Réttindi neytenda við kaup á þjónustu
Ákveðnar reglur gilda um kaup á þjónustu sem felur í sér vinnu við eða viðgerð á fasteignum eða lausafjármunum, eins og bifreiðum, raftækjum, tölvum og , geymslu á lausafjármunum og ráðgjöf í tengslum við vinnu við fasteignir.
Kaup á þjónustu
Gerðu samning um þá þjónustu sem þú kaupir.
Þegar samið er um verk sem kostar töluverða fjármuni eða þarf að skila fyrir tiltekinn tíma, er ráðlegt að gera skriflegan samning, því erfitt getur verið að sanna hvað um var samið ef samningur er munnlegur. Til er staðlaður þjónustusamningur sem neytendur og seljendur geta notað þegar þeir semja um þjónustukaup.
Samningur við verktaka - mikilvæg atriði á vef Samtaka iðnaðarins
Verð og greiðsla
Semdu um verð fyrirfram.
Ef ekki hefur verið samið um verð fyrirfram skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Hann getur þá krafist þess að seljandi afhendi honum sundurliðaðan reikning fyrir þjónustuna og þarf ekki að greiða fyrr en hann hefur fengið slíkan reikning.
Hafi seljandi gert verðáætlun má verðið ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun, nema verð hafi hækkað vegna kringumstæðna sem hann gat ekki séð fyrir. Seljandi verður þó að tilkynna kaupanda það án tafar og óska eftir fyrirmælum um verkið.
Uppgefið verð á að vera endanlegt verð til neytenda. Virðisaukaskattur og önnur opinber gjöld eiga að vera innifalin í verði, nema neytandi hafi sannanlega vitneskju um að þau séu það ekki.
Ef í ljós kemur að vinna þarf viðbótarverk til að þeirri vinnu, sem samið var um sé skilað með fullnægjandi hætti, ber seljenda að óska eftir fyrirmælum neytenda, nema um óverulegan kostnaðarauka sé að ræða eða sérstakar ástæður mæli með því að neytandi vilji láta vinna verkið.
Afpöntun eða óhagkvæm viðgerð
Neytanda er heimilt að afpanta þjónustu sem hann hefur óskað eftir og fara fram á að frekari vinnu verði hætt þótt verk sé hafið.
Við afpöntun getur seljandi átt rétt á greiðslu fyrir þann hluta verksins, sem þegar hefur verið unninn, svo og fyrir þá vinnu sem nauðsynlegt er að ljúka þrátt fyrir afpöntun. Auk þess getur seljandinn krafist skaðabóta, en ber þó skylda til að takmarka tjón sitt. Greiðsluskylda neytanda getur þó ekki orðið meiri en sem nemur heildarverði þess verks sem samið hefur verið um.
Ef seljandi þjónustu telur kaupin á þjónustunni óhagkvæm fyrir neytandann, til dæmis ef viðgerð borgar sig ekki, er honum skylt að upplýsa neytandann um það þó vinna sé hafin.
Gölluð þjónusta
Athuga ber hvort verk sé gallað þegar því er lokið. Kvartaðu strax sértu ekki ánægður með það sem gert hefur verið fyrir þig.
Ef verk er ekki unnið á faglegan og réttan hátt telst það gallað. Þjónustan er líka gölluð ef árangur af vinnunni er ekki sá sem um var samið, þó svo að frávik frá samningnum stafi af óhappi, slysi eða galla á efnum sem seljandinn notar við verkið.
Reynist þjónusta gölluð ber neytenda að tilkynna það seljanda sem fyrst. Hafi neytandi ekki gert svo innan sanngjarns frests eftir að hann varð gallans var eða mátti verða hans var, glatar hann rétti sínum til að bera fyrir sig gallann.
Kaupandi missir ekki rétt sinn til að gera kröfu vegna galla þó svo að galli komi seinna í ljós, eða aðilar hafi tekið verkið út að því loknu og kaupandi lýst því yfir að verkið væri í lagi. Hámarksfrestur til að kvarta undan galla á þjónustu er tvö ár frá afhendingardegi þjónustunnar, nema seljandi hafi tekið á sig ábyrgð vegna galla til lengri tíma, brotið gegn almennum viðskiptaháttum eða á annan hátt sýnt af sér vítavert gáleysi við framkvæmd verksins. Hægt er að gera skaðabótakröfu í 10 ár.
Réttur neytandans
Sé þjónustan gölluð eða tímaáætlanir standast ekki getur neytandinn krafist úrbóta, riftunar, afsláttar – til dæmis ef gallinn verður ekki lagfærður eða aðeins að hluta til – og skaðabóta. Neytandinn getur haldið eftir greiðslum þar til úr gallanum hefur verið bætt eða látið annan bæta úr gallanum á kostnað seljanda þjónustunnar ef unnt er að bæta úr án óhóflegs kostnaðar.
Óháð því hvort neytandinn gerir kröfu um afslátt eða bætur á seljandinn rétt á að lagfæra gallann innan hæfilegs frests ef það verður gert án kostnaðar eða verulegs óhagræðis, nema neytandinn hafi ákveðnar og gildar ástæður til að hafna því, til dæmis ef seljandinn hefur hegðað sér með óviðunandi hætti.
Önnur þjónusta
Almennar reglur gilda um kaup á annarri þjónustu en um er fjallað hér að ofan. Þá er til dæmis átt við flugferðir, pakkaferðir o.fl.
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Neytendastofa