23. september 2021
23. september 2021
Tímamót: Fjármögnun Landspítala þjónustutengd frá næstu áramótum
Klínísk starfsemi Landspítala verður frá 1. janúar næstkomandi fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu þar sem byggt er á DRG; alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma. „Þessi breyting er bylting, jafnt fyrir spítalann og fjárveitingarvaldið. Markmiðið er að fjármögnun spítalans sé sanngjörn og raunhæf, í samræmi við þjónustuna sem sjúkrahúsið veitir og skýr markmið fjárveitingarvaldsins um magn hennar og gæði“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við undirritun samnings Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala um innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar Landspítala í dag. Þetta er stærsti samningur um kaup á heilbrigðisþjónustu sem gerður hefur verið hér á landi.
Markvissari kaup á heilbrigðisþjónustu
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sett markmið um að fjármögnun allrar sjúkrahússþjónustu verði þjónustutengd, enda séu greiðslukerfin þýðingarmikil tæki til að stýra þeim fjármunum sem ríkið vill verja til heilbrigðisþjónustu og hvernig þeir nýtast sjúklingum. Bent er á að fjármögnun heilbrigðiskerfisins af hálfu hins opinbera verði að byggjast á skýrri sýn sem tryggi að fjármunum sé varið til þeirrar þjónustu sem mest þörf er fyrir á hverjum tíma og í samræmi við skynsamlega forgangsröðun. Samningurinn um breytta fjármögnun Landspítala er stór áfangi sem miðar að þessu marki og samræmist vel ábendingum sem Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert um þörf fyrir markvissari kaup á heilbrigðisþjónustu sem byggjast á ítarlegri kostnaðar- og þarfagreiningu.
Markmið og ávinningur
Fjárveitingar taka mið af raunverulegu umfangi þjónustu og raunkostnaði
Aukið gegnsæi við úthlutun fjármagns
Auðveldara að gera áætlanir og setja markmið um magn þjónustu í samræmi við þörf þeirra sem á henni þurfa að halda
Stuðlar að aukinni skilvirkni ásamt betra eftirlit með gæðum, umfangi og hagkvæmni þjónustunnar
Með samningnum verður fjármögnun Landspítala að stórum hluta þjónustutengd, þ.e.a.s. klíníski hluti starfseminnar, en verkefni sem t.d. tengjast hlutverki hans á sviði kennslu og vísinda, stofnkostnaðar og meiriháttar viðhalds verða fjármögnuð með föstum fjárveitingum eins og áður.
Í stuttu máli byggist þjónustutengd fjármögnun á því að þjónusta/framleiðsla spítalans er greind niður í flokka samkvæmt sjúkdómaflokkunarkerfi. Hver flokkur lýsir umfangi þeirrar þjónustu sem liggur að baki, t.d. vegna tiltekinna aðgerða eða meðferðar við tilteknum sjúkdómum. Umfangið er mælt í svokölluðum DRG einingum. Greiðslur fyrir aðgerð eða meðferð ráðast af fjölda DRG eininga þar sem einingaverðið er fast og fyrir liggur hvað margar DRG einingar hver aðgerð eða meðferð felur í sér að meðaltali.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands: „Þetta er sannarlega stórt skref í íslenskri heilbrigðisþjónustu og mikilvægur liður í að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í fjárveitingum og þar með í starfsemi og rekstri heilbrigðisstofnana. Landspítali á heiður skilinn fyrir þann vandaða undirbúning sem þar hefur þegar farið fram og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala fagnaði undirrituninni : „Undirbúningur að þessu hefur staðið í ríflega 15 ár á Landspítala og við erum því afskaplega ánægð að þessum áfanga sé náð. Framundan er mikil breyting á hluta rekstrar spítalans sem við erum spennt að taka þátt í.
Þjónustutengd fjármögnun sjúkrahússþjónustu er vel þekkt víða um heim, þessi aðferð hefur verið innleidd í flestum Evrópuríkjum. Norðurlandaþjóðirnar hafa um árabil unnið saman að innleiðingu á sameiginlegu DRG flokkunarkerfi, svonefndu NordDRG, sem Landspítali hefur stuðst við í kostnaðargreiningu innan spítalans.“
Unnið er að því að innleiða einnig þjónustutengda fjármögnun Sjúkrahússins á Akureyri. Ítarlega er fjallað um þjónustutengda fjármögnun í skýrslu ráðuneytisins um aukna framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu með nýju fjármögnunarkerfi og leiðbeinandi viðmiðum sem birt var í nóvember á liðnu ári.