16. október 2024
16. október 2024
Skilvirk vinna við stafræna útfærslu húsnæðiskaupa í Grindavík
Sýslumenn fengu það hlutverk að hafa umsjón með stafrænni útfærslu verkefnisins sem gerði íbúum Grindavíkur kleift að selja ríkissjóði húsnæðið sitt að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Umsækjendur gátu í kjölfarið fyllt út umsókn á Ísland.is.
Allt frá því að eldgosahrinan við Sundhnúksgíga hófst norðan Grindavíkur síðla árs 2023 tók við breyttur veruleiki hjá bæjarbúum. Bærinn var rýmdur og verulegt eignatjón varð á fasteignum og innviðum. Í kjölfarið tók ríkissjóður yfir húsnæðislán fjölmargra Grindvíkinga og fengu fjöldi fasteignaeigenda andvirði 95% af brunabótamati að frádregnum lánum og gátu nýtt eigið fé til húsnæðiskaupa annars staðar.
Óhætt er að segja að mikil vinna var unnin á stuttum tíma. Þann 23. febrúar 2024 hófst stafræna vegferðin og 8. mars var fyrsta umsóknin tilbúin. Alls bárust yfir 200 umsóknir fyrsta daginn og voru þær mótteknar án vandræða fyrir eigendur. Þann 12. apríl gengu fyrstu kaupin í gegn og 25. júní voru fyrstu afsölin tilbúin. Þann 27. september hafði 888 kaupsamningum verið þinglýst og 676 afsölum vegna kaupa á húsnæði í Grindavík.