Heilbrigðisþjónusta fyrir eldra fólk
Með hækkandi aldri aukast líkur á sjúkdómum og hrumleika. Innan heilsugæslustöðva og annarra heilbrigðisstofnana landsins starfa teymi sem styðja og leiðbeina eldra fólki, hjálpa þeim að greina áhættuþætti og veita leiðsögn um þau úrræði sem í boði eru.
Mikilvægt er að kynna sér þau úrræði sem bjóðast. Fyrsti viðkomustaður er alltaf heilsugæslan þín.
Heilsugæslustöðin er almennt fyrsti viðkomustaður allra er þurfa aðstoð vegna heilsufars.
Heilsugæslustöðvar bjóða upp á heilsueflandi móttöku fyrir eldra fólk þar sem veitt eru ráð og aðstoð við að takast á við heilsufarsáskoranir efri ára.
HÖR (heilsugæslu- eða heimahjúkrunar öldrunarráðgjafar) starfa víða í heilsugæslu og heimahjúkrun. Þau hafa aflað sér viðbótarþekkingar í samspili langvinnra sjúkdóma og aldurs, öldrunarhjúkrun, öldrunarbreytingum, hrumu eldra fólki og fleira, sem og þekkingu á sértækri meðferð fyrir hrumt eldra fólk og úrræði til að viðhalda vellíðan og sjálfstæði.
Yfirlit yfir heilsugæslustöðvar má finna á heilsuveru.
Á vef heilsugæslunnar má finna ýmsar upplýsingar sem snúa að eldra fólki.
Heimahjúkrun er er ætluð þeim sem búa heima og þurfa reglulega heilbrigðisþjónustu til dæmis vegna sjúkdóma eða í kjölfar veikinda og slysa.
Þjónusta heimahjúkrunar er án endurgjalds og felur í sér:
Almenna aðhlynningu og eftirlit með andlegu og líkamlegu heilsufari
Lyfjagjöf
Sáraumbúðaskiptum
Hafa þarf samband við heilsugæslustöð til að fá mat á þörf fyrir heimahjúkrun og eða heimaendurhæfingu.
Á Heilsuveru finnur þú fræðsluefni um sjúkdóma, forvarnir og heilsueflingu.
Þar getur þú skráð þig inn á Mínar síður þar sem hægt er að bóka tíma, endurnýja lyfseðla og eiga örugg samskipti við heilbrigðisstarfsfólk.
Þar er líka hægt að skoða samskiptasögu við heilsugæslu þína og heilbrigðisþjónustu.
Fyrirspurnir og tímapantanir má líka senda inn í gegnum Heilsuveru. Í boði er símaráðgjöf í síma 513-1700 eða í netspjall á Heilsuvera.is.
Gagnlegar upplýsingar um heilbrigði og heilsueflingu eldra fólks eru á Heilsuveru.
Þörf getur verið á aðstoð við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum.
Endurhæfing í heimahúsi er fyrir fólk sem hefur sótt um heimastuðning, stuðningsþjónustu eða heimahjúkrun og talið er að endurhæfing sé líkleg til árangurs.
Boðið er upp á endurhæfingu í heimahúsi á nokkrum stöðum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og Árborg.
Í undirbúningi er hjá fleiri sveitarfélögum að veita þessa þjónustu.
Tilgangur bráðaþjónustu er að forða eldra fólki frá innlögn á bráðamóttöku og spítala vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima. Þjónustan er tímabundin og varir meðan bráð veikindi vara.
Bráðaþjónusta heim til eldra fólks er tvenns konar í dag, það er Heimaspítali sem enn er aðeins þjónað frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og SELMA sem er verkefni Reykjavíkurborgar.
Heimaspítali
Heimaspítali er þjónusta við eldra fólk þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur heimsækja skjólstæðinga sína með stuðningsmeðferð í heimahúsi. Þetta er ný þjónusta fyrir aldraða á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
SELMA
SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnun á heilsufari. Teymið er ráðgefandi bakland fyrir starfsfólk heimahjúkrunar. Um er að ræða vitjanir og símaráðgjöf.
Teymisstjóri heimahjúkrunar eða heimilislæknir getur óskað eftir vitjun frá SELMU sé talin þörf á því.
Endurhæfingarinnlagnir miða að því að fólk endurheimti andlega, líkamlega og félagslega færni. Þær eru veittar í kjölfar veikinda eða slysa, eða til að viðhaldi færni og fyrirbyggja frekari skerðingu.
Endurhæfing byggist á virkri þátttöku sjúklings og þverfaglegu samstarfi fagfólks. Endurhæfingarinnlagnir eldra fólks eru aðallega á hjúkrunarheimilum, endurhæfingarstofnun eða annarri heilbrigðisstofnun.
Hér eru nokkur dæmi um stofnanir þar sem eru endurhæfingarinnlagnir
Hvíldarinnlögn er tímabundin dvöl í hjúkrunarrými. Dvölin getur staðið yfir frá nokkrum dögum allt að átta vikum.
Víðast hvar eru það tiltekin hjúkrunarheimili sem taka á móti einstaklingum í hvíldarinnlagnir.
Markmiðið með hvíldarinnlögn er að gera fólki kleift að búa áfram á eigin heimili með tímabundinni endurhæfingu eða innlögn.
Hvíldarinnlögn getur líka verið veitt þegar nákominn einstaklingur sem stutt hefur viðkomandi þarfnast hvíldar eða forfallast. Þjónustuaðilar þurfa að tryggja einstaklingum næga virkni sem stuðlar að áframhaldandi færni.
Ekki er þörf á að vera komin með samþykkt færni- og heilsumat til að komast í hvíldarinnlögn.
Það getur komið að þeim tímapunkti í lífi fólks að það þurfi meiri aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi. Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þurfa öll önnur úrræði að vera fullreynd.
Til þess að eiga kost á dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um færni- og heilsumat.
Eftir að umsókn um færni og heilsumat er skilað til færni og heilsumatsnefndar er umsóknin tekinn fyrir á fundi nefndarinnar. Færni og heilsufarsnefnd kallar eftir hjúkrunarbréfi, læknabréfi og félagsráðgjafabréfi áður en umsókn er lögð fyrir fund. Skriflegt svar frá nefnd berst í tölvupósti ef netfang hefur verið skráð á umsókn. Svar berst annars í bréfpósti á heimilisfang aðstandenda sem gefið er upp við útfyllingu umsóknar.
Á hjúkrunarheimilum er veitt sólarhrings hjúkrunarþjónusta. Einnig er boðið upp á læknisþjónustu, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Upplýsingar um starfsemi hjúkrunarheimila veita heimilin sjálf.