14. maí 2024
14. maí 2024
Lög um sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur samþykkt á Alþingi
Framkvæmdanefndin tekur formlega til starfa 1. júní nk. þegar lögin taka gildi. Undirbúningur að starfi nefndarinnar er þegar hafinn og skipan hennar verður kynnt innan skamms.
Alþingi samþykkti í dag lagafrumvarp innviðaráðherra um sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar. Framkvæmdanefndin tekur formlega til starfa 1. júní nk. þegar lögin taka gildi. Undirbúningur að starfi nefndarinnar er þegar hafinn og skipan hennar verður kynnt innan skamms.
Framkvæmdanefndin mun fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggja skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hafa heildaryfirsýn yfir málefnum Grindavíkurbæjar. Verkefnið hefur verið undirbúið í góðu samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra: „Það er mikils vert að Alþingi hafi nú samþykkt lög um stofnun framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur. Með þessum hætti er aðkoma ríkisins gerð skýrari en verið hefur þannig að aukinn árangur náist. Þetta er þýðingarmikið skref í viðleitni okkar að hlúa að íbúum Grindavíkurbæjar og styðja við samfélagið og íbúa Grindavíkur til framtíðar.“
Nánar um framkvæmdanefndina
Framkvæmdanefnd er fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hefur með höndum fjölþætt verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Helstu verkefni nefndarinnar munu snúa að samfélagsþjónustu með því að starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu og framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík.