og iðjuþjálfun, og Reykjadal, sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni. SLF vinnur einnig að fræðslu og bættri þjónustu fyrir fatlaða.
Aðrar stofnanir og samtök sem veita þjónustu og ráðgjöf
Lög og reglugerðir
Efni þessarar síðu byggir á upplýsingum frá samtökunum Þroskahjálp. Hægt er að hafa samband við Þroskahjálp ef óskað er eftir frekari upplýsingum eða ef einhverjar athugasemdir eru við efnið.