Fara beint í efnið

18. október 2024

Lífeindafræði, kórsöngur, samkvæmisdansar og hjólreiðar

HSU á Selfossi // Kolbrún Káradóttir, yfirlífeindafræðingur

Kolbrún Káradóttir

Kolbrún Káradóttir, yfirlífeindafræðingur HSU á Selfossi.

Viðmælandi okkar í þetta skiptið er Kolbrún Káradóttir, yfirlífeindafræðingur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Það er viðeigandi að Kolbrún er fædd 30.október 1967 á gamla sjúkrahúsinu á Selfossi. Eftir stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands hóf hún nám í lífeindafræði við Tækniskóla Íslands og lauk þaðan prófi í lok október 1992. Síðan þá hefur hún annars vegar bætt við sig diplómanámi í sýklafræði og hins vegar lokið meistaranámi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

RÍKIDÆMIÐ HEIMA VIÐ
Kolbrún er gift Magnúsi Ólasyni, tæknifræðingi hjá verkfræðistofunni Eflu og þau eiga mikið ríkidæmi heima við, alls fjögur börn og sex barnabörn. Við forvitnumst um fyrri störf. „Sem unglingur vann ég til dæmis í fiskvinnslu og garðyrkju, á veitingastað og almenn afgreiðslustörf hér og þar. Eftir stúdentspróf vann ég svo í Verslunarbanka Íslands þar til ég byrjaði í námi í lífeindafræði. Með námi og eftir útskrift starfaði ég sem lífeindafræðingur á Borgarspítalanum í Fossvogi í nokkur ár.”

LÍFLEGAR FRÍSTUNDIR
Hvað með lífið utan vinnu; er hún með einhver áhugamál eða ástríður? „Ég söng í meira en tuttugu ár með Jórukórnum hér á Selfossi sem var mjög skemmtilegur tími. Við hjónin höfum lengi verið í samkvæmisdönsum með frábæru fólki þar sem segja má að samveran sé mikilvægari en árangur á dansgólfinu. Mér finnst einstaklega gaman að hjóla og hef verið í hjólaklúbb HSU í um 15 ár og farið í hjólaferðir bæði innanlands og erlendis. Í janúar 2023 fór ég síðan með nokkrum úr fjölskyldu minni í mjög eftirminnilega hjólaferð um Tæland. Ég er mikil fjölskyldumanneskja og finnst fátt skemmtilegra en samvera með þeim.”

ÁHUGI Á RAUNGREINUM
En hvers vegna valdi hún starfsferil lífeindafræðingsins? „Ég hafði mjög gaman af öllum raungreinum í FSU og þá sérstaklega líffræði sem tengdist mannslíkamanum. Eftir stúdentspróf fór ég aftur á móti að vinna í banka sem mér líkaði ágætlega í fyrstu. Eftir ákveðinn tíma þar fann ég samt að það var ekki eitthvað sem ég vildi leggja fyrir mig. Vorið 1989 fór Tækniskólinn að auglýsa sérstaklega nám í lífeindafræði því mjög hafði dregið úr aðsókn í námið þegar alnæmi kom upp. Þegar ég kynnti mér námið sá ég að það fól í sér mikið raungreina- og tækninám ásamt því að læra ítarlega um starfsemi mannslíkamans. Þetta sambland hentaði því mínu áhugasviði mjög vel og ég sló til.”

SKIPULAG OG GÆÐI
Kolbrún segir okkur því næst frá starfi yfirlífeindafræðings hjá HSU á Selfossi. „Starf yfirlífeindafræðings felur í sér mikla skipulagsvinnu eins og að gera vaktaskýrslur og sjá til þess að næg mönnun sé á deildinni, ásamt því að raða starfsfólki niður á starfsstöðvar. Innra og ytra gæðaeftirlit er mjög mikilvægt á rannsóknarstofu og yfirlífeindafræðingur ber ábyrgð á að það sé til staðar og að bregðast við ef þörf krefur. Innra eftirlitið felur í sér að mæla daglega sýni með þekkta niðurstöðu. Ytra eftirlitið felur í sér að við fáum send sýni með óþekktri niðurstöðu frá fyrirtæki í Finnlandi sem nokkur hundruð rannsóknastofur í norður Evrópu skipta við. Við mælum sýnin, sendum svörin til Finnlands og fáum þá samanburð við aðila sem nota sömu rannsóknaraðferðir og getum þannig fylgst með hvernig við stöndum okkur. Yfirlífeindafræðingur ber einnig ábyrgð á því að fylgjast með þróun í rannsóknum, meta hvaða rannsóknartæki henta best starfseminni og hvaða rannsóknir er skynsamlegt að framkvæma á Selfossi.”

12 MANNA RANNSÓKNARSTOFA
Við spyrjum um hennar starfseiningu og þeirra verkefni. „Á rannsóknarstofunni starfa tólf einstaklingar. Þar af eru átta lífeindafræðingar, þrír sjúkraliðar og einn móttökuritari. Starfsfólk rannsóknarstofunnar er mikið í blóðtökum, þá sérstaklega á göngudeild rannsóknarstofunnar, en einnig á öðrum deildum á Selfossi og á heilsugæslustöðvum í Þorlákshöfn og Hveragerði. Stærsti hluti rannsókna er framkvæmdur hér á Selfossi, en ýmsar sérrannsóknir eru sendar á Landspítalann og við sjáum um frágang á þeim sýnum. Við vinnum rannsóknir í klínískri lífefnafræði, blóðmeinafræði og sýklafræði.”

STÖÐUG AUKNING
Er eitthvað nýtt framundan eða á sjóndeildarhringnum í vinnunni, sem gaman er að segja frá? „Helsta áskorunin í starfsemi rannsóknarstofunnar er að takast á við stöðuga aukningu á rannsóknum milli ára. Við erum alltaf að endurmeta hvaða rannsóknartæki henta starfseminni og hvernig við bætum þjónustuna. Við erum því til að mynda að skoða að skipta út stóru tæki sem við erum með fyrir mælingar í klínískri lífefnafræði og fá inn tvö nettari tæki. Með því getum við sinnt bráðarannsóknum ef annað tækið bilar, en það er gríðarlega mikilvægt fyrir bráðaþjónustuna hjá okkur.”

GÓÐUR STARFSANDI
Hvað er það besta við vinnustaðinn? „Samstarfsfólkið og starfsandinn er það klárlega það besta við vinnustaðinn. Við erum mörg búin að vinna lengi saman og þekkjumst því vel. Nýtt starfsfólk sem hefur bæst við síðustu ár hefur fallið vel inn í hópinn og skapað meiri fjölbreytileika hjá okkur.”

Lóa Björk Óskarsdóttir, Silja Dröfn Sæmundsdóttir, Rut Björnsdóttir, Kolbrún Káradóttir

Frá vinstri til hægri eru Lóa Björk Óskarsdóttir, Silja Dröfn Sæmundsdóttir, Rut Björnsdóttir og Kolbrún Káradóttir.

Rut Björnsdóttir, Freydís Pétursdóttir, Silja Dröfn Sæmundsdóttir, Lóa Björk Óskarsdóttir

Frá vinstri til hægri eru Rut Björnsdóttir, Freydís Pétursdóttir, Silja Dröfn Sæmundsdóttir og Lóa Björk Óskarsdóttir.

Silja Dröfn Sæmundsdóttir

Silja Dröfn Sæmundsdóttir.

Freydís Pétursdóttir

Freydís Pétursdóttir.

Texti: Stefán Hrafn Hagalín
Myndir: Valgarður Gíslason