Fara beint í efnið

14. janúar 2025

Um 2,8 milljarðar í ávinning af Stafrænu pósthólfi Ísland.is 2024

Í árslok 2024 höfðu alls 103 opinberir aðilar tengst og nýtt sér Stafræna pósthólfið á Ísland.is til samskipta við einstaklinga og fyrirtæki.

stafraent island avinningur okkar allra

Í árslok 2024 höfðu alls 103 opinberir aðilar tengst og nýtt sér Stafræna pósthólfið á Ísland.is til samskipta við einstaklinga og fyrirtæki. Áætlað er að ávinningur af þeirri stafvæðingu þjónustu árið 2024 sé um 2,8 milljarðar kr. Innleiðingu Stafræna pósthólfsins miðar vel og hefur þegar skilað mikilli hagræðingu og aukinni skilvirkni. Stefnt er að því að allir opinberir aðilar hafi tengst pósthólfinu á vormánuðum 2025.

Aðgengi og einföldun fyrir notendur

Stafrænt pósthólf sameinar öll mikilvæg samskipti við opinberar stofnanir á einn stað, hvort sem um er að ræða tilkynningar, ákvarðanir eða úrskurði. Stafræn birting sparar tíma og kostnað bæði fyrir notendur og stofnanir, einfaldar samskipti og gerir þau skilvirkari. Notendur geta sjálfir unnið með sín gögn í Stafræna pósthólfinu, til dæmis með því að stjörnumerkja mikilvæg erindi, setja önnur minna áríðandi í geymslu, prenta skjöl og/eða vista.

Nýlega var öll tilkynningavirkni í kringum Stafræna pósthólfið uppfærð og nú geta notendur fengið tilkynningar um ný skjöl með skjáskilaboðum í síma (e. push notification) úr Ísland.is appinu ásamt hinni hefðbundnu virkni að fá tilkynningu í tölvupósti.

Lausnin tryggir að allir landsmenn, óháð staðsetningu og aðstæðum, hafi aðgang að upplýsingum á stafrænu formi. Þetta tryggir jafnt aðgengi, jafnrétti og gagnsæi í opinberum samskiptum.

Umhverfisvæn lausn

Með því að draga úr þörfinni á pappírsgögnum í samskiptum við opinberar stofnanir stuðlar Stafrænt pósthólf að sjálfbærri þróun. Fækkun póstsendinga og færri prentuð skjöl draga verulega úr kolefnisspori opinberrar þjónustu og eru því mikilvægt skref í átt að vistvænni stjórnsýslu.

Ávinningur hins opinbera

Stafrænt pósthólf einfaldar og styttir samskiptaleiðir milli almennings og hins opinbera. Það minnkar sóun á tíma, orku og auðlindum sem annars færu í óþarfa pappírsvinnslu.

Meðfylgjandi mynd sýnir ávinning ársins 2024 af því að íslenska ríkið sendi skjöl með stafrænum hætti í staðinn fyrir hefðbundnar póstsendingar. Í þessum útreikningi er ekki tekið tillit til tíma og vinnu starfsmanns við að prenta skjöl og koma þeim í sendingar, svo gera má ráð fyrir því að ávinningurinn sé töluvert meiri.

Ávinningur af notkun Stafræns pósthólfs 2024

Framtíðarsýn í stafrænni umbreytingu

Stafrænt pósthólf er lykilskref í átt að grænni og skilvirkari stjórnsýslu þar sem áhersla er lögð á nýtingu nýrrar tækni til að þjóna samfélaginu á ábyrgari hátt. Með þessu styður lausnin við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, svo sem loftslagsaðgerðir (markmið 13) og nýsköpun í innviðum (markmið 9).

Árangur og viðurkenning frá almenningi

Notendur hafa lýst yfir ánægju með Stafrænt pósthólf vegna bættra samskipta við hið opinbera, en í þjóðarpúlsi Gallup frá haustinu 2024 kom fram að tæplega 94% aðspurðra eru ánægðir með Stafrænt pósthólf.

Framtíðarsýn Stafræns Íslands er að Ísland skipi sér í allra fremstu röð í heiminum í stafrænni þjónustu. Stafræn samskipti verði meginsamskiptaleiðfólks og fyrirtækja við hið opinbera. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með stefnumótun stjórnvalda um upplýsingatækni. Stafrænt Ísland vinnur að framgangi verkefna þvert á stofnanir ríkisins með það að markmið að efla stafræna þjónustu. Eitt af þeim verkefnum sem stuðla að því er Stafrænt pósthólf.

Stafrænt pósthólf er einstakt dæmi um hvernig nýsköpun og skilvirkni geta umbreytt opinberri þjónustu. Það býður upp á notendavæna, örugga og þægilega lausn sem eykur aðgengi að upplýsingum og einfaldar samskipti milli almennings og hins opinbera.

Lesa nánar um Stafræna pósthólfið.