2. júlí 2021
2. júlí 2021
Sjúkratryggingar fyrstar í nýju umsóknarkerfi Ísland.is
Þeir sem þurfa á sjúkratryggingu að halda geta nú sótt um hana hjá Sjúkratryggingum Íslands í gegnum nýtt umsóknarkerfi Ísland.is.
Þeir sem þurfa á sjúkratryggingu að halda geta nú sótt um hana hjá Sjúkratryggingum Íslands í gegnum nýtt umsóknarkerfi Ísland.is. Umsókn um sjúkratryggingu er fyrsta umsóknin í nýja kerfinu en það hefur verið í smíðum undanfarin misseri og einfaldar alla vinnslu bæði fyrir móttakanda sem og umsækjendur.
Síðustu mánuðir hafa farið í að styrkja kjarnaþjónustur Ísland.is og má þar nefna umsóknarkerfið, innskráningarþjónustuna, umboðskerfið og Mínar síður. Kjarnaþjónusturnar eru nú að fá tímabæra uppfærslur og mun framvegis öll nýþróun eiga sér stað þar. Á næstu vikum munu þessar þjónustur standa opinberum stofnunum til boða sem mun spara stofnunum sem og almennum notendum tíma, fyrirhöfn og fjármagn.
"Það er frábært að fá Sjúkratryggingar Íslands í hóp samstarfsaðila okkar. Það hefur verið frábært að vinna með þeim og styrkur í að fá þau með í þá þróun sem hefur átt sér stað. Þessi breyting mun styrkja bæði þjónustu Sjúkratrygginga Íslands sem og vonandi upplifun þeirra sem þangað sækja. Við hlökkum til að vinna áfram með þeim" segir Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands.
„Þetta verkefni er liður í að bæta þjónustu okkar við notendur og jafnframt einfalda okkar vinnuferla. Við hófum samstarfið við Stafrænt Ísland með umsókn um sjúkratryggingu. Þegar er hafin vinna við næsta verkefni sem er tilkynning um slys. Fjöldi annarra umsókna er svo á teikniborðinu.“ segir María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Umsókn um sjúkratryggingu á við um þá sem eru að flytja til Íslands frá öðru landi innan evrópska efnahagssvæðisins, Grænlandi eða Færeyjum til að kanna réttindastöðu sína. Nánari upplýsingar um umsókn um sjúkratryggingu má finna á Ísland.is undir Umsókn um sjúkratryggingu
Fjöldinn allur af viðamiklum umsóknum er á leið inn í nýja umsóknarkerfið frá hinum ýmsu stofnunum og má þar nefna umsókn um fæðingarorlof þar sem fjöldi aðila kemur að einni umsókn.