22. október 2021
22. október 2021
Sjúkratryggingar endurskoða ákvarðanir um miska og læknisfræðilega örorku fjögur ár aftur í tímann
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ákveðið að endurskoða ákvarðanir sem tengjast bótagreiðslum úr sjúklinga- og slysatryggingum vegna miska eða læknisfræðilegrar örorku síðustu fjögur ár. Farið verður í gegnum allar ákvarðanir sem teknar hafa verið vegna bótagreiðslna, frá og með 3. júní 2017.
Í þess konar bótamálum er algengt að leggja þurfi saman svokölluð miskastig, samkvæmt miskatöflu örorkunefndar. Endurskoðunin nú mun taka til allra ákvarðana þar sem svokallaðri hlutfallsreglu var beitt við samlagninguna. Einungis verða endurupptekin þau mál þar sem talið er að endurskoðun geti leitt til hærri bótagreiðslna til tjónþola.
Endurupptaka málanna mun hefjast á næstunni. Þar sem að um talsverðan fjölda mála er að ræða er ljóst að nokkurn tíma mun taka að fara í gegnum þau og meta hvaða mál verða tekin upp. Þar sem endurupptakan er að frumkvæði SÍ þurfa tjónþolar eða umboðsmenn þeirra ekki að óska sérstaklega eftir að mál þeirra verði endurskoðuð. Vakin er athygli á því að vextir reiknast á bótagreiðslur til greiðsludags.
Tilefni endurskoðunarinnar er dómur Hæstaréttar frá 3. júní 2021 í máli nr. 5/2021, sem höfðað var gegn tryggingafélagi, þar sem grundvöllur hlutfallsreglunnar hlaut ekki staðfestingu. Áhrif dómsins hafa verið til ítarlegrar skoðunar hjá SÍ og leiddi sú skoðun til þess að ákveðið var að fara yfir öll mál þar sem reglunni hafði verið beitt, fjögur ár aftur í tímann.