Fara beint í efnið

Þjónusta við langveik börn

Sjónarhóll


Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð sem vinnur að því meginmarkmiði að börn og fjölskyldur þeirra geti nýtt sér almenna lögbundna þjónustu og komist í samband við önnur úrræði sem gætu komið að notum. Áhersla er lögð á að hjálpa foreldrum að greina þarfir sínar og viðkomandi barns, efla og nýta sín eigin bjargráð með því að styðja þau að sjálfstæði og að fræða foreldra um þau þjónustuúrræði sem gætu gagnast þeim. Rekstur Sjónarhóls byggir alfarið á framlögum hins opinbera, lögaðila og almennings. Öllum fjölskyldum er velkomið að nýta sér þjónustu Sjónarhóls, ekki þarf tilvísanir og þjónustan er notendum að kostnaðarlausu.

Tenglar:

Sjónarhóll
Samstarfsaðilar Sjónarhóls

Barnaspítali Hringsins


Á Barnaspítala Hringsins er veitt sérhæfð fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri. Í allri þjónustu spítalans er lögð áhersla á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinga. Nánari upplýsingar um þjónustuna eru á vef barnaspítalans.


Barnaspítali Hringsins


Landspítali

Stuðnings- og ráðgjafarteymi langveikra barna með sjaldgæfa sjúkdóma


Teymið þjónustar börn með miklar umönnunarþarfir, m.a. vegna sjaldgæfra sjúkdóma. Þjónusta teymisins felst m.a. í stuðningi meðan á greiningarferli stendur, aðstoð við úrvinnslu áfalla, aðstoð við að byggja upp daglegt líf sem hentar barni og fjölskyldu, aðstoð við að finna og upplýsa fjölskyldur um viðeigandi úrræði og stuðning sem í boði er, upplýsingar um réttindi foreldra/fjölskyldu og aðstoð við að sækja þau réttindi. Teymið getur einnig komið að samstarfi við og stuðlað að góðri þjónustu í nærumhverfi fjölskyldu.

Nánari upplýsingar á vef Landspítala


Rjóður


Rjóður er hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og fötluð börn. Þangað koma börn á aldrinum 0-18 ára sem þarfnast mikillar hjúkrunar og umönnunar.

Nánari upplýsingar á vef Landspítala


Sjúkrahúsið á Akureyri/Barnadeild


Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri er eina barnadeild landsins utan höfuðborgarsvæðisins.
Deildin sinnir börnum og unglingum frá fæðingu og til 18 ára aldurs og koma skjólstæðingar deildarinnar frá öllu Norðurlandi og að hluta frá Austurlandi.

Nánari upplýsingar á vef Sjúkrahússins á Akureyri


BUGL – Barna- og unglingageðdeild Landspítala


Á BUGL er börnum og unglingum með geð- og þroskaraskanir veitt margvísleg þjónusta. Við göngudeild BUGL er veitt þjónusta í sérhæfðum þverfaglegum teymum sem skiptast í bráðateymi, göngudeildarteymi, átröskunarteymi, transteymi og taugateymi. Legudeild BUGL við Dalbraut 12 er opin allan sólarhringinn. Hlutverk legudeildarinnar er að sinna börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á tímabundinni innlögn að halda vegna geðræns vanda barns þegar þjónusta í nærumhverfi fjölskyldu, á sérfræðistofnunum eða á göngudeild BUGL nægir ekki.

Tenglar:

BUGL

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands


Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er miðstöð þekkingar í heyrnar- og talmeinum á Íslandi. Þjónustan er veitt á landsvísu og er ætluð þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða með talmein. Meðal annars er veitt sérhæfð þjónusta við heyrnarskert börn, endurhæfing fyrir einstaklinga sem fengið hafa kuðungsígræðslu og þjónusta við börn með skarð í vör og góm.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Þroska- og hegðunarstöð

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) veitir 2. stigs þjónustu á landsvísu fyrir börn í grunn- og framhaldsskólum að 18 ára aldri. Sinnt er greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna taugaþroskaraskana og annarra erfiðleika í hegðun eða líðan.


Sjúkratryggingar

Hjálpartæki, næring og sérfæði


Í hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands er veitt ráðgjöf og upplýsingar um hjálpartæki og val á þeim. Í Hjálpartækjamiðstöð má einnig nálgast leiðbeiningar og fræðslu varðandi hjálpartæki. Sjúkratryggingar niðurgreiða lífsnauðsynleg næringarefni og sérfæði þegar sjúkdómar eða afleiðingar slysa vanda verulegum vandkvæðum við fæðuinntöku og upptöku næringarefna og þegar um langvarandi þörf er að ræða, að minnsta kosti þrjá mánuði.


Umönnunargreiðslur, foreldragreiðslur, uppbót/styrkur til kaupa á bifreið og fleira


Umönnunargreiðslur eru fjárhagslegur stuðningur til framfærenda fatlaðra og/eða langveikra barna auk barna með þroskaraskanir. Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður.
Umönnunarmat getur verið frá fæðingu barns og til 18 ára aldurs. Umönnunargreiðslur eru skattfrjálsar og greiddar út fyrirfram í byrjun mánaðar.

Foreldragreiðslur eru greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Markmið greiðslnanna er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna veikinda eða fötlunar barna sinna. Um sameiginlegan rétt foreldra er að ræða.

Framfærendur hreyfihamlaðra barna geta sótt um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna. Hægt er að sækja um uppbót og styrk til bifreiðakaupa á 5 ára fresti. Framfærendur barna sem fá styrk skuldbinda sig til þess að eiga bíl í 5 ár.

Tenglar:

Sjúkratryggingar Íslands
Tryggingastofnun