15. júní 2023
15. júní 2023
Vorhátíð Hollvinasamtaka Hraunbúða
Vorhátíð
Laugardaginn 10. júní stóðu Hollvinasamtök Hraunbúða fyrir veglegri vorhátíð þar sem íbúum og gestum var boðið til mikillar veislu með skemmtiatriðum og mat. Aðsókn var góð og allir skemmtu sér vel, gestir og íbúar. Svo skemmtilega hittist á að sama dag komu 54 konur úr Kvenfélaginu Heimaey, félagi Eyjakvenna í Reykjavík færandi hendi. Afhentu þær fimm bekki undir merkjum átaksins, Brúkum bekki. Mættu þær á vorfagnaðinn og rifjuðu upp gömul kynni og ný.
„Þetta er alveg dásamlegt félag, styrkir starfsemi Hraunbúða með gjöfum og stendur fyrir viðburðum eins og vorhátíðinni og ýmsum uppákomum. Alveg ómetanlegt framtak bæði fyrir aðstandendur og íbúana sem svo sannarlega kunna að meta starf Hollvinasamtakanna. Á bak við Hollvinasamtökin standa fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki og alltaf pláss fyrir fleiri styrktaraðila,“ sagði Agnes Einarsdóttir sem er aðstandandi og var gestur á hátíðinni.
Jarl Sigurgeirsson mætti með gítarinn og dreif Heimaeyjarkonur upp og saman tóku þau nokkur lög við góðar undirtektir. Þrjár systur frá Hvolsvelli tóku lagið við undirleik föður síns og var vel tekið.