Handbók ökuprófa
2. Þjónusta prófa
Gerðar eru kröfur varðandi innri og ytri aðstæður við framkvæmd prófa.
Efni kaflans
Eftirfarandi eru kröfur varðandi innri og ytri aðstæður við framkvæmd prófa.
2.1.1 Innri aðbúnaður prófa
Afgreiðslustaður skriflegra og verklegra prófa þarf að uppfylla eftirtaldar kröfur:
Tryggja verður aðskilnað milli próftaka annars vegar og ökukennara og aðstandenda hins vegar á meðan á próftöku stendur.
Húsnæði skal bjóða upp á vissan aðskilnað milli starfsmanna og ökukennara eða óviðkomandi aðila.
Tryggja verður að ökukennarar eða almenningur hafi aldrei aðgang að prófverkefnum og öðrum prófgögnum sem ekki eru opinber.
Um er að ræða afgreiðslur af tvennu tagi; annars vegar afgreiðsla pantana á prófum, skjalaafhending og móttaka og hins vegar afgreiðsla verklegra prófa þar sem þau próf hefjast.
Aðgangur skal vera að salernisaðstöðu og biðstofu fyrir próftaka og ökukennara.
Prófstofa fyrir skrifleg próf skal uppfylla venjulegar kröfur til kennsluhúsnæðis skv. heilbrigðisreglugerð, s.s. þægileg sæti, hljóðlátt umhverfi, góð loftræsting og friður meðan á próftöku stendur.
Prófstofa skal rúma vinnuaðstöðu fyrir prófdómara og a.m.k.12 próftaka miðað við eðlilegt bil milli einstaklinga í próftöku. Að jafnaði skal miða við að próftakar séu að hámarki 12 í stofu á hvern prófdómara í skriflegu prófi.
Á prófstöð þurfa að vera tvö rúmgóð herbergi fyrir sérpróf þ.e. lespróf, einstaklingspróf og túlkapróf. Ennfremur sér aðstaða fyrir prófdómara og skráningu prófa.
Ofangreindar kröfur eiga helst við um afgreiðslustaði á höfuðborgarsvæðinu. Gera má ráð fyrir undantekningum frá þeim á smærri prófstöðum en aðstaða þar verður metin í hverju tilfelli fyrir sig út frá fjölda próftaka og tegundum prófa. Þó skal ávallt tryggja aðskilnað próftaka og almennings.
Rafrænt próftökukerfi gerir ráð fyrir að prófamiðstöð útvegi tölvu-og tæknibúnað fyrir rafræna próftöku. Rafræn próftaka skal fara fram í öruggu umhverfi en nánari kröfur til búnaðar verða útlistaðar nánar þegar þær liggja fyrir.
2.1.2 Ytri aðstæður til verklegra prófa
Staðsetning prófstöðvar og ytri aðstaða skal uppfylla þessar kröfur:
Staðsetning verður að vera frekar miðsvæðis og bjóða upp á fjölbreyttar prófleiðir í akstursprófum þar sem reynir sem best á þau vandamál sem geta komið upp í akstri og í mismiklli umferð.
Taka skal tillit til þeirrar staðreyndar að flestir viðskiptavinir prófstöðvar eru án ökuréttinda og þarf því að hafa almenningssamgöngur í huga.
Við prófstöð skulu vera bifreiðastæði fyrir prófbifreiðir og lokað svæði til æfinga fyrir verkleg próf í flokkum AM, A1, A2, A, BE, C1E, CE og e.t.v. öðrum flokkum. Svæðið skal vera að lágmarki 6 m x 70 m fyrir flokka AM, A1, A2, A og 60 m x 100 m fyrir flokka BE, C1E og CE.
Prófsvæðið og lokaða svæðið skulu vera vel upplýst.
2.1.3 Kröfur til umferðaraðstæðna og mannvirkja
Sá hluti prófsins, þar sem frammistaða próftakans í sérstökum æfingum er metin, getur farið fram á sérstöku æfingasvæði.
Sá hluti prófsins, þar sem hegðun í umferð er metin, ætti, þar sem því verður við komið, að fara fram á vegum utan byggðra svæða, á þjóðvegum og akvegum (eða áþekkum vegum) og einnig á margs konar götum í þéttbýli (í íbúðarhverfum þar sem hámarkshraði er 30 og 50 km/klst., og á stofnbrautum í þéttbýli) þar sem skilyrði til aksturs geta talist dæmigerð fyrir þá erfiðleika sem geta orðið á vegi ökumanna. Einnig er æskilegt að prófið fari fram við mismikla umferð. Þann tíma, sem er varið til aksturs á vegum, ber að nota eins og framast verður kosið til að meta akstur próftakans í mismunandi tegundum umferðar, sem búast má við að hann eigi eftir að reyna, með sérstakri áherslu á að láta hann skipta milli mismunandi tegunda umferðar.
2.1.4 Prófleiðir í akstursprófi eftir flokkum
Hér eru tilteknar lágmarkskröfur sem gerðar eru til prófleiða í akstri. Eftirtalið eru þær lágmarksaðstæður sem eðlilegt er að ætla próftökum í akstursprófi að lenda í. Til samræmingar á kröfum og fjölbreytni akstursprófa þarf að skilgreina 10 – 15 prófleiðir með hliðsjón af eftirtöldum aðstæðum umferðar. Prófleiðir sem eknar eru utan þéttbýlissvæða geta vikið frá þessum kröfum. Við skipulagningu prófleiða skal einnig stefnt að svipuðum fjölda vinstri og hægri beygja og að þær séu sambærilegar að tímalengd og nái lágmarkstíma í akstri í umferð sbr. 5. lið.
B-BE – bifreið
Þrjár stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Tvö hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Fimm T-gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Bakkað (annaðhvort a eða b):
fyrir horn með kantsteini eða inn í bílastæði.
lagt í stæði með samhliða bakki eða bakkað inn í stæði sem liggur þvert á akstur.
Fimm umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Fimm gangbrautir þar af tvær ljósastýrðar.
Einu sinni tekið af stað í brekku.
Nauðhemlun á 40 km hraða á malbiki eða 60 km hraða á malarvegi (í 1-2 leiðum af 10 – 15 mögulegum).
Malarakstur (í 1-2 leiðum), þar sem því verður við komið.
Þrír staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Að minnsta kosti ein aðrein og ein frárein.
A1-A2-A - bifhjól
Þrjár stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Tvö hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Fimm T-gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Fimm umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Fimm gangbrautir þar af tvær ljósastýrðar.
Þrír staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Að minnsta kosti ein aðrein og ein frárein.
AM – létt bifhjól
Tvær stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Eitt hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Tvö T-gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Þrjú umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Þrjár gangbrautir þar af ein ljósastýrð.
Tveir staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
T – dráttarvél
Ein stöðvunarskylda helst í hægri beygju.
Eitt hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Tvö T-gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Þrjú umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Þrjár gangbrautir þar af ein ljósastýrð.
Tveir staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Bakkað fyrir horn með kantsteini eða inn í bílastæði.
Ba-C-C1-D1-CE-DE-C1E-D1E –vöru- og lítil hópbifreið/eftirvagn
Þrjár stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Tvö hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Þrjú gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Bakkað fyrir horn, inn á hliðarveg eða snúið við með því að bakka.
Fimm umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Fimm gangbrautir þar af tvær ljósastýrðar.
Einu sinni tekið af stað í brekku.
Vegur með 90 km hámarkshraða – þjóðvegaakstur, þar sem því verður við komið.
Þrír staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Að minnsta kosti ein aðrein og ein frárein.
D1a-DE – lítil hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni
Þrjár stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Þrjú hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Fimm T-gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Bakkað:
fyrir horn með kantsteini eða inn í bílastæði.
- eða lagt í stæði með samhliða bakki eða bakkað inn í stæði sem liggur þvert á akstur.
Fimm umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Fimm gangbrautir þar af tvær ljósastýrðar.
Einu sinni tekið af stað í brekku.
Almennur ferðamannastaður – aðkoma og skil á farþegum
Vegur með 30 km hámarkshraða.
Þrír staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Tvær aðreinar og tvær fráreinar.
Da – hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni
Þrjár stöðvunarskyldur þar af ein í hægri beygju.
Tvö hringtorg þar sem reynir á mismunandi útkeyrslustaði.
Þrjú gatnamót þar sem almennur forgangur umferðar gildir (hægri regla).
Bakkað fyrir horn, inn á hliðarveg eða snúið við með því að bakka.
Fimm umferðarljós þar sem reynir á; hægri beygju, vinstri beygju, tvöfalda beygjurein til vinstri og akstur beint áfram.
Fimm gangbrautir þar af tvær ljósastýrðar.
Einu sinni tekið af stað í brekku.
Malarakstur.
Vegur með 90 km hámarkshraða, þar sem því verður við komið.
Þrír staðir þar sem reynir á lestur akreinatafla.
Almennur ferðamannastaður - hótel.
Tvær aðreinar og tvær fráreinar.
Efni kaflans
2.2.1 Bókleg próf
Bókleg hóppróf og einstaklingspróf skulu haldin á þeim stöðum sem um getur hér að ofan og eigi sjaldnar en þar er tilgreint. Tímar bóklegra hópprófa skulu fyrirfram ákveðnir og auglýstir. Við val á tímum skal taka mið af þörfum próftaka eftir því sem unnt er innan tímabilsins frá kl. 08 að morgni til kl. 17 síðdegis virka daga. Á þeim stöðum þar sem hámarksbiðtími er ekki tilgreindur skal að jafnaði afgreiða allar bókanir í próf sem borist hafa, 48 tímum áður en próf fer fram.
Heimilt að leggja bókleg próf fyrir á fleiri stöðum en hér eru tilgreindir og skal þá tengiliður upplýsa fulltrúa Samgöngustofu um slíkt með að minnsta kosti viku fyrirvara. Ætíð gilda sömu kröfur varðandi prófunaraðstöðu, réttmæti og öryggi.
2.2.2 Verkleg próf
Skjalið segir til um:
hve oft að jafnaði skuli boðið upp á verkleg próf til réttindaflokka á hverjum prófstað
hve langt má líða að jafnaði frá því próf er pantað þar til próf fer fram.
Efni kaflans
Próf skulu fara fram samkvæmt próflýsingu og tímalengd þeirra vera sem hér segir:
2.3.1 Bókleg próf
Próf | Tímalengd prófs |
Hóppróf | 45 mínútur |
Einstaklingspróf (Sérpróf, lespróf og túlkpróf) | 45 – 90 mínútur |
2.3.2 Verkleg próf
Próf | Heildartímalengd prófs | Lágmarks próftími í aksturshæfni |
A1, A2, A | 45 mín. | 30 mín. |
A aukin | 40 mín. | 25 mín. |
B | 45 mín. | 35 mín. |
BE | 50 mín. | 45 mín. |
Bff | 55 mín. (leigubílapróf) | 45 mín. |
C, C1, D1 | 55 mín. | 45 mín. |
CE, C1E | 55 mín. | 45 mín. |
Dff, D1ff | 75 mín. | 60 mín. |
DE, D1E | 55 mín. | 45 mín. |
AM | 40 mín. | 25 mín. |
T | 40 mín. | 25 mín. |
Tímalengd prófs sem hér er tilgreind á við um prófið sjálft (munnlegt próf, æfingar á plani og próf í aksturshæfni (akstur í umferð) – eftir því sem við á auk yfirferðar á niðurstöðu prófs með próftaka). Undirbúningur og frágangur vegna prófs má ekki telja sem hluta tímalengdar prófs. Við skipulagningu prófa skal gera ráð fyrir tíma í þessa og hugsanlega aðra þætti. Fyrirlagning og framkvæmd prófa er mjög vandasöm og viðkvæm og má aldrei vinna sem akkorðsvinnu.
Prófdómarar skulu skrá á skráningarblöð verklegra prófa upphaf og lok aksturs í umferð, þ.e. hvenær ekið er úr hlaði og hvenær akstri lýkur.
Efni kaflans
Til að fá að gangast undir próf, bóklegt eða verklegt, þarf að fullnægja ýmsum skilyrðum svo sem að gild próftökuheimild sýslumanns liggi fyrir, að nám sé samkvæmt reglugerð og námskrá og að tilskildum aldri sé náð. Prófdómari skal, áður en próf hefst, kanna skilríki próftaka. Þegar krafa er um ökunám skal ennfremur kanna ökunámsbók, ef ökunám er ekki í samræmi við reglur skal liggja fyrir undanþáguheimild frá Samgöngustofu. Ef ökukennari eða próftaki fer fram á undanþágu frá reglum um ökupróf skal ökukennari beina málinu, með skýringum á ástæðum, til Samgöngustofu til afgreiðslu.
2.4.1 Réttindi og aldur
Flokkur | Veitir réttindi á: | Aldur |
AM | létt bifhjól, á tveimur eða þremur hjólum, hámarkshraði 45 km | 15 |
A1 | bifhjól: (a) á tveimur hjólum, afl ≤ 11 kW, slagrými ≤ 125 sm³ og hlutfall afls/þunga ≤ 0,1 kW/kg og (b) á þremur hjólum, afl ≤ 15 kW | 17 |
A2 | bifhjól: á tveimur hjólum, afl ≤ 35 kW og hlutfall afls/þunga ≤ 0,2 kW/kg og ekki leitt af bifhjóli með yfir tvöfalt afl | 19 |
A | bifhjól á tveimur eða þremur hjólum | 24* |
B | bifreið með leyfða heildarþyngd ≤ 3.500 kg, gerða fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns | 17 |
Ba | bifreið til farþegaflutningar í atvinnuskyni í B-flokki | 20 |
BE | bifreið í B-flokki með eftirvagn/tengitæki ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd | 18 |
C1 | bifreið, gerð fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns, leyfð heildarþyngd > 3.500 kg og ≤ 7.500 kg, með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 18 |
C1a | bifreið til vöruflutninga í atvinnuskyni í C1-flokki | 18 |
C1E | bifreið í (a) C1-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd, leyfð heildarþyngd vagnlestar ≤12.000 kg og (b) B-flokki með eftirvagn/tengitæki > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, leyfð heildarþyngd vagnlestar ≤12.000 kg | 18 |
C | bifreið með leyfða heildarþyngd > 3.500 kg, gerða fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
Ca | bifreið til vöruflutninga í atvinnuskyni í C-flokki | 21 |
CE | bifreið í C-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D1 | bifreið, ekki lengri en 8 m, gerða fyrir ≤16 farþega auk ökumanns með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D1a | bifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni í B- og D1-flokki | 21 |
D1E | bifreið í D1-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D | bifreið gerð fyrir > 8 farþega auk ökumanns | 23 |
Da | bifreið til farþegaflutningar í atvinnuskyni í B-, D1 ogD-flokki | 23 |
DE | bifreið í D-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 23 |
T | dráttarvél með þeim eftirvögnum sem hún má draga | 16 |
* en þó þeim sem orðinn er 21 árs, hafi hann í a.m.k. tvö ár haft ökuskírteini fyrir A2-flokk.
2.4.2 Skilyrði bóklegra prófa
Bóklegt próf má ekki fara fram fyrr en tveimur mánuðum áður en próftaki fullnægir aldursskilyrði til að öðlast ökuréttindi í viðkomandi flokki.
Kennslustund (kest) er miðuð við 45 mínútur. Fyrir B-flokk gildir að próftaki þarf að hafa tekið 22 kest. í ökuskóla ásamt námi í ökugerði. Ef námi í ökugerði er ekki lokið þá 24 kest. í ökuskóla. Próftaki þarf ennfremur að hafa lokið 12 verklegum kest. hjá ökukennara ásamt námi í ökugerði. Ef námi í ökugerði er ekki lokið þá 14 verklegir ökutímar hjá ökukennara.
2.4.3 Skilyrði verklegra prófa
Verklegt próf má fara fram allt að tveimur vikum áður en umsækjandi fullnægir aldursskilyrðum til að öðlast ökuréttindi í viðkomandi flokki.
Umsækjandi skal hafa staðist verklegt próf áður en sex mánuðir eru liðnir frá því hann stóðst bóklegt próf. Bóklegt próf úr grunnnámi (skólapróf), ÖR-próf og próf í ferðafræði (FF) og stórum ökutækjum (SÖ) heldur þó gildi sínu í 12 mánuði. Auk þess verður aksturskennslu að vera lokið og í samræmi við námskrár. Fullnægjandi vottun ökukennara, ökuskóla og ökugerða (eftir því sem við á) verður að koma fram í ökunámsbók og upplýsingar um verklega ökutíma verða að koma fram með fullnægjandi hætti. Fari verklegt próf í D1a-, DE eða D-flokki fram utan Reykjavíkur eða Akureyrar skulu a.m.k. tveir ökutímar hafa farið fram á þessum stöðum.
Ef próftaki hefur ekki vottun um tilskilið nám skal undanþága frá Samgöngustofu fylgja og skal hún heftuð við afrifublað ökunámsbókar/ökunámsbók til Samgöngustofu eða vera skráð með rafrænum hætti í stafræna ökunámsbók.
Fyrir próf í C-, C1-, D- og D1-flokki og til farþegaflutninga á fólksbifreið (B-flokki) í atvinnuskyni skal próftaki sýna fullnaðarskírteini fyrir B-flokk nema þegar próf eru vegna endurveitingar ökuskírteinis.
Fyrir próf í BE-, CE-, C1E-, DE- og D1E-flokki skal próftaki eftir því sem við á sýna fullnaðarskírteini fyrir B-flokk eða ökuskírteini fyrir C-, C1-, D- eða D1-flokk.
2.4.4 Sjálfskipt ökutæki
Ökutæki sem notað er við verklegt próf má vera beinskipt eða sjálfskipt eftir vali próftaka. Við staðið próf skal prófdómari tilgreina með áritun á umsóknareyðublað hvort ökutækið hafi verið beinskipt eða sjálfskipt.
Takmörkun við sjálfskiptingu er ekki sett í ökuskírteini ef sjálfskipt ökutæki er notað við verklegt próf í
1. BE-, C1E-, CE-, D1E- og DE-flokki, við próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir B-, D1- og D-flokk og til vöruflutninga í atvinnuskyni fyrir C1- og C-flokk enda hafi umsækjandi ökuskírteini fyrir þá flokka sem fengið er á grundvelli ökuprófs þar sem próf í aksturshæfni hefur verið tekið á ökutæki með beinskiptingu.
2. C-,C1-,D- og D1-flokki enda hafi umsækjandi ökuskírteini sem fengið er á grundvelli ökuprófs þar sem próf í aksturshæfni hefur verið tekið á ökutæki með beinskiptingu í a.m.k. einum af eftirtöldum flokkum: B-, BE-, C-, CE-, C1-, C1E-, D-, DE-, D1- eða D1E-flokki.
Við skipti á erlendu ökuskírteini og endurveitingu ökuskírteinis eftir sviptingu skal próf fara fram á beinskipt ökutæki nema gefa eigi út skilyrt skírteini (sjálfskipting).
2.4.5 Önnur skilyrði verklegra prófa
Ökutæki sem notað er í prófi þarf að vera tryggt og skráð til ökukennslu nema létt bifhjól, dráttarvél og sérútbúið ökutæki fólks með fötlun. Ökutæki þarf að vera með gilda skoðun án endurskoðunar, þrifalegt, í lagi og tilbúið til aksturs. Skoðunarvottorð og skráningarskírteini skal geymt á aðgengilegum stað í ökutæki. Allar merkingar á ökutæki sem gefa til kynna að um kennsluökutæki sé að ræða verður að fjarlægja/hylja áður en próf fer fram.
Ökutæki þarf að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur varðandi stærð, afl og búnað til að próftaki geti sýnt að hann ráði við venjulegar umferðaraðstæður af fyllsta öryggi. Ökutæki skal tilheyra þeim flokki ökuréttinda sem prófað er til.
Fari verklegt próf fram á bifreið sem er ekki búin ökurita skal það tilgreint með „ekki í atvinnuskyni“ á umsókn með niðurstöðu prófs (tákntalan 95 fer þá ekki í ökuskírteini).
Sjá kröfur til ökutækja í IV. viðauka reglugerðar um ökuskírteini
Atriði sem gera skal athugasemdir við | Atriði sem kalla á frestun prófs |
öryggisbúnað vantar s.s. viðvörunarþríhyrning, sjúkrakassa, slökkvitæki, brothamra fyrir rúðugler eða exi í rútu | ljósabúnaður óvirkur fyrir aðalljós, hemlaljós eða stefnuljós |
mælar eða gaumljós biluð fyrir hleðslu, smurþrýsting, háljós, stefnuljós eða hemlaloftþrýsting. Peru vantar í ljósabúnað | hraðamælir bilaður |
mynsturdýpt hjólbarða undir slitmörkum hjólbarðar negldir utan tímabils (nema aðstæður krefjist þess) | hjólbarðar óöruggir miðað við aðstæður, t.d. sumardekk í snjó og hálku |
hægri hliðarspegil vantar | kennslubúnaði áfátt s.s. hemlar óvirkir eða baksýnisspegil/augnspegil vantar eða er óvirkur |
hjólhlífar vörubíla og eftirvagna skemmdar eða vantar | rúðuþurrkur eða miðstöð óvirk við aðstæður sem gera notkun nauðsynlega fyrir umferðaröryggi |
erfitt að komast að varadekki og fleira vegna farangurs | vantar felgubolta, festing hjóla óörugg |
leigubíll eða rúta illa þrifin | farmur á vörubílum og eftirvögnum of lítill |
hlífðarbúnaði próftaka áfátt í bifhjólaprófi | próftaki í bifhjólaprófi ekki varinn á fullnægjandi hátt s.s. í þunnum fötum eða lélegum skóm eða að fjarskiptatæki virka ekki |
Taki prófdómari eftir öðrum atriðum sem að hans mati geta valdið hættu eða dregið úr umferðaröryggi ber honum að fresta prófi og tilkynna ábyrgðarmanni ökuprófa.
Ökukennari fær í hendur ljósrit af athugasemd og ber honum að koma hlutum í lag fyrir næsta próf, annars fer það ekki fram.
Þegar prófi er frestað telst það ekki til próftilraunar og getur próftaki því reynt við próf við fyrsta tækifæri.
Nota skal eyðublaðið; Athugasemdir prófdómara vegna ástands eða búnaðar prófbifreiða
2.4.6 Próf á sérbúið ökutæki fyrir ökumann með hreyfihömlun
Bifreið, sem sérstaklega er búin fyrir hreyfihamlaðan ökumann, má próftaki nota við verklegt próf að fengnu samþykki Samgöngustofu.
Um hemla og spegla gildir hið sama og fyrir B-flokk. Ef bifreiðin er með handstýrðum hemlabúnaði til að nota með hægri hendi fellur brott áskilnaður um hemlafetil við sæti ökukennara ef einnig er unnt án erfiðleika að nota handstýrða hemlabúnaðinn úr sæti ökukennarans.
2.4.7 Aðkoma ökukennara
Ökukennara er ekki heimilt að vera viðstaddur bókleg eða verkleg próf eða að koma fram sem aðstoðarmaður við framkvæmd prófa nema með samþykki deildarstjóra ökuprófa. Honum er þó heimilt að taka þátt í framkvæmd á verklegu prófi í AM-, A1-, A2- og A-flokki samkvæmt próflýsingu.