Fara beint í efnið

8. maí 2024

Þrjú verkefni hlutu Nýsköpunarverðlaun hins opinbera

Nýsköpunarverðlaun hins opinbera eru veitt í aðdraganda Nýsköpunardags hins opinbera sem fer fram 15. maí næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica.

Verðlaunahafar nýsköpunarverðlaun hins opinbera 2024

Þrjú verkefni hlutu Nýsköpunarverðlaun hins opinbera árið 2024 sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur á sviði nýsköpunar í opinberri starfsemi. Alls bárust vel á fjórða tug tilnefninga en dómnefnd skipuð fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Sýslumenn

Sýslumenn hlutu viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf við sjálfvirknivæðingu opinberrar þjónustu, og sérstaklega stafræna málsmeðferð dánarbúa. Alls voru 92% útgefinna dánarvottorða í lok árs 2023 stafræn, en voru 26% í byrjun sama árs. Sýslumenn fá helstu lykilupplýsingar á borð við skattframtöl og ökutækjaeignir sjálfkrafa í ferlinu, aðstandendur geta fyllt allar yfirlýsingar og umsóknir út stafrænt, sem hefur gert umsóknarferlið einfaldara og fljótlegra.

sýslumenn verðlaunahafar

Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabær

Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabær hlutu sameiginlega viðurkenningu fyrir verkefni varðandi útboð og innleiðingu á velferðartæknilausn sem hefur gert heilbrigðis- og félagsþjónustuveitendum á velferðarsviði sveitarfélaganna kleift að stórefla upplýsingamiðlun sín á milli og hámarka skilvirkni við veitingu fjölbreyttrar þjónustu í heimahúsum. Þjónustunotendur hafa einnig öðlast betri yfirsýn á skipulagi sinnar þjónustu.

rvk og vestmannaeyjar verðlaunahafar

Árborg

Þá fékk sveitarfélagið Árborg sérstaka viðurkenningu fyrir framfaradrifinn metnað á sviði umbóta og stafrænnar þjónustu sveitarfélagsins. Í erfiðu árferði hefur Árborg lyft grettistaki í stafrænni umbreytingu með fjölbreyttum stafrænum umbótaverkefnum sem hafa skilað bættri yfirsýn stjórnenda á verkefnin og dregið úr álagi starfseminnar.

árborg verðlaunahafar

Nýsköpunardagurinn er framundan

Nýsköpunarverðlaun hins opinbera eru veitt í aðdraganda Nýsköpunardags hins opinbera sem fer fram 15. maí næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica. Þar verður fjöldi erinda með sérstaka áherslu á gervigreind og hvernig hún getur hjálpað við að leysa ýmsar áskoranir í rekstri og þjónustu. Frekari upplýsingar um Nýsköpunardaginn má finna hér:

NHO24: Opinber hagnýting á gervigreind | Ísland.is (island.is)