Fara beint í efnið

1. febrúar 2023

Stafræn beiðni um könnun hjónavígsluskilyrða

Öll sem hyggjast ganga í hjónaband þurfa að undirgangast könnun hjónavígsluskilyrða hjá sýslumanni en það er forsenda þess að hjónavígsla megi fara fram.

Hringur

Frá og með deginum í dag geta hjónaefni sótt um með stafrænum hætti á vefsvæði sýslumanna á Ísland.is. Með því að notast við stafrænt umsóknarferli er hægt að leggja inn umsókn, undirrita hana með rafrænum hætti, óska undirritunar tveggja svaramanna, óska eftir fylgigögnum frá Þjóðskrá Íslands og greiða fyrir ferlið – allt án þess að heimsækja sýsluskrifstofu.

Þau sem geta nýtt sér ferlið þurfa að vera með kennitölu, rafræn skilríki og persónuupplýsingar þeirra þurfa að vera fyrirliggjandi í gagnagrunni Þjóðskrár Íslands. Að málsmeðferð lokinni fá hjónaefnin könnunarvottorð sent í Stafrænt pósthólf þeirra á Ísland.is.

Um er að ræða enn eitt framfaraskrefið í stafrænni þjónustu sýslumanna þar sem stofnanir ríkisins eru tengdar saman við vinnslu mála til þess að spara fólki sporin.