Fara beint í efnið

4. október 2024

„Það eru bara algjörir snillingar hérna!“

HSU á Selfossi // Unnur Eyjólfsdóttir, deildarstjóri Foss- og Ljósheima, öldrunardeildar

Unnur Eyjólfsdóttir, deildarstjóri Foss- og Ljósheima, öldrunardeildar HSU á Selfossi.

Unnur Eyjólfsdóttir, deildarstjóri Foss- og Ljósheima, öldrunardeildar HSU á Selfossi.

Viðmælandi okkar að þessu sinni er Unnur Eyjólfsdóttir, en hún er deildarstjóri Foss- og Ljósheima hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi (HSU). „Þetta er öldrunardeild og heimilisfólkið er 40 talsins, flest eldri en 70 ára. Okkar hlutverk er að aðstoða heimilisfólk við athafnir dagslegs lífs og annað sem þau þurfa á sínum síðustu árum, mánuðum eða vikum lífsins. Við leggjum mikið upp úr því að skjólstæðingum okkar líði vel, allt fram á síðustu stund. 85 starfsmenn eru hjá Foss- og Ljósheimum og við höfum hérna framúrskarandi blöndu af ófaglærðu fólki, virknisstarfsfólki, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Þau yngstu er að verða 18 ára og elsti er 67 ára, þannig að breiddin er mikil og við erum alveg einstaklega heppin með þennan frábæra hóp,“ segir Unnur.

MEISTARANÁM Í FORYSTU OG STJÓRNUN
Við forvitnumst um bakgrunn Unnar. „Ég fæddist á HSU hérna á Selfossi hinn 8. nóvember árið 1984. Menntavegurinn gekk þannig fyrir sig að ég var í Sandvíkurskóla þangað til í 5. bekk. Fór þá yfir í Vallaskóla og var þar út 10. Bekk. FSU tók við eftir það eins og hjá flestum Selfyssingum. Þaðan fór ég beint í Háskóla Íslands að læra hjúkrunarfræði og útskrifaðist þaðan 2008. Fór þá í diplómanám í bráðahjúkrun og útskrifaðist þaðan 2010. Nú er ég komin aftur í skóla og meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðstjórnun í Háskólanum á Bifröst. Mjög spennandi verkefni, en auðvitað er smávegis skrýtið að vera komin aftur í skóla eftir 14 ára skólafrí.“

FERILLINN BYRJAÐI Í PULLÓ
Hvað með fyrri störf fram að núverandi starfi? „Ég vann eins og margar stelpur á Selfossi í Pylsuvagninum eða Pulló frá 16 ára aldri og þangað til ég fór í Háskólann. Eftir það byrjaði ég að vinna á bráðamóttöku barna með námi. Vann síðan þar eftir útskrift og þangað til við fluttum til Noregs 2011. Í Noregi byrjaði ég að vinna í heimahjúkrun og heillaðist þá af hjúkrun aldraðra. Var þar sem almennur hjúkrunarfræðingur til ársins 2017 og fékk þá stöðu aðstoðardeildarstjóra og hafði yfirumsjón með öllu sem tengdist mínum skjólstæðingum í heimahjúkrun. Fluttum heim aftur í desember 2021. Mánuði seinna byrjaði ég sem aðstoðardeildarstjóri á Foss- og Ljósheimum. Síðan gengur hlutirnir mjög hratt fyrir sig og 1. ágúst tók ég yfir sem deildarstjóri, þá yfir Foss- og Ljósheimum og Móbergi. Ég fékk nefnilega þann heiður að setja á laggirnar nýja hjúkrunarheimilið okkar, Móberg, sem við opnuðum hérna við Árveg í október 2022. Nýr deildarstjóri tók svo yfir Móberg í júní 2023 og núna er ég með Foss- og Ljósheima.“

FJÖGUR BÖRN OG TVÆR KISUR
En hvernig eru fjölskylduhagir viðmælanda okkar? „Ég er gift Ástmari Karli Steinarsyni byggingaverkfræðingi og við eigum fjögur börn, Pálmar Óla, Sunnevu Ösp, Eyrúnu Ýr og Brimar Stein og tvær kisur að auki, Selmu og Lailu. Með öll þessi börn fer mestur tíminn í þau utan vinnu, en mér finnst samt mjög gaman að spila allskonar borðspil og prjóna þegar færi gefst!“

LJÓSMÓÐURSTARFIÐ HEILLAÐI
„Ég ætlaði mér að verða ljósmóðir eins og Guðfinna frænka mín, en hún tók einmitt á móti mér. Síðan bauðst með staða með skólanum á bráðamóttöku barna og þá varð ég heilluð af barna-og bráðahjúkrun. Ætlaði mér ekki að vinna við neitt annað. Svo fluttum við hins vegar út til Noregs og þar fékk ég vinnu við heimahjúkrun þar sem 95% eru einstaklingar eldri en 75 ára. Ég ætlaði að stoppa þar í nokkra mánuði meðan ég væri að ná tungumálinu, en ílengdist þar og vildi síðan ekki fara neitt annað. Vann sem sagt við heimahjúkrun í Noregi í 9 ár.“

STEKKUR Á GANGINN Í NEYÐ
Við spyrjum Unni aðeins nánar út í hennar verkahring. „Deildarstjórastarfið felur í sér að hafa yfirumsjón yfir öllu starfi á deildinni. Þar má nefna áætlanir og verkferlar fyrir starfið á deildinni, skipuleggja vaktir og passa að við séum með nóg af starfsfólki á öllum vöktum. Við það bætist að ráða nýtt fólk inn þegar vantar og vera alltaf tilbúin að stökkva sjálf á ganginn þegar vantar mannskap. Sömuleiðis tek ég þátt í margvíslegri teymisvinnu til að bæta verkferla og gæðastarf og annað skipulag.“

ENGINN DAGUR EINS
Hvað er það besta við Foss- og Ljósheima? „Það er klárlega heimilisfólkið, en auðvitað líka starfsfólkið. Það eru bara algjörir snillingar hérna og svo gerir heimilisfólkið dagana skemmtilega með öllum sínum sögum og tilsvörum! Ég verð líka að nefna að ég kann ótrúlega vel að meta það hérna að enginn dagur er eins og fjölbreytnin gríðarlega mikil. Ég virka eiginlega best þegar ég get mætt í vinnuna og veit aldrei hvernig dagurinn verður!“

Unnur Eyjólfsdóttir deildarstjóri, Þorbjörg Hlín Guðmundsdóttir virkni- og býtibúrsstarfsmaður, Rebekka Dröfn Ragnarsdóttir í aðhlynningu og Svandís Rós Treffer í aðhlynningu.

Frá vinstri til hægri eru Unnur Eyjólfsdóttir deildarstjóri, Þorbjörg Hlín Guðmundsdóttir virkni- og býtibúrsstarfsmaður, Rebekka Dröfn Ragnarsdóttir í aðhlynningu og Svandís Rós Treffer í aðhlynningu.

Ragnheiður Jóna Högnadóttir virkni- og býtibúrsstarfsmaður, Jóhanna Guðmundótir í aðhlynningu, Emilía Torfadóttir í aðhlynningu og Hera Lind Gunnarsdóttir í aðhlynningu.

Frá vinstri til hægri eru Ragnheiður Jóna Högnadóttir virkni- og býtibúrsstarfsmaður, Jóhanna Guðmundótir í aðhlynningu, Emilía Torfadóttir í aðhlynningu og Hera Lind Gunnarsdóttir í aðhlynningu.