15. september 2021
15. september 2021
NIIS netráðstefna
Þann 24. september nk. stendur NIIS fyrir ráðstefnu sem m.a. snýr að hvernig best má nýta Strauminn (X-Road) með skýjalausn AWS (Amason Web Services). Vigfús Gíslason vörustjóri Straumsins hjá Stafrænu Íslandi mun flytja erindi á ráðstefnunni sem snýr að uppbyggingu Straumsins á Íslandi.
NIIS stendur fyrir Nordic Institute of Interoperability Solutions sem kemur að þróun Straumsins og annarra stafrænna lausna fyrir opinbera aðila þvert á landamæri. NIIS var stofnað af Eistum og Finnum sem eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að stafrænum innviðum og uppbyggingu en fátt er mikilvægara en öruggur flutningur gagna í því samhengi. Straumurinn er gagnaflutningslag sem tryggir öruggan flutning gagna milli opinberra og einkaaðila en eitt af markmiðum stafrænnar stefnu hins opinbera er að flytja gögn en ekki fólk milli staða.
Ísland var fyrsti formlegi samstarfsaðili NIIS, en síðan hafa Færeyjar bæst í hópinn og í bígerð er að Noregur og Svíþjóð gerist samstafsaðilar á komandi ári. Með fullri aðild að NIIS fær Ísland bein áhrif á framþróun Straumsins og eignast fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Meðal þarfa sem mikilvægt er að taka tillit til í þróun og uppbyggingu Straumsins er aðlögun að tillögum Íslands vegna einföldunar á uppsetningu hjá stofnunum. Þá er það einnig hagsmunamál Íslands út frá öryggissjónarmiðum að vera fullgildur aðili stofnunarinnar þar sem stafrænir innviðir á Íslandi munu að umtalsverðu leyti byggjast á Straumnum.
Skráning á ráðstefnuna X-Road Community Event.
Ráðstefnan fer fram á netinu og þátttakendum að kostnaðarlausu.