18. janúar 2024
18. janúar 2024
Stafrænt Ísland tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna
Stafrænt Ísland er tilnefnt í flokki sem snýr að opinberri stjórnsýslu og þátttöku borgara e. Government & Citizen Engagement.
WSA (World Summit Awards) verðlauna árlega verkefni sem stuðla að stafrænni nýsköpun í þágu samfélagslegra umbóta. Verðlaun eru veitt í átta flokkum en Stafrænt Ísland er tilnefnt í flokki sem snýr að opinberri stjórnsýslu og þátttöku borgara e. Government & Citizen Engagement.
Tilnefningin er viðurkenning á þeirri vinnu sem stjórnvöld hafa lagt í við að efla stafræna innviði í þágu samfélagsins. Hún er vitnisburður um að við séum að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar opinberrar þjónustu. Það er mjög ánægjulegt að eftir þessu sé tekið á alþjóðavettvangi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra
Verðlaunahátíðin fer fram í Patagonia Chile um miðjan apríl.
WSA hefur í tvo áratugi verðlaunað verðug verkefni en aðilar í 182 löndum hafa fengið þennan gæðastimpil. WSA var stofnað fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna árið 2003 og hefur það markmið að bæta aðgengi allra að stafrænum heimi. WSA metur verkefni út frá áhrifum á nærsamfélagið og hvernig þau styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Stafrænt Ísland er verkefnastofa innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar starfa 11 manns en rúmlega 250 manns hjá stofnunum og samstarfsfyrirtækjum miðla til Ísland.is samfélagsins. Stafrænt Ísland aðstoðar opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari.